26.03.1930
Neðri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

1. mál, fjárlög 1931

Pétur Ottesen:

Ég sakna nú að vísu tveggja hv. dm., sem ég vildi gjarna tala við. En ég þarf líka að tala við hæstv. ráðh., og þeir eru staddir hér. Það er þá rétt að byrja á höfðinu.

Þegar hæstv. forsrh. fór að svara mér fyrir ræðu mína í fyrrakvöld, þá dró hann fram eitthvað tíu dæmi, vitanlega af miklu fleiri dæmum, þar sem ég hafði sannað, að hann hefði breytt gegn fyrri skoðun sinni. Breytni hans síðan hann varð ráðh. hefir yfirleitt verið gagnstæð orðum hans sem ritstjóra Tímans og þm. Str. á undanförnum þingum. Ég veit ekki, hvers vegna hann valdi töluna tíu. Það er, eins og kunnugt er, boðorðatalan. Mér er ekki kunnugt um, hvernig honum hefir gengið að halda þau. Hitt er víst, að þessi 10 boðorð sín hefir hann brotið öll saman. Það, sem hann færði til málsbóta fyrir snúningi sínum, var vitanlega bara viðbótarsönnun fyrir því, sem ég hafði haldið fram. Ég hafði gleymt einu, sem hann minnti á. Hann hafði borið fram frv. um að fækka dýralæknum. Það er víst eina sparnaðartilraunin. (Forsrh.: Ein af mörgum). Nei, það var víst aðeins sú eina, eins og hann talaði þó um embættafjöldann. Og jafnframt því taldi hann sig alltaf vin bændanna, svo að það er dálítið undarlegt, að hann skyldi bera þarna fyrst niður, þar sem þessir læknar, sem eiga að vernda bústofn bænda, eru ekki svo margir.

Hann sagði, að búið hefði verið að veita fræðslumálastjórastöðuna áður en hann varð ráðh. Á þinginu 1925 bar hann fram þál. um að veita ekki þetta embætti nýjum manni fyrr en þingið hefði athugað, hvort ekki væri hægt að sameina það öðru. Og á þinginu 1927, þegar sama mál var til umr., þá greiddi hæstv. forsrh. atkv. á móti, að viðhöfðu nafnakalli. Það voru ekki liðin nema tvö ár á milli.

Hæstv. ráðh. gat ekki hrakið það, að stj. hefði þyngt mikið skattana og væri á ferðinni með frv., sem þyngdu þá enn meira.

Hann sagði, að útvarpsstjóri hefði ekki ákveðin laun. Hverjir hafa þá ákveðin laun? Vill, hæstv. ráðh. ekki svara strax? Nú, ég sé, að hann vill láta það bíða. Vitanlega á hann að ákveða þessi laun samkv. 1. um útvarp. Þar stendur svo: „Útvarpsstjóri skal skipaður af atvmrh. samkvæmt tillögum útvarpsráðs- og símastjóra“. Hann talaði um, að tölur lægju fyrir því, hver laun þessa manns ættu að vera. Það var fengin n. manna til að undirbúa útvarpslögin fyrir þingið og í grg. hennar er gert ráð fyrir 7500 kr. launum. En þetta er aðeins hennar till. og ekki í frumvarpsformi. En nú er hæstv. ráðh. búinn að ákveða launin 9300 kr. með 40% dýrtíðaruppbót. Hann á ekki hægt með að vísa frá sér, að hann hafi ákveðið þessi laun.

Í sambandi við verðfestingu peninga sagði hæstv. forsrh., að hann væri ekki almáttugur. Ég hygg, að menn hafi ekki yfirleitt rekið upp stór augu við þá skýringu. Ég vil benda honum á, að á undanförnum þingum hefir verið boðin útrétt hönd til hjálpar við að ákveða verðfestingu peninganna. En alvaran hjá honum og flokki hans var ekki svo mikil, að hann fengist til að taka í þessa útréttu hönd. Það skyldi maður þó ekki hafa haldið eftir allan gauraganginn á þingunum 1926 og 1927, þegar vindurinn ætlaði að sprengja hann út af þessu máli. En stundum þarf ekki nema litla títuprjónsstungu til þess að hleypa vindinum út.

Þó að hæstv. forsrh. viki að mér út af vínverzluninni, ætla ég að geyma hana, þangað til ég fer að tala við hæstv. dómsmrh.

Þá er uppbót símaverkfræðings árin 1925–1927. Í gildandi lögum eru ákvæði um það, að þegar undirmaður verður að vinna eitthvert starf fyrir yfirmann sinn, þá er hann skyldugur til að gera það án aukaborgunar.

