25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

11. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Það var hv. þm. Snæf., sem leiddi þetta mál út af þeirri braut, sem það var á. Hann talaði um, að nauðsynlegt væri, að ljósmæður væru jafnframt hjúkrunarkonur. Hér fer hv. þm. út í allt annað mál. Launauppbótin er ekki miðuð við annað starf en ljósmóðurstarfið, svo að það yrði að bæta því inn í frv., að þær væru jafnframt skyldugar til að vera hjúkrunarkonur. Það er áreiðanlega þess vert, að því sé sinnt, að hjúkrunarkonur séu til í sveitum, en ég er ekki viss um, að hentugt sé, að ljósmæðurnar séu hjúkrunarkonur um leið. Það kemur ekki til mála, ef það er rétt, sem hv. þm. heldur fram, að ljósmæðrastarfið sé svo mjög erfitt og umfangsmikið. Auk þess er reynsla fyrir því, að giftar konur í sveit geta verið ljósmæður, en þær gætu ómögulega verið hvorttveggja. Þetta atriði liggur því fyrir utan það mál, sem við erum nú að ræða.

Þá talaði hv. þm. um, að það mundi verða lengdur námstími ljósmæðra, þegar landsspítalinn væri tekinn til starfa. Ég býst við, að þetta sé rétt. En hv. þm. talaði um þetta alveg eins og það væri fastur ásetningur okkar hinna að vilja alls ekkert gera fyrir ljósmæðurnar. Hv. þm. veit, að við viljum hækka laun þeirra, og það til muna.

Hv. frsm. n. sagði, að það væru takmörk fyrir því, hvað mikið þeir gætu fallizt á, að væri klipið af þeirra kröfum. En ég veit ekki til, að þeir hafi nokkurntíma gefið afslátt af kröfum sínum. Aftur á móti höfum við hinir gengið töluvert lengra til samkomulags en við töldum upphaflega rétt. En þeir hafa aldrei viljað taka sönsum í þessu máli.

Hv. frsm. þótti ákvæðið um hámark ljósmæðra í kaupstöðum vera meinloka. Hv. frsm. ætti þá að lagfæra þá meinloku, en eins og þetta er í frv., gerir það hvorki til né frá um launahámarkið. Ljósmæðurnar fá hvorki meiri né minni laun, þó að ákvæðið verði að lögum. Hv. frsm. talaði um, að fyrir lægju kröfur frá oddvitum um að hækka ljósmæðralaunin, og einnig frá bændum og auðvitað ljósmæðrunum sjálfum. Í sambandi við þetta las hv. frsm. upp undirskriftaskjal úr Mýra- og Borgarfjarðarsýslum og bréf frá oddvita í Norður-Ísafjarðarsýslu. En Norður-Ísfirðingar vilja ekki einu sinni leggja það á sig að greiða ljósmæðrum dýrtíðaruppbót á þann hluta launanna, sem sýslusjóður greiðir, svo að þeim ferst ekki að tala. Þeir heimta og heimta af öðrum, en vilja sjálfir ekkert á sig leggja. Það er sannað, að aðeins mjög fáar sýslur landsins greiða ljósmæðrum dýrtíðaruppbót. Það ber ekki vott um, að þeir telji þörf á launahækkun, til að geta yfirleitt fengið konu til að gegna því starfi.

Hv. frsm. gerði gys að því, að ég taldi rétt að hafa sem mest samræmi í launakjörum embættismanna. Í því sambandi nefndi hv. frsm. hreppstjóra og laun þeirra. Ég hefi ekki haldið hreppstjórunum neitt sérstaklega fram; það hefir hv. frsm. sjálfur gert. En ég vil benda á barnakennarana. Þeir fá minni laun en ljósmæðurnar. Þó kosta þeir miklu meiru til náms síns en þær, og starf þeirra tekur samfleytt hálft ár, en starf ljósmæðranna tekur mjög lítinn tíma, eins og ég hefi áður sagt hér í þinginu og ekki hefir verið hrakið.

