27.01.1930
Efri deild: 6. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

11. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Ég sé ekki mikla þörf á að fara að rökræða þetta mál út af þeim ástæðum, sem fram hafa verið bornar af andstæðingum frv. Þeir hafa ekki komið fram með nein ný gögn í málinu, heldur aðeins endurtekið það, sem þeir hafa margsagt áður, og bætt við nokkrum hnútum til mín. Þegar komið er með skýrslur frá hlutaðeigandi yfirvöldum, þá segja andstæðingarnir aðeins, að ekkert sé að marka þær. Þrátt fyrir það, þó að til séu opinberar skýrslur um laun ljósmæðra, leyfir hv. 4. landsk. sér að efast um, að þær séu réttar. Þetta get ég ekki kallað annað en blátt áfram ósæmilegt.

Mér finnst líka undarlegt, að hv. þm. Snæf. skuli áfella mig fyrir að hafa borið fram frv. um. endurbætur á launakjörum ljósmæðra. (JBald: Það vantar það rétta hugarfar). Hv. þm. finnur að því, að ég skuli bera fram þetta frv. nú, af því að ég hafi verið. andvígur frv. um þetta efni í fyrra. En í frv. mínu felast einmitt hinar sömu miðlunartill. og ég bar fram í fyrra og taldi þá sanngjarnar og réttar.

Hv. 4. landsk. segir, að ég fylgi frv. þessu vegna þess, að ég vilji koma í veg fyrir, að ljósmæður fái svo há laun, sem þær ella myndu hafa fengið. Það er rétt, að ég vil koma í veg fyrir, að þær fái hlutfallslega mikið hærri laun en aðrir fá fyrir svipuð störf, og að ég vil gæta samræmis í launagreiðslum, eftir því sem unnt er.

Eins og ég hefi þegar sagt og sýnt fram á, eru rök andstæðinga frv. einskis virði. Þau eru aðallega fólgin í því að bera brigður á opinberar skýrslur. Það, sem sagt var hér um ljósmæðraskort í fyrra, er algerlega ósannað mál, enda virðist hafa gengið vel að bæta úr honum, þar sem andstæðingar frv. telja nú, að ekki vanti nema 15 ljósmæður, sem þó er of há tala. Annars tel ég vafasamt, að þeir hafi fengið upplýsingar sínar úr réttri átt. Ég skal geta þess, að ég gat m. a. ekki fengið upplýsingar um það hjá heilbrigðisstjórninni hér, hvort sýslusjóðirnir gyldu ljósmæðrum dýrtíðaruppbót eða ekki.

Ég tel illa farið, ef hv. þm. vilja ekki samkomulag í þessu máli. Það gæti jafnvel farið svo, að ljósmæðurnar græddu ekki á þeirri framkomu. (JBald: Er þetta hótun?). Nei, þetta er engin hótun, en ef málið á fram að ganga, verður að fara miðlunarleið í því. Ég þykist hafa stigið stórt spor til miðlunar með þessu frv. og bjóst við því, að hv. þm. gætu fallizt á það.