Það má ekki undir neinum kringumstæðum halda áfram á þessari hættulegu braut, sem hæstv. ráðh. hafa gengið inn á.

Um enska lánið og tryggingar þess sagði hæstv. forsrh., að hann treysti ekki núv. fulltrúa ríkisins, bankaeftirlitsmanninum, að athuga þær. (Forsrh.: Ekki einum). Ég fyrir mitt leyti álít, að stj. hefði verið alveg óhætt að fulltreysta honum einum til þess. En þar kemur náttúrlega fram skoðanamunur hjá mér og hæstv. ráðh.

Ég vil bera fram örlitla fyrirspurn til hæstv. forsrh. út af þýðingu á erlendum lögum, hvort það er rétt, að þessi þýðing, sem búið er að greiða 1.000 kr. fyrir, hafi reynzt svo léleg, að ekki hafi verið hægt að notast við hana, heldur hafi orðið að taka verkið upp að nýju. Ég er ekki með neinar fullyrðingar um þetta, en ef einhver fótur er fyrir því, þá væri það ný sönnun fyrir því, að stj. ætti ekki að taka framhjá sínum löggilta skjalaþýðara í stjórnarráðinu, þegar um slík störf er að ræða.

Þá ætlaði ég aðeins að minnast á þau svör, sem hæstv. forsrh. gaf mér við fyrirspurn minni um tekjur af eftirliti með verksmiðjum og bifreiðum. Hann sagði, að borgun fyrir þetta ætti að renna í ríkissjóð og koma sem sérstakur tekjuliður í fjárl. í framtíðinni. En ég vil benda honum á það, að eftir reglugerð um borgun fyrir eftirlitsstörf við bifreiðar, eiga allar tekjur, sem inn koma fyrir þau, að renna til eftirlitsmannanna sjálfra, hversu miklar sem þær eru. Ef það er meiningin, að þetta gjald renni til ríkisins, og þessir menn fái ákveðna borgun fyrir starf sitt úr ríkissjóði, eins og aðrir starfsmenn þess opinbera, held ég, að vissara væri að athuga reglugerðina, því að eftir henni á allt skoðunargjaldið að renna til þessara manna.

Þegar hæstv. forsrh. fór að tala um n., var helzt á honum að heyra, að það væri eitt af afreksverkum hæstv. núv. stj., hve hún hefir skipað margar n.. Það sýndi áhuga stj., dugnað hennar og framfarahug, o. s. frv. Í sambandi við þetta talaði hæstv. ráðh. um það, hversu miklu starfsamari núv. stj. væri en fyrrv. stj.

Það er nú svo um hvert mál sem á það er litið. Það er ekki hægt að búast við því, að hæstv. stj. sé starfsöm um undirbúning mála fyrir Alþingi, af þeirri einföldu ástæðu, að hún er gersamlega óstarfhæf á því sviði, enda sér það á í hinum aukna kostnaði við n. til undirbúnings stjfrv., auk þess sem stórfé hefir verið greitt til einstakra manna fyrir að undirbúa ýms mál, sem stj. hefir lagt fyrir þingið. Eru þess jafnvel dæmi, að hæstv. stj. hafi látið einstaka menn undirbúa mál, sem n. hafði áður haft til meðferðar, og mætti af því draga þá ályktun, að n. væri ekki allar skipaðar í þeim tilgangi að undirbúa mál fyrir þingið, heldur lægi þar annað á bak við. Það sýnir ljóslega háttsemi hæstv. stj. í þessu efni, að nýlega hefir hún látið semja reglugerð um mjög ómerkilegt atriði og sent Alþingi sem trúnaðarmál. Skal ég því ekki skýra frá því, hvaða atriði þetta er, en þessi reglugerð er 7 stuttar gr. auk aths. Fyrir samning hennar hafa verið greiddar 700 kr. til tengdaföður hæstv. forsrh.

Hæstv. ráðh. talaði um þann svip, sem væri á eldhúsdeginum nú, samanborið við það, sem áður hefði verið. En hvaða svipur kemur fram á eldhúsdegi? Það er svipurinn af stjórnarfarinu í landinu eins og það er á hverjum tíma.

