26.03.1930
Neðri deild: 63. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1931

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þegar hv. 1. þm. Skagf. hóf eldhúsdagsumr. hér um daginn, tók hann sér fyrir hendur að gefa skýrsla um skuldir ríkissjóðs. Þessi ræða hans og skýrsla er nú öll prentuð í Morgunblaðinu. Í skýrslunni greinir skuldir ríkissjóðs á árunum 1917 til 1929. Hvað öll þessi ár snertir, nema hið síðasta, þá hefir hv. þm. tölurnar upp úr landsreikningunum frá þessum árum, og eru þær sennilega rétt tilfærðar. En hvað ríkisskuldir ársins 1929 snertir, þá er mér ráðgáta, hvaðan hv. þm. koma þessar upplýsingar, því að ekki er enn búið að búa til landsreikninginn fyrir árið 1929. Hv. þm. hefir því auðsjáanlega skáldað síðasta liðinn í skýrslu sinni. Ég sýndi hv. þm. fram á það um daginn, að hann færi hér með rangt mál, en þrátt fyrir það lætur, hann nú prenta ræðuna óleiðrétta og með þessum alröngu tölum í Morgunblaðinu. (MG: Átti ég að breyta ræðunni?). Já, það hefði verði fullkomin ástæða til þess, eftir að hv. þm. hafði komizt að raun um, að hann fór með rangt mál. Eða gerir hv. þm. það aldrei, að leiðrétta það, sem hann fer rangt með?

Þegar hv. þm. talaði áðan, vék hann mjög lítið að þessu, en reyndi með vafningum að komast hjá því að svara beint. En hv. þm. getur alls ekki með neinum vafningum eða krókum sloppið fram hjá þessu. Þetta er ákaflega einfalt mál. Útreikningur hv. þm. segir, að stj. hafi tekið 5½ millj. kr. lán á árinu, og svo bætir hann þessu við skuldir ríkisins í árslok 1928. Nú er þessu máli svo farið, sem reyndar hv. þm. veit vel sjálfur, að stj. tók ekkert 5½ millj. kr. lán á árinu. Hún fékk að vísu heimild til þess, og af henni notaði hún einungis 2½ millj. kr. Og af þessum 2½ millj. kr. gengu 2,1 millj. kr. til þess að borga skuld við Landsbankann, en sú skuld var þó talin á landsreikningunum í árslok 1928. Svo fór nokkur upphæð til þess að greiða ýmsar smærri skuldir ríkissjóðs.

Ég tók fram í þingbyrjun, þegar fjárl. voru lögð fram, að skuldir ríkisins hefðu lítið breytzt á árinu. Hv. 1., þm. Skagf. leyfir sér að segja þetta blátt áfram ósatt. Og síðan segir hv. þm., að ég sé reiður við sig út af því, að hann hafi sagt þetta. En ég er alls ekki reiður, því ég læt mig slíkt litlu skipta. En hv. þm. hefir alls ekki leyfi til að koma með falskar tölur, hvorki í þessu máli eða öðrum. Ég vissi, að hér voru staddir menn frá Morgunblaðinu um daginn, og ég veit það líka, að þeir hafa skilið, að hv. þm. fór með rangt mál. Ég vil samt ekki ásaka þá, heldur hv. þm. Og ég vil gefa honum það heilræði að leiðrétta þessi ósannindi í sama blaði, sem hann lét flytja þau. Það er ekki mín vegna, því mig skiptir þetta engu, og heldur ekki sannleikans vegna, því að hann mun koma fram um síðir. Það er blátt áfram hans sjálfs vegna. Því að hann má vita það, að þessar tölur munu ekki gleymast, og þessi vísvitandi falska skýrsla, sem hann hefir gefið, mun elta hann á þingmálafundum, hvert sem hann fer. Það er betra að svara strax, og leiðrétta þetta. (MG: Hvernig var með 9 milljónirnar 1927?).

Ég skal þá koma fyrst að enska láninu. Hv. þm. sagði, að ég hefði átt að færa það sem sjóð, það af því, sem ekki var notað. Þetta kemur nú ekki vel heim við það, sem hv. þm. gerði sjálfur, þegar hann tók enska lánið 1921. Íslenzka ríkið var skrifað fyrir því sem skuld og gaf út skuldabréf fyrir því, en þó var ekki fært á skuldalista nema það, sem ríkið tók til eigin nota. Þetta eru því með öllu óverjandi blekkingar af hálfu hv. þm. Því næst segir hv. þm., og sömuleiðis hv. 2. þm. G.-K., að eigi að taka 3 millj. kr. lán til Íslandsbanka, en hér er ekki um annað að ræða, en að ríkið tekur yfir á sig að greiða lán, sem það tók handa bankanum 1921, og bankinn hefir ekki getað staðið í skilum með, þegar hann lokaði. (MG: Á ekki að fara að opna hann aftur?). Nei, það á ekki að fara að opna Íslandsbanka. Það er annar banki, sem verður opnaður í hans stað. Það er annars undarlegt, að hv. þm., sem hefir verið fjmrh., skuli láta sér detta annað eins í hug og það, að ætla sér að fleyta sér út úr þessum ógöngum með vafningum um færslur á þessu láni. Sá er drengur, sem við gengur, og og hv. þm. ætti að kannast hreinskilnislega við, að hann hefir hallað réttu máli, en slíkir vafningar ganga næst lítilmennsku.