Hv. frsm. virtist ætla að bjarga sínum málstað með því að gefa í skyn, að ríkissjóður mundi greiða mörgum dauðum ljósmæðrum laun. En hv. frsm. getur verið óhræddur. Í því efni er áreiðanlega ekkert að óttast.

Það var töluvert broslegt, sem hv. frsm. sagði um börnin, sem fæddust á mölinni. Tilefnið var það, að símskeyti kom frá héraðslækninum á Siglufirði, þar sem talað er um, að konur frá þeim bæjum, sem afskekktastir eru, flytji sig til Siglufjarðar og ali börn sín þar. Mér dettur ekki í hug að rengja þetta. En hv. þm. er líklega ekki kunnugur þarna norður frá og veit sennilega ekki, hvernig umdæminu er varið. Héðinsfjörður heyrir til umdæmisins. Á veturna er ekki hægt að hafa neinar samgöngur við Héðinsfjörð, nema þegar gott er í sjó. Heldur nú hv. þm. því fram í alvöru, að ef laun ljósmæðranna verða hækkuð, þá séu þessir erfiðleikar burtu numdir? Ef hv. þm. gerir það ekki, er skeytið frá héraðslækninum á Siglufirði engin röksemd í þessu máli. Ég veit, að það á sér alloft stað, að konur flytja frá heimilum sínum til að vera í nánd við lækni, þegar þær ala barn, en það stendur ekki í neinu sambandi við það, hvort yfirsetukona er í héraðinu eða ekki, eða hvort hún hefir mikil eða lítil laun. Ég mundi aldrei vilja draga úr því, að kona flytti þangað, sem hún er í meira öryggi, ef um barnsburð er að ræða.

Hv. frsm. las upp mikinn sæg af símskeytum til þess að sanna þá fullyrðingu sína á undanförnum þingum, að yfir 30 ljósmóðurumdæmi væru laus og að ekki væri hægt að fá ljósmæður í þau. Það er þakkarvert, að hv. þm. skyldi gera ofurlitla tilraun til þess að færa fram eitthvað máli sínu til sönnunar. En hv. þm. vaknaði ekki til meðvitundar um þá skyldu sína fyrr en ég brýndi hann til þess við 1. umr. þessa máls hér í hv. d.

En ég verð nú að telja, að réttir aðilar til að gefa skýrslur um þetta mál séu sýslumenn landsins, sem greiða út ljósmóðurlaunin. Efast ég ekki um, að þeir fari með rétt mál í skýrslum sínum. Í janúarmánuði síðastl. sendi ég sýslumönnum landsins svo hljóðandi skeyti:

„Vantar ljósmæður í umdæmi yðar ef svo er hve margar stop er ástæðan að ekki sé hægt að fá þær eða telja hlutaðeigendur þörfina ekki aðkallandi stop Greiðir sýslusjóður dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna símsvar“.

Eins og menn sjá, er hér spurt miklu nánar en gert er í skeyti hv. n. til héraðslæknanna; og þar sem hv. frsm. hefir nú lesið upp allt sitt skeytasafn, þá ætla ég einnig, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp svör sýslumanna, og byrja á Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þan hljóða svo:

„Ljósmóður vantar eigi sem stendur í neitt yfirsetukonuumdæmi lögsagnarumdæmi stop dýrtíðaruppbót greidd af launum en ekki af eftirlaunum“.

Frá Borgarnesi :

„Hér vantar hvergi ljósmóður sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót“.

Frá Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu: „Ljósmæður vantar í tvö umdæmi sýslunnar, Miklaholtshrepp og Fróðárhrepp ljósanæður nágrannaumdæmi gegnt síðustu árin enda umdæmin fremur smá og mannfá og ljósmæður ekki fengizt þriðja umdæmið Eyrarsveit losnar júní sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót“.