Þá kem ég loks að því, sem hæstv. forsrh. hóf ræðu sína á, og var það, að mér léti að tala um smælkið, þ. e. smáupphæðirnar. Og hæstv. ráðh. bætti því við, að ég færi mjög vel með þetta. En það kom fram í gær, að þeir eru ekki sammála um þetta atriði, hæstv. forsrh. hæstv. fjmrh., því að þá var hæstv. fjmrh. að bera sig upp undan því, að ég seildist lengra en til smáupphæðanna, þar sem ég hefði verið að tala um fjárveitingar til hafnargerðanna og fjárstuðning til hinna ýmsu héraða, til þess að þau mættu koma sér upp raforkuveitum. Það hefir stundum komið fyrir áður, að hæstv. ráðh. hafa ekki verið sammála, og hefi ég ekki nema gaman af því að láta þá stangast út af þessu, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.

Það er alkunna, að hæstv. stj. er ekki við annað verra en að minnzt sé á bitlingana, þessar smáupphæðir, sem stj. í mikilleik sínum er hátt hafin yfir að drepa á, en þegar þetta er gert, er eins og komið sé við hjartað í hæstv. stj. Af hverju? Af því að almenningur út um land lítur bitlingafarganið með fyrirlitningu. Menn líta það allt annað en hýru auga, að stj. skuli ausa út fé í fullkomnu heimildarleysi á þennan hátt. Það er illt, að Alþingi geri þetta, en ennþá óviðkunnanlegra, að hæstv. stj. skuli gera það, því að þá bætist það við, að þetta er gert í algerðu heimildarleysi. Því verður ekki neitað, að eins og bitlingafarganið er rekið nú, er það hreinasta spilling. Hefi ég á undanförnum þingum, þegar ég hefi drepið á þetta, lesið upp lista yfir aukaborganir til ýmissa manna í stjórnarráðinu, sem hæstv. stj. hefir lagt blessun sína yfir, en sá er munurinn á þessu og öðrum bitlingum, að þetta er látið koma fram sem viðbótarborgun við laun þessara manna, fyrir starf sitt á stjórnarráðsskrifstofunum.

Ég hefi áður bent á það, að hæstv. stj. og ýmsir stuðningsmenn hennar hafa gripið til þess ráðs í sambandi við það, að ég hefi ráðizt á bitlingafarganið, að lýsa slíkt markleysu, með því að ég væri svo mikil smásál, að ég sæi ekki annað en smáupphæðirnar. Ég hefi áður drepið á það, sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta í gær, en ég vil segja hæstv. forsrh. og stuðningsmönnum hans það, að það vígi, sem hæstv. ráðh. er að reyna að gera sér til varnar bitlingunum með því að lýsa mig smásál, mun reynast honum ónothæft. Loks vil ég benda hæstv. forsrh. á það, áður en ég hverf frá þessu, að smáupphæðirnar, sem hann svo kallar, eru honum ekki eins mikil hneykslunarhella og hann lætur, þegar hann getur innbyrt þær sjálfur. Hæstv. forsrh. er hálaunaður maður. (Dómsmrh.: Síðan Claessen er úr sögunni). Ég skal koma inn á það síðar, en ég held, að ég megi segja, að það, sem hæstv. forsrh. fær greitt af opinberu fé, sé komið yfir 30 þús. kr. Sé reglum ríkisgjaldn. fylgt, ætla ég, að það muni vera í kringum 36 þús. kr. Þó hefir hæstv. ráðh. ekki flökrað við að taka 1600 kr. fyrir að vera form. bankaraðs Íslandsbanka, og eftir því, sem sagt er, hefir hann ekki gert þar annað en að hirða launin. Þá hefir hæstv. forsrh. ekki heldur flökrað við því að taka 900 kr. fyrir að sitja í gengisnefndinni, þó að starf hans í þeirri n. sé ekki fólgin í öðru en að hirða launin. En ég skal ekki fara frekar út í þetta. Mér þykir hæfilent að skilja við hæstv. forsrh., þar sem við erum staddir — við tilhugsunina um þessar smáupphæðir, sem hann hefir gert sér að góðu.

Þá skal ég víkja að hæstv. dómsmrh. Þarf ég ekki að svara honum miklu, af því hann drap á fátt eitt í minni ræðu, og auk þess hefir nokkrum þessum atriðum, sem hann drap á, þegar verið svarað af öðrum.

Hæstv. ráðh. talaði langt mál um vínverzlunina og lýsti yfir því með mörgum fögrum orðum, að þar væri allt í fullum gangi, umsetningin yxi með hverjum deginum, sem liði, eða með öðrum orðum, að drykkjuskapurinn í landinu færi hríðvaxandi. Virtist mér sem hæstv. ráðh. hefði sérstaka ánægju af því að skýra frá þessu, en ég verð að játa það, að mér er það ekki ánægjuefni að sama skapi. Þó get ég verið sammála hæstv. dómsmrh. um það, að um vinning sé að ræða, að svo miklu leyti, sem hin aukna sala Spánarvinanna stafar af minni smyglun, þó að ég hinsvegar búist ekki við því, að hæstv. dómsmrh. hafi nein tök á að fylgjast með í þessu efni. En það eru aðrar orsakir fyrir þessum aukna drykkjuskap í landinu, og skal ég víkja nokkrum orðum að þeim.