Um stofnfé Landsbankans er það að segja, að ég fór þar með öldungis rétt mál, eins og hv. þm. veit með sjálfum sér. Skuldabréfið er með 6% vöxtum, og er enn í gildi. Hv. þm. tók það ennfremur fram, að of lág upphæð væri ætluð til þess í fjárl að borga vexti og afborganir af lánum. Þetta má vel vera rétt, því að svo er komið, að ríkið verður að taka að sér lán, sem það átti ekki að greiða. En ekkert slíkt lá fyrir áður en Íslandsbanki lokaði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara lengra út í þetta að sinni. Ég hefi drepið á flest, sem á milli okkar hv. 1. þm. Skagf. hefir farið, og máli skiptir. Ég skal ekki lengja umr. með því að fara að ræða við hv. þm. um spádóma hans um fjárhagsafkomu ársins 1930: Það segir sig nokkurnveginn sjálft, að það er ekki hægt að halda eldhúsdag um það, sem ekki er komið fram, og enginn veit, hvort kemur nokkru sinni fram.

Þá talaði hv. þm. um ósigur íhaldsmanna við kosningarnar 1927, og vildi kalla það sigur fyrir sinn flokk. Ég ætla nú ekki að fara að særa hv. þm. með því að taka frá honum þá gleði, sem hann kann að hafa af því að ímynda sér þetta. (MG: Þakka fyrir). Það er gott, að hv. þm. er glaður, og ég vil enganveginn verða til þess að trufla gleði hans. Við skulum bara báðir vera glaðir og segja að við höfum báðir sigrað. (MG: Hvorir höfðu fleiri atkv.?). Já, en það er eins og atkv. þeirra hafi ekki komið að fullu haldi, til þess að þeir gætu haldið völdunum, en það er þó aðalatriðið fyrir stjórnmálaflokkana, fremur en atkvæðatalan ein.

Hv. þm. Borgf. þarf ég litlu að svara. Hann vildi þvo hendur sínar af því, að hafa nokkru sinni átt þátt í ógætilegri meðferð ríkisfjár. Ég skal ekki neita því, að fram til ársins 1928 hefir hv. þm. ekki gengið á undan öðrum í ógætni á þessum sviðum, en síðustu 2 árin mun hann ekki vera alveg frí af því, að eiga lausaleikskrakka, sem bitlingar mættu nefnast. (PO: Hverja?). Ég býst ekki við, að hv. þm. geti svarið fyrir þá launkróa, sem hann hefir átt með hv. fjvn. (MG: Þeir eru skilgetnir). Hv. þm. sagði, að hann og hans flokkur hefði flutt lækkunartill., sem námu 8 þús. kr., en ég vil þá minna hann á, að þeir fluttu líka hækkunartill., sem námu 11 þús. kr., og vega því fullkomlega upp á móti. Hv. þm. virðist hafa gleymt þessum till., en þær eru geymdar í þingskjölunum, og skal ég fúslega hjálpa þm. að finna þær, ef hann óskar þess.

Hv. þm. var að tala um, að ég hefði verið að reka innheimtustarfsemi fyrir ríkissjóð áðan, gagnvart hreppi hv. þm., og spurði hvort það væri ekki meiningin, að hreppurinn fengi linun um vaxtagreiðslur til ríkissjóðs af skuld sinni á þessu ári. Jú, vitanlega, enda hefi ég alls ekki verið að krefja hv. þm. um neina vexti. Það mun ekki vera ætlazt til þess, enda hefir hv. þm. lýst því yfir, að hreppurinn gæti alls ekki greitt neina vexti, og má vel vera, að það sé rétt, þó ótrúlegt sé, þar sem ekki er nema um 150 kr. að ræða.

Það hefir nú eyðzt allmikill tími í tilgangslaus ræðuhöld, og sé ég því ekki ástæðu til að tala lengra mál að sinni. Það eru ýms smáatriði, sem að mér snúa, og ég hefði þurft að svara, ef tími væri til, en með því að ég hefi svarað öllu því, sem máli skipti sérstaklega, þá get ég látið máli mínu lokið að svo stöddu.