27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

1. mál, fjárlög 1931

Sveinn Ólafsson:

Ég hefi verið þögull áhorfandi að þessum leik, sem hér hefir farið fram nú næstum í 5 daga, og ég hefi ekki viljað leggja neitt til málanna við þessar merku eldhúsdagsumr., því að ég hefi sannast að segja varla talið það ómaksins vert.

Hv. stjórnarandstæðingar hafa strokkað rjómann frá Morgunblaðinu og Stormi, og strokkhljóðið hefir ávallt verið hið sama. Að vísu hafa tveir hv. þm. leitazt við að vera dálítið frumlegir. Þar á ég þið þá hv. þm. Vestm. og hv. þm. N.-Ísf., og með þeim mætti kannske telja hv. þm. Borgf., en þó gegnir nokkuð öðru máli með hann. Ég minnist þess ekki, að ég hafi heyrt umr. með líku móti og nú á nokkru öðru þingi, enda er það undravert úthald hjá hv. stjórnarandstæðingum að geta tönnlast á því sama og tuggið hver eftir öðrum sömu tugguna dag eftir dag.

Mér er spurn, hver sé eiginlega tilgangurinn með þessu, því að ég fæ ekki séð, að þetta hafi nokkra þýðingu. Það er auðvitað sjálfsagt að taka fullt tillit til þess, sem þeir hafa að segja, og svara þeim atriðum, sem þeir vilja fá upplýsingar um, og stj. hefir þegar gert hreint fyrir sínum dyrum, þannig, að nú ætti að vera mál til komið að hætta. Ég vona því, að jafnhégómlegar umr. og þessar verði látnar hætta, svo að þær tefji ekki lengur framgang nauðsynlegra mála og lengi ekki þann tíma, sem þingið stendur yfir, svo mjög úr hófi fram.

Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í þessar umr., né kasta sprekum á glóðina, til þess að þyrla upp meiri reyk, en þó verð ég að víkja nokkrum orðum að hv. þm. Borgf. Hæstv. forsrh. sagði um hann, að honum væri sérstaklega lagið að tína upp smælkið og gera sér mat úr því, og þau ummæli ætla ég sérstaklega að undirstrika, því að honum tekst vel að tína upp þau lambaspörð, sem engum öðrum hugkvæmist að snúa sér að. (PO: Strompurinn var nú nokkuð stór. — MJ: Þau eru stór, spörðin í Firði). Mér finnst það nokkuð vafasamt, hvort það borgar sig fyrir hv. þm. að vera að þessum sparðatíningi, t. d. eins og þegar hann fór tvisvar að tala um strompinn í Firði og sagði, að Ægir hefði verið sendur austur til að fella hann. Þetta er auðvitað haugalýgi, eins og það, að ég hafi beðið þá um að fella strompinn. Þetta er algerlega ósatt, enda var ekki einusinni einu rjúpuhagli eytt á strompinn. (ÓTh: Notuðu þeir baunir á Ægi, er þeir skutu á strompinn?). Ég vissi það raunar, að hv. þm. Borgf. er í ætt við hagyrðinga, en að hann væri sjálfur svona skáldmæltur, það datt mér aldrei í hug. Ég var búinn að skýra hv. þm. frá sögunni í einkasamtali, en verð nú að endurtaka hana, til þess að hann fari ekki í 3. sinn að rugla með hana. (PO: Var þá skotið á stromp. inn?).

Ægir hefir oft farið austur fyrir land og falið sig inni á víkum, til þess að grípa togarana glóðvolga, þegar þeir kæmu í landhelgina til að veiða, og í þetta sinn kom hann þarna inn í sömu erindum. Þessa merkilegu sögu hefir svo hv. þm. Borgf. tekið upp úr Speglinum, eins og Ísafold og Morgunblaðið, en þessi blekkingatilraun hv. þm. misheppnaðist, því að nú skal ég skýra frá, af hvaða ástæðum strompurinn var felldur. (PO: Á, var þá skotið á strompinn?). Skipsmennirnir á Ægi báðu um leyfi til að mega skjóta á strompinn til að æfa sig, og auðvitað leyfði ég þeim það. (PO: Nú fer það að verða dálítið sögulegt). Þegar þeir voru. svo búnir að skjóta á strompinn og lama hann þannig, að skepnum, sem leituðu skjóls undir honum, gat verið hætta búin, þá skipaði ég þeim að fella hann með einhverju móti, og settu þeir þá bönd á hann og felldu hann þannig.

Þetta varð auðvitað matur fyrir hv. þm. Borgf., en þegar á að fara heyja eldhúsdag með slíku efni, þá held ég, að tími sé kominn til að láta af þeim störfum. Nú vildi ég segja hv. stjórnarandstæðingum það; svona í góðsemi allri, að þessar umr. þeirra auka ekki fylgi þeirra né álit, heldur öllu frekar hitt, og þeir verða því að finna betri leiðir til að spilla fyrir stj. Fjöldinn, sem hlýðir á, eða fær að heyra um þessar umr., hann er ekki svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki, að þetta er hégómamál, sem enga þýðingu hefir. Það er því heilræði mitt til þessara hv. þm., ef þeir hafa í hyggju að halda áfram umr., að þá verða þeir að finna eitthvað nýtt til að tala um, því að þetta mál verður ekki frekar skýrt. (ÓTh: Með öðrum orðum: það á ekki að skjóta á strompinn, heldur leggja bönd á hann). Vitanlega þarf ekki að skjóta á hann þegar hann er fallinn.

Það er eitt atriði í ræðu hv. þm. Vestm., sem ég vildi leiðrétta, því að ummæli hans voru byggð á misskilningi. Hv. þm. fór að tala um Síldareinkasöluna og fyrirkomulag hennar, en hæstv. fjmrh. hefir nú raunar svarað honum, svo ég hefi í rauninni ekki miklu við að bæta, en þar sem hann sagði, að síld af Austfjörðum væri ekki í miklu áliti og stæðist ekki síldina fyrir norðan og vestan, þá er því til að svara, að það fer allt eftir því, á hvaða tíma hún er veidd. En að einu leyti er austfirzk síld betri en síld, sem annarsstaðar er veidd, og það orsakast af því, að þar eru töluvert notaðar landnætur, en sú síld, sem í þær er veidd, þykir betri og útgengilegri. Ég get þessa til þess að leiðrétta þá villu, að ólík síld veiðist við strendur landsins, því að það er vitanlega heimska. Annars skal ég nú ekki tefja tímann öllu frekar. Ég gat þess í byrjun, að mér þætti þetta frekar ógeðslegt stagl, og þótt ýmsu sé ósvarað af því, sem flokksmenn mínir hafa fengið að heyra, ætla ég ekki að hlaupa í skarðið fyrir þá.