Fyrst og fremst er það nú sú algilda regla, að þegar vel árar, er notað meira af nautnavöru en ella. Í öðru lagi mun blöndunarstarfsemi stj. hafa komið mörgum á spenann, hvort sem sá speni heldur áfram að mjólka eða ekki. Hæstv. forsrh. gaf það að vísu í skyn, að blönduninni yrði hætt, en mér virðist nú sem fæst bendi í þá átt. Í þriðja lagi skrifaði hæstv. dómsmrh. grein í blað sitt, skömmu eftir stjórnarskiptin og skömmu eftir að bann hafði verið lagt við áfengisauglýsingum, þar sem hann hvatti menn lögeggjan til þess að drekka Spánarvínin eins og kaffi, en kaffið er þjóðardrykkur okkar Íslendinga, eins og kunnunt er. Og hæstv. ráðh. lagði alveg sérstaka áherzlu á það, að vín væri haft um hönd í veizlum, vegna þess að við Íslendingar værum ekki samkvæmishæfir, nema „undir áhrifum“. Nú er hæstv. ráðh. viðurkenndur sem afburða agitator, og er því ekki gott að segja, hvað þessi hvatning hans á mikinn þátt í hinum aukna drykkjuskap, en eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hefir sjálfur gefið um útþenslu áfengisverzlunarinnar, býst ég við, að hann líti sjálfur svo á, að þetta hafi haft sín verulegu áhrif.

Fjórðu ástæðuna til hins aukna drykkjuskapar í landinu má rekja til þeirra sterku samtaka, sem hæstv. stj. hefir bundizt í, til þess að hnekkja bindindisstarfseminni. Hæstv. stj. hefir alltaf setið á svikráðum við stórstúkuna um styrkinn til bindindisstarfseminnar. Í hvert skipti, sem hæstv. stj. hefir búið til fjárlagafrv. sitt, hefir hún lækkað þennan lið, og það er vitanlegt, að vegna áhrifa stj. í þessa átt, er styrkurinn nú lægri en undanfarin ár, og er þó augljóst mál, að eftir því sem drykkjuskapurinn eykst, er meira verk að vinna á þessu sviði.

Allt það, sem ég nú hefi nefnt, á sinn verulega og mikla þátt í því, hvað drykkjuskapurinn og sala Spánarvínanna hefir aukizt hér á landi. Það er því undarlegt og með endemum, þegar þessir menn eru að brigzla öðrum um það, að þeir séu að stuðla að auknum drykkjuskap. Það er hámark hræsninnar, þegar slíkir menn telja sig stuðningsmenn og jafnvel verndarvætti bindindisstarfseminnar í landinu.

Ef það er rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að æðsti maður Góðtemplarareglunnar hér á landi hefði verið að þakka honum fyrir eitthvað, sem hann hafði átt að gera í þágu bindindisstarfseminnar, hefir þessi maður ekki vitað, hvað hann var að gera. (Dómsmrh.: Á hann samt að fá styrk?). Styrkurinn er ekki veittur neinum sérstökum manni, hvorki þessum né öðrum, heldur er hann veittur með það fyrir augum að styðja stórstúkuna í bindindisstarfsemi sinni. Hins vegar hefir það verið svo undanfarið, að stj. hefir miðað till. sínar um þennan styrk við það, hvaða stjórnmálaskoðanir þeir menn hafa haft, sem hafa verið fyrir stúkunni. Ætti það því ekki að fæla stj. í þessu efni, að sagt er, að þessi maður hafi nýlega skriðið undir verndarvæng hennar. (Dómsmrh.: Þetta sýnir, hvað stj. er óhlutdræg). Já, eða þá hitt, að þessi maður hafi ekki flúið á náðir stj., fyrr en eftir að hún hafði gert till. sínar.

Hæstv. dómsmrh. talaði mikið um það, hversu kostnaðurinn við vínverzlunina hefði minnkað mikið, síðan núv. forstj. tók við. Það liggja nú engin gögn fyrir um þetta frá síðasta ári, en mér er sagt, að hv. l. þm. Skagf. hafi upplýst það, að síðara hluta ársins 1928, þegar hæstv. dómsmrh. var tekinn við stj., hafi rekstrarkostnaður vínverzlunarinnar hækkað að minnsta kosti unt 10 þús. kr., frá því sem var fyrra hluta þess árs undir stj. fyrirrennara hans.