Frá Dalasýslu :

„Vantar ekki ljósmæður sýslusjóður greiðir enga dýrtíðaruppbót“.

Frá Barðastrandarsýslu :

„Í vestursýslunni óskipað í 2 ljósmóðurstöður en gamlar ljósmæður settar báðum stöðum öðrum staðnum dó ljósmóðirin en hin fór frá vegna ósamkomulags við lækni geri ekki ráð fyrir erfiðleikum á að fá ljósmæður áfram austursýslunni vantar ljósmæður í minnsta hreppinn er þjónað af ljósmóður næsta hrepps með fullum launum hreppurinn óskar eftir sérstakri ljósmóður en geri ráð fyrir að ekki verði unnt að fá hana nema með því að láta innanhreppsstúlku læra stop sýslusjóður greiðir dýrtíðaruppbót að sínum hluta“.

Frá Ísafjarðarsýslu:

„Þrjár ljósmæður vantar umdæminu stop stöðurnar auglýstar engin sótt um stop Sýslusjóðirnir hafa ekki greitt dýrtíðaruppbót nema norðursýslan aðeins fardagaárið 1928–1929“.

Frá Strandasýslu:

„Ljósmóður vantar í 1 umdæmi jafnvel 2 stop þörfin aðkallandi í fyrra fallinu sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót að sínum hluta launa“.

Frá Blönduósi:

„Vantar ljósmæður 2 umdæmi ekki fáanlegar en þörf sýslusjóður greiðir ljósmæðrum enga dýrtíðaruppbót“.

Frá Skagafjarðarsýslu: „Yfirsetukonur eru í öllum yfirsetukonuumdæmum sýslunnar nýbakaðar í þremur þeirra sýslusjóður greiðir enga dýrtíðaruppbót“.

Frá Eyjafjarðarsýslu:

„Ljósmæður vantar í 2 umdæmi af 12 auk þess 3 sagt upp frá 1 júlí stop Líklega erfitt fá ljósmæður í öll umdæmin, má láta næstu ljósmæður þjóna nokkru leyti. Teldi heppilegast skipta sýslunni upp fækka ljósmæðraumdæmum vegna stórkostlega bættra samgangna en bæta launakjör að sama skapi stop sýslusjóður greiðir dýrtíðaruppbót sinn hluta launanna“.

Frá Þingeyjarsýslu:

„Veit ekki til að ljósmæður vanti hér í sýslu sem stendur en aðaldalur losnar í vor stop sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót“.

Frá Norður-Múlasýslu:

„Í öllum ljósmóðurumdæmum NorðurMúlasýslu og Seyðisfjarðarkaupstaðar eru ljósmæður sumar gamlar engin beiðni komið til mín um útvegun ljósmóður úr sýslunni eða kaupstaðnum sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna“.

Frá Suður-Múlasýslu:

„Yfirsetukonur vantar sem stendur í tvö umdæmi hér í sýslunni annað umdæmið veitt frá næstu fardögum erfitt fá yfirsetukonur í hin fámennari umdæmi borið við launin séu of lág sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót á þeim hluta launanna“.

Frá Skaftafellssýslum:

„Hér hefir ekki vantað ljósmæður fyrr en frá næstu fardögum vantar í einn hrepp verður væntanlega auglýst stop Sýslusjóðir Skaftafellssýslna greiða ekki dýrtíðaruppbót“.

Úr Rangárvallasýslu:

„Ljósmæður vantar engar umdæminu Sýslusjóður greiðir ekki dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna“.

Úr Arnessýslu:

„Ljósmæður vantar Þingvallahreppi og Villingaholt, fæst ekki fyrra, en námsstúlka síðara; dýrtíðaruppbót greidd“.

Ég sé svo ekki ástæðu til að gera neinar sérstakar ályktanir út af þessum símskeytum. Þau eru alveg greinileg. Og ég held fast við það, að sýslumennirnir hafi skýrt alveg rétt frá ástandinu.