25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

11. mál, yfirsetukvennalög

Guðmundur Ólafsson:

Ég verð að segja, að mér finnst lítið hægt að setja út á lestur hvorki hæstv. fjmrh. né hv. frsm. — Þeir lesa vel, að mínu áliti. En gallinn er, að þeim ber heldur illa saman í því, sem þeir lesa. Hæstv. ráðh. hefir fengið það út með því að spyrja sýslumennina, að það vanti yfirsetukonur í 14 umdæmi. En hv. frsm. las bréf frá læknunum, og samkv. hans lestri skildist mér vanta í 29 umdæmi. Síðan bætti hann við, að ekki væru tekin með þau umdæmi, þar sem yfirsetukonu mundi vanta í sumar eða einhverntíma seinna. Ekki sagðist hann heldur taka með stúlkur, sem eru nú að læra ljósmóðurfræði fyrir einstök héruð. Að þessu leyti var mun loðnari lesturinn hjá hv. frsm. en hæstv. fjmrh.

Hv. frsm. er manna lagnastur á að gera að gamni sínu í ræðum, og hirðir ekki um það, þótt hann segi meira en málinu kemur við. En ég verð að segja, að hann hefir sjaldan verið skemmtilegri en nú; ég býst við, að hv. þdm. hafi helzt fengið það út úr ræðu hans, að aðalinnflutningur fólks í kaupstaði fælist í því, að konur flyttu á mölina til þess að fæða börnin. Vöxtur Siglufjarðar væri a. m. k. þannig til kominn. Hv. þm. sagði, að hvorki barn né kona færi til baka. Mér þykir nú ekki ólíklegt, að ástæður verði teknar til greina frá þeim mönnum, sem hafa vit og hugkvæmni til að bera fram sem rök annað eins og þetta!

Ég slæ því föstu, að hv. frsm. hafi hreint ekki lesið upp fleiri en 29–30 umdæmi, sem vantar í yfirsetukonur. En það ber hvorki saman við það, sem hæstv. ráðh. las upp frá sýslumönnunum, og ekki heldur það, sem hv. þm. Snæf. sagði. Ég skrifaði hjá mér þau orð hans, að í fyrra hefði vantað 30. (HSteins: Rétt). En nú vantaði miklu fleiri. (HSteins: Sízt færri, sagði ég). En svo kórónaði hv. frsm. það, þegar hann fór að fræða hv. deild um það, hvað læknarnir segðu. Hann las sem sé upp bréf frá læknunum í hv. deild, sem allir vita hvort eru sæmilega óhlutdrægir í þessu máli. Annar þeirra hefir nú draslast með þessa launahækkun yfirsetukvenna í 4–5 þing. (HSteins: Af eintómri hlutdrægni!). Ekki hefi ég nú sagt það; en því dettur hv. þm. þetta í hug? En ég hygg, að allir geti séð, hvort er meira virði, að fá bréf frá læknunum í hv. deild, sem allir vita, hvaða skoðun hafa á málinu, eða frá ýmsum öðrum læknum úti í frá. Hv. n. hefir þótt hæg heimatökin, en hinsvegar hafði hún kappnógan tíma til að leita fyrir sér víðar á sama hátt.

Hv. frsm. var að sneiða að mér og öðrum bændum í hv. deild, og kvað lítið að marka, hvað við segðum um skoðun stéttarbræðra okkar. Sé þetta nú svo, þá má a. m. k. slá því föstu, að minna sé að marka það, sem hann segir um það stundum, hvernig hagar til í sveit. Annars var þetta eitt af því skemmtilega í ræðu hv. þm., sem enginn lifandi maður tók alvarlega.

Þá sagði hv. þm., að því hefði verið haldið fram, að þessi krafa frá yfirsetukonum hefði komið samkv. bréflegri pöntun, en vildi bera það til baka. Ég held ég verði þá að segja sögu af yfirsetukonu þeirri, sem næst mér er, enda þótt ég hefi sagt fyrri hluta hennar fyrr. Til að byrja með var hún mjög ánægð með sín laun. En nú er hún orðin það svæsin og hörð í launakröfum, að hún gæti hvað það snertir vel átt heima hér í Reykjavík! Nú þykja henni launin allt of lítil. Ég held þetta bendi fremur á það, að einhversstaðar að hafi hún fengið hvatningu.

Það er nú naumast að furða, þótt erfitt sé að upplýsa flókin mál, þegar ekki er hægt að vita, hvað margar yfirsetukonur starfa á landinu. Um það hefir ekkert upplýstst til fullnustu. En þó er komið svo langt, að það er það harðasta að segja, að nú vanti mikið yfir 30.

Ég býst við, að sumir vilji líta svo á, að við séum á móti þessu máli af einhverri stífni í garð yfirsetukvenna. En ég get fullvissað hvern sem er um það, að mér er alveg eins vel við yfirsetukonur og annað fólk, en álít bara, að þeirra laun séu ekki lakari en ýmissa annara starfsmanna, — og til muna betri, ef frv. hæstv. fjmrh. verður samþ. En það er ekki vafasamt, að ef brtt. hv. n. ganga fram, dregur það ýmsa á eftir. Þeir eru reyndar á hælunum á yfirsetukonunum, barnakennararnir; og ég álít þeirra kröfur á mun meiri rökum byggðar.

Hv. þm. Snæf. stakk upp á því, að láta yfirsetukonur hafa á hendi hjúkrunarstarfsemi. Á móti því er ekkert sérstakt að segja nema það, sem hæstv. fjmrh. tók réttilega fram, að vel getur staðið svo á, að einhver sé veikur og þurfi hjúkrunar við, þegar kona þarf að ala barn. Hv. þm. virtist þykja verkahringur yfirsetukvenna helzt til þröngur, þegar launin verða bætt. Og hann tók fram um leið, að námstíminn gæti orðið dýrari og lengri, þegar landsspítalinn tæki til starfa. En af hverju þarf að hækka launin fyrr en kostnaður við námið hefir aukizt? Liggur nokkuð á því fyrr?

Ég verð að segja, að hér væri mikið nauðsynjamál á ferðinni, ef maður mætti beinlínis miða það við áhuga þeirra manna, sem berjast fyrir því þing eftir þing. Ég hygg, að í engu máli hafi menn verið eins þrautseigir; og ég samgleðst þeim, sem hafa fylgt því svona dyggilega, ef þeir hafa ekki fengið einhverja hvatningu frá öðrum. Því að það hygg ég, að þeir geti ekki réttlætt, að ljósmæður séu sá flokkur starfsmanna, sem hefir mesta þörf fyrir launahækkun. Og þeir, sem vilja af brjóstgæðum leggja þeim lið, sem eru minni máttar, þeir ættu sannarlega að sjá fleiri starfsmenn en yfirsetukonurnar. Hv. frsm. er enginn jafnaðarmaður hvað þetta snertir.

Mér þótti rétt að segja þessi fáu orð hér í hv. deild, af því að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur; en skoðanir okkar fara saman að öðru leyti en því, að hann er líklega eitthvað betri maður en ég. Því að ég hefði verið óskaplega rólegur, þó að ekkert frv. um launahækkun hjá yfirsetukonum hefði komið fram á þessu þingi.