Hæstv. dómsmrh. lét þau orð falla í gær, að það væru einungis menn úr sjálfstæðisflokknum, sem drykkju þessi Spánarvín. Ætli hæstv. ráðh. geti þá ekki gefið neinar upplýsingar um það, hvað hinir drekka?

Það er rétt, að ég drepi á það, þó að það komi eldhúsdeginum ekki beint við, að hæstv. dómsmrh. verður mjög tíðrætt um Jón sál. Magnússon, og sérstaklega í sambandi við eitt mál. Það var ekki nóg með það, að hæstv. ráðh. skammaði

Jón sál. Magnússon látlaust í lifanda lífi, heldur var hann ekki fyrr dáinn en hæstv. ráðh. lagðist á náinn, og síðan hefir hann alltaf haldið áfram að naga og naga. Og ég verð að bæta því við, að sú grein, sem hæstv. forsrh. skrifaði um Jón Magnússon látinn, verður honum til skammar lífs og liðnum.

Hæstv. dómsmrh. er alltaf að tala um laun Eggerts Claessens, sem hann segir, að Jón sál. Magnússon hafi ákveðið 40 þús. kr. Sannleikurinn mun nú vera sá, að Jón sál. Magnússon ákvað þau helmingi lægri en hæstv. dómsmrh. vill vera láta. (Dómsmrh.: Fékk Claessen þá bara 20 þús. kr.?). Nei, hann fékk 40 þús. kr., með því að honum var ákveðin 100% dýrtíðaruppbót, en það var verk bankaráðsins, en ekki Jóns sál. Magnússonar eins. En það er ekki vandfarið með látna menn, og hægt að segja, að þeir hafi gert hitt og þetta, sem þeir hafa ekki nærri komið.

Þá fór hæstv. dómsmrh., að gefnu tilefni frá mér, að draga upp mynd af munni þeim, sem gengur undir nafninu „yfirfræðslumálastjórinn“. Lýsti hann lyndiseinkennum þessa manns eins og hann væri stefnufestan sjálf, eða öllu heldur það gagnstæða. Hann hefði verið í öllum stjórnmálaflokkum, en væri, eins og stendur, í Framsóknarflokknum, og þarf þá svo sem ekki að fara í grafgötur eftir því, af hverju hann hefir fundið náð fyrir augum hæstv. stj. Hins vegar lýsti hæstv. dómsmrh. yfir því, að hann væri ekki viss um, að þessi maður yrði eilífur augnakarl í Framsóknarflokknum, og að jafnóvíst væri, hvort hann héldi því embætti, sem hann nú hefir, áfram. Hann á sem sé að fá reisupassa, þegar hann skiptir næst um stjórnmálaskoðun. Það er ekki gott að segja hvar hann lendir eftir þeirri fortíð, sem hæstv. ráðh. hefir lýst.

Hæstv. dómsmrh. fór að tala um það, hvaða erindi Gísli Guðmundsson hefði átt til útlanda, og sagði, að hann hefði farið til að kynna sér kvikmyndir og kvikmyndalöggjöf erlendis.

Hæstv. dómsmrh. hefir nú á tveimur undanförnum þingum flutt frv. um þetta mál, og sagt þá, að hann styddist við erlendar fyrirmyndir, og nú hefir hann í þriðja sinn komið með þetta sama frv., að frv., sem er nálega samhljóða, en í grg. þess er getið um það, að Gísli Guðmundsson hafi farið utan til að kynna sér þessi mál, en för hans virðist hafa borið lítinn árangur, enda skyldu menn ætla að ekki þyrfti að senda menn til útlanda til að kynnast erlendri löggjöf. Það má gera hér heima án nokkurrar utanferðar.

Hæstv. ráðh. varð nú heldur en ekki stúrinn, þegar ég minntist á bifreiðarnar og landhelgissjóðinn. Hann reyndi að vísu að malda í móinn, en gat þó ekki annað en viðurkennt það, sem ég hafði sagt, og bætti því svo við, að þetta myndi ekki fara batnandi. Nei, við því gat enginn búizt, því að það batnar nú víst fátt hjá þessari stj., þótt það geti varla versnað. En í þessu sambandi vil ég drepa á það, að svo mikið hefir kveðið að misnotkun þessara stjórnarbíla, að menn sem fara austur að Laugarvatni eru farnir að auglýsa það í blöðunum, að þeir hafi ekki farið í stjórnarbílunum.

Hæstv. dómsmrh. setur dreyrrauðan, en svona er þetta nú samt, og þjóðin er búinn að fá megnustu andstyggð á þessu háttalagi.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann og húsameistari ríkisins myndu á sumri komanda fara í bílum þessum upp í Borgarfjörð, en ég fæ nú ekki skilið, að hann hafi ekki mörgu öðru þarfara að sinna, því að mér vitanlega er hann enginn húsameistari, og jafnvel enginn meistari yfirleitt.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um það, að landhelgisgæzlan hefði batnað, og vildi þakka sér og sínum flokki það, en hæstv. ráðh. misskilur þetta raunalega. Ég get gefið honum þær upplýsingar, að annað varðskipið var keypt af fyrrv. stj., en hv. þm. Snæf. bar fram hér á Alþingi till. um kaup á hinu, og var það samþ., og þá fæ ég ekki séð, að það sé mikið núv. stj. að þakka, þótt landhelgisgæzlan hafi skánað, því að það liggur í því einu, að skipin eru fleiri en þau voru áður.

Hinsvegar vantar mikið á, að gæzlan sé eins fullkomin og hún gæti verið, en það liggur í því, að hæstv. stj. hefir látið sér sæma að misnota skipin herfilega í allskonar snattferðir, og það hefir orðið ríkinu til stórtjóns. Það er þetta, sem hæstv. ráðh. verður að gera sér ljóst, að það er kominn tími til að hætta þessu háttalagi, því að það er með öllu ósæmilegt að halda lengur áfram á þessari braut. Hæstv. ráðh. verður að hætta því, og hann getur ekki afsakað sig með því að skipin hafi verið að flytja veika menn, eða að draga báta, því að í fæstum tilfellum hefir þetta verið þannig, heldur hefir ráðh. lánað gæðingum sínum skipin til að skreppa á heim til sín eða að heiman.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri helber slúðursaga, að Ægir hefði skotið niður strompinn í Firði, og virðist mér þó, að hæstv. ráðh. ætti ekki að tala mikið um slúðursögur, því að þá heggur hann nú nokkuð nærri sjálfum sér. Hinsvegar undrar mig á því, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að halda því fram, að engar ákvarðanir hafi verið teknar viðvíkjandi strompinum á æðri stöðum, því að vitanlega hefir skipstjórinn á Ægi ekki verið að leika sér að því að þjóta austur fyrir land til að skjóta á strompinn, eða gert það upp á sitt eindæmi. Nei, það er engin hætta á því, að skipstjórinn á Ægi hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að fella strompinn með því að skjóta á hann og bregða um hann böndum, því að vitanlega er verkið unnið til þess að bóndinn í Firði hafi af þessu nokkra þénustu, með því að sela múrsteinana, sem annars hefðu ekki komið honum að nokkrum notum.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um það, að lögin gengju nú jafnt yfir alla, og í því sambandi verð ég að segja það, að þetta eru dylgjur, sem eru aðeins samboðnar honum og hv. 2. þm. Reykv., en allir aðrir myndu blygðast sín fyrir slíkt þvaður.

Annars verð ég að geta þess, að ég átti ekki upptökin að því, að farið var að tala um skipin og skipstjórana, heldur var það hv. 1. þm. Reykv., sem vakti máls á því, og svarar hann væntanlega fyrir sig, en þó skal ég geta þess, að mér hefði þótt eðlilegra að þakka skipstjóranum á Ægi dugnað í starfi sínu með öðru en því, að hækka hann á annara kostnað.

Hæstv. dómsmrh. minntist svo á frv., sem lézt hér í Nd. fyrir nokkru, en það fjallaði um eftirlit með loftskeytum, og taldi hann það mikinn skaða, að það hefði ekki náð fram að ganga. Ég vil nú nota tækifærið og benda honum á það, að allt, sem unnizt hefði með frv. þessu, er þegar fengið í símalögunum, því að þar stendur, að stj. geti neitað að láta senda skeyti, ef hætta leiki á, að þeim sé misbeitt. Þar sem nú er grunur um, að botnvörpuskipin hafi misnotað loftskeytatæki sín, þá vil ég beinlínis átelja hæstv. stj. fyrir að hafa ekki notað heimildina. Mér er landhelgisgæzlan fullkomið áhugamál, því að ég hefi skilning á því, hve mikilsverð hún er, og því hefi ég átalið hæstv. stj. fyrir að nota skipin til starfa, sem beinlínis brjóta í bága við aðalstarf þeirra.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að ræðu hæstv. fjmrh. Hann gerði tilraun til að réttlæta það, hve miklu fé hefði verið sóað til beinaverksmiðjunnar umfram það; sem heimild var til, og gat þess, að oftast væri nauðsynlegt að veita þessa styrki, en vitanlega segja allir þeir, sem um styrki sækja, að það sé til mestu nauðsynja. Hæstv. fjmrh. sagði annað, sem var næsta eftirtektarvert, þegar hann reyndi að verja þessar gerðir sínar. Hann fullyrti, að Nd. gæti ekki áfellt stj. fyrir þessar styrkveitingar, þar sem hún sjálf tæki svona marga persónustyrki upp á fjárl., en þar hefir hæstv. fjmrh. auðsjáanlega misst sjónir af því, að það er Alþingi, sem hefir fjárveitingavaldið, en ekki stj. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að athuga þetta mál, því að vanalega er hann gætinn í ræðum sínum, en þetta virðist vera orðinn nokkuð rótgróinn misskilningur hjá honum, sem jafnvel hv. fjvn. tók eftir, og lét frsm. sinn gefa honum réttmætar ákúrur fyrir. Ég vil vona, að þetta hafi ekki farið fram hjá honum, því að svo rækilega brýndi hv. frsm. það fyrir honum, að hann ætti að vera sparsamur, að maður skyldi ætla, að það bæri einhvern árangur.

Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að ég hefði greitt atkv. með og staðið að ýmsum persónustyrkjum, en ég vil benda honum á það, að ég bar ekki fram einn einasta, svo að þar með er sú ásökun hans úr sögunni. (Dómsmrh.: Var ekki einn launkrakki?). Það má vel vera, að hæstv. dómsmrh. hafi átt einhverja launkrakka, en ég átti engan.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ég væri ekki eins gætinn í fjármálunum og ég hefði áður verið, og því til sönnunar nefndi hann, að ég hefði verið með hafnarfrv. og raflýsingu sveita. Hæstv. ráðh. þýðir ekki að koma með slík dæmi, því að hann ætti að vita það eins vel og aðrir, að þetta er ekki komið í fjárl., og verður ekki sett á þau fyrr en ríkissjóði er fært að leggja féð fram, en það verður metið á hverjum tíma, svo að hæstv. ráðh. getur ekki ásakað mig fyrir neina óvarkárni í þeim sökum.

Ég man líka ekki betur, en að hæstv. stj. flytti í fyrra frv. um hafnarmannvirki, þar sem gert var ráð fyrir miklu hærra framlagi; en þótt ég geti ekki verið slíkri sóun samþykkur, álít ég þó,, að eitthvað beri að gera til að hrinda þeim málum í framkvæmd.

Hvað rafveitumálunum viðvíkur, þá er það að segja, að menn geta ekki lengur haft lokuð augu fyrir því, hvílík nauðsyn er á að styrkur verði veittur til rafveitugerða í sveitum, og það var leikur einn að ganga fullforsvaranlega frá fjárl. þótt þetta hefði verið samþ. Hæstv. ráðh. minntist hinsvegar ekki á það, að ég og flokksbræður mínir bárum fram lækkunartill. á ýmsum útgjöldum. Þessi lækkun var að vísu ekki mikil, en þó svo mikil, að hún náði ekki fram að ganga. Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að hann þarf engan kvíðboga að bera út af mínu hugarfari, því að ég er sami gætni fjármálamaðurinn og ég áður var.

Þá endaði hæstv. fjmrh. ræðu sína á dálítið einkennilegan og óvenjulegan hátt, sem ég hefi ekki orðið var við fyrr hér á þingi. Hann fór að krefja mig um skuld, en svo er mál með vexti, að Innri-Akraneshreppur fékk lán hjá ríkinu á krepputímunum eftir stríðið, og það fengu líka ýmsir aðrir hreppar. Þetta hefir hinsvegar aldrei verið neitt óskilalán, enda vextir greiddir á réttum tíma, en nú um tíma hefir verið heimilað að gefa hreppnum eftir vexti og afborganir af þessu láni. Áður stóð hreppurinn alltaf í skilum, og ef hæstv. ráðh. vill ekki trúa mér, getur hann spurt skrifstofustjóra sinn til frekara öryggis. En nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann ætli sér ekki að nota þá heimild, sem hann hefir til eftirgjafarinnar, því að ef hann hyggst að innheimta lán þetta, get ég bent honum á það, að hann á ekki að snúa sér til mín, þótt ég sé hreppstjóri þar, heldur til hreppsnefndarinnar.

Hinsvegar get ég ekki neitað því, að þetta er virðingarverður áhugi, sem lýsir sér hjá hæstv. fjmrh., þegar hann fer að rukka frá ráðherrastól, og hlýt ég að vona, að hann sé ávallt svona röggsamur við innheimtuna.

Þá held ég, að ég hafi ekki fleira að svara hæstv. ráðh. í bili, en ætla þá að snúa mér að hv. 2. þm. Reykv. Hann var að tala um það, að nú væri hann búinn að fá sönnunina bókaða fyrir því, að hann hefði ekki farið með rangt mál, er hann fullyrti, að varðskipið Óðinn hefði séð togara sigla úr landhelgi, án þess að skipta sér af. Hv. þm. hefir hinsvegar enga sönnun fengið fyrir þessu, ef hann hefir ekki annað að halda sér við en það, sem nýlega hefir birzt í Alþýðublaðinu um þetta mál, og sönnunarskyldan hvílir enn á honum viðvíkjandi því, sem hann bar fram hér á þingi 1928.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. um það, sem ég hafði sagt viðvíkjandi kirkjumálan., og viðurkenndi þau orð, sem ég hafði sagt. Hv. þm. fór líka að tala um nafnið á Sjálfstæðisfl., og fetaði slóð hv. 2. þm. Árn., en það hefði ég nú haldið, að væri ekki geðslegt, svo að ég segi ekki meira.

Nú fengum við að heyra, af hverju sócíalistar, ásamt hæstv. stj. og broti af Framsókn, þora ekki að nefna Sjálfstæðisflokkinn réttu nafni. Það er af því, að þeir halda, að það sé móðgun við Dani. Það gengur of svona, þegar verið er að ráða gátur, að lausnin liggur svona ákaflega nærri, og í þessu tilfelli er hún líka í fullu samræmi við annað það, sem menn hafa átt að venjast úr þessari átt.

Ég greip framm í fyrir hv. 2. þm. Árn. í gær, þegar hann var að tala, og gerði það nú satt að segja á óhefluðu alþýðumáli. (MT: Jæja, þó það!). En ég fékk fljótt staðfestingu á því, sem ég var að segja. Það var alveg rétt, og hv. þm. reiddist afskaplega af því. En fornt og þrautreynt spakmæli segir, að sannleikanum verði hver sárreiðastur. En í þessari reiði, sem var svo mikil, að skallinn á hv. þm., sem annars er nú hvítur og gljáandi, varð alveg eins og eldhnöttur, þá varpaði hann til mín nokkrum orðum. En þar sem það er nú alkunnugt, að hv. þm. hefir verið mikið upp á kvenhöndina, að minnsta kosti á sínum þroskaárum, og það er nú einu sinni svo, að „lengi er eftir lag hjá þeim, sem listir kunnu til forna“, þá hvarflaði nú hugur þm. ósjálfrátt í þá átt, enda sótti hann þangað þessa pillu, sem hann sendi mér. Hann líkti mér nefnilega við kerlingarnöldru, og að það væru komnir kerlingardrættir í andlitið á mér. Ég skal nú skjóta því hér inn í, áður en ég held lengra áfram, að það er langt frá því, að ég hafi nokkurntíma látið mér til hugar koma, að ég væri jafnmikill fríðleiksmaður og hv. 2. þm. Árn. En til þess að veita þessu kerlingartali dálítið meiri áherzlu, þá sagði hv. þm., að kerlingar væru þær leiðinlegustu manneskjur, sem til væru. En þetta held ég hafi nú verið dálítið óvarlega mælt, og að það geti verið varasamt fyrir hann að láta þessi ummæli berast austur fyrir fjall, því að mér er sagt, að hann hagi orðum sínum allt öðruvísi þegar hann fyrir kosningar er að kyssa á klæðafald kerlinganna á Eyrarbakka og biðja þær að kjósa sig.

Hann hélt langa ræðu um sjálfstæðismálið og var með miklar heimspekilegar hugleiðingar um nafnið á Sjálfstæðisflokknum. Ég ætla nú ekkert að svara þessari sjálfstæðisræðu hv. þm., eða þessum heimspekihugleiðingum um nafnið á flokknum. Hv. þm. Dal. mun gera það, enda beindi hv. þm. máli sínu einkum til hans. En ég vil aðeins láta það ummælt, að þessi ræða hans er áreiðanlega sú vitlausasta sjálfstæðisræða, sem haldin hefir verið á Íslandi, og heimspeki hans áreiðanlega lakasta heimspeki, sem nokkurntíma hefir verið borin á borð í ræðu eða riti.