25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er tvennt, sem ég vil svara hæstv. ráðh. Hann las upp símskeyti frá sýslumönnunum. Þar á móti hafði ég símskeyti læknanna, og eftir þeim vantar 31 ljósmóður nú eða í vor, en ekki 29. Samkv. skeytum sýslumanna vantar 9–10 algerlega, en í hinum 4–5 umdæmunum vantar ljósmæður að vísu, en þeim er þjónað af öðrum. Svo að skýrslur þessar stangast mjög greinilega. En það verður maður að ímynda sér, að læknarnir geti betur sagt frá; umdæmi þeirra eru minni og þeir hljóta að vera kunnugri þessu máli en sýslumennirnir.

Annað viðvíkjandi skeytum sýslumanna er dýrtíðaruppbótin. Í Norður-Ísafjarðarsýslu kvað hæstv. ráðh. enga dýrtíðaruppbót greidda og fór þar eftir skeyti sýslumanns. En ég hefi hér í höndum bréf frá sýslunefndarmanni í þeirri sýslu, dags. 14. des. 1929. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Norður-Ísafjarðarsýslu hefir notað sér heimildarlög þau, er fyrirskipa að greiða ljósmæðrum sýslunnar dýrtíðaruppbót af fastalaunum þeirra“.

Þar sem þetta bréf er skrifað síðast á árinu, þá lítur svo út, að greidd sé dýrtíðaruppbót, þvert á móti því, sem sýslumaður segir. Svo að það berast úr ýmsum áttum talsverðar brigður á það, sem sýslumenn halda fram.

Ég held, að nokkuð svipað megi segja úr kjördæmi hæstv. ráðh. um vöntun á ljósmæðrum. Því til sönnunar vil ég lesa kafla úr bréfi frá ljósmóður í Eyjafjarðarsýslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í Eyjafjarðarsýslu eru fyrir víst þessi umdæmi laus: Svarfaðardalur allur — hann er tvö umdæmi — og Saurbæjarhreppur í Eyjafirði. — Ljósmóðirin í Saurbæjarhreppi er nýlega dáin, en ljósmæðurnar í Svarfaðardal hafa fyrir nokkru sagt af sér, líklega vegna þess, að þær treystu sér ekki til að halda áfram, er þær giftu sig; launin eru ekki svo há, að hægt sé að fæða og gjalda kaup með þeim handa almennilegri stúlku; en það er þó hverri giftri ljósmóður nauðsynlegt að hafa.

Umdæmi Arnarneshrepps er laust í vor, engin að læra fyrir hann“.

Þarna er þá eitt sönnunargagnið enn um nauðsynina á að bæta launakjör ljósmæðra, því að ekki er það meining hæstv. stj. að banna ljósmæðrum að gifta sig.

Þá er því bætt við sem aths. á bréfsröndina, að í vor verði ljósmóðurstarfið í Arnarneshreppi laust, og engin að læra. Lítur því út fyrir, að þeim umdæmum fjölgi enn, sem vantar ljósmæður.

Svo var það þetta, sem hæstv. fjmrh. sagði, að launin væru alstaðar greidd, og þykir mér sú staðhæfing koma kynlega fyrir sjónir. Þegar sannanlegt er, að nú sem stendur vantar ljósmæður í 31 umdæmi, hvernig getur þá staðið á því, að ríkisstj. greiðir laun vegna þeirra héraða eða umdæma, sem enga ljósmóður hafa? Þetta finnst mér, að hæstv. fjmrh. ætti að rannsaka betur í gegnum sýslumennina.

Hæstv. fjmrh. sneri út úr umsögn þeirri, er ég las upp úr símskeytinu frá Siglufirði. Hann fór að lýsa landslaginu þar norður frá, sem ég efast ekki um, að hann er kunnugur, og þeim erfiðleikum, sem það er bundið að ferðast frá Héðinsfirði til Siglufjarðar, og spurði, hvort landslagið eða veðuráttan mundi breytast til hins betra, ef brtt. n. yrðu samþ. Nei, veðurátta og landslag munu ekki breytast. Fjöllin verða hin sömu og snjóþyngslin eins á þessum slóðum. En með bættum launakjörum mætti gera ráð fyrir, að ljósmóðir settist að í Héðinsfirði, og yrði þá útlitið annað að því leyti, að konur úr sveit þyrftu þá ekki að flytja til kaupstaðanna til þess að ala börn sín. Ef fólkið flykkist til kaupstaðanna, sama af hvaða ástæðum það er, þá verða færri til þess að vinna að ræktun sveitanna. En það, sem gert er til þess að tryggja fólkið í sveitunum, má segja um, að það breyti útliti landsins, þó það leggi ekki vegi yfir fjöll eða breyti veðráttu.

Hæstv. fjmrh. var í klípu út af símskeytum læknanna, sem ég las upp, þó að hann vildi ekki beinlínis véfengja þau. En hann sagði, að sú hlið, sem að sér vissi, væru launakjörin, og skaut sér undir símskeyti sýslumannanna, af því að þeir greiddu launin. En eins og ég hefi margsinnis bent á, er hér ekki síður um heilbrigðismál að ræða, og frá því sjónarmiði líta læknarnir á það. Hæstv. fjmrh. hefði því átt að svara fyrir embættisbróður sinn, hæstv. dómsmrh., sem er æðsti maður í heilbrigðismálum þjóðarinnar, en getur ekki mætt í þingi sem stendur.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hæstv. forseta. Flestu, sem nokkru máli skipti í ræðu hans, var svarað af hv. þm. Snæf., enda beindi hæstv. forseti skeytum sínum aðallega til þm. Snæf., þó að hann reyndi að láta mig njóta góðs af því um leið. Hæstv. forseta hefir stundum tekizt betur, þegar hann hefir verið að skemmta þdm. Að þessu sinni var ræða hans að vísu skemmtileg á köflum, en minna fannst mér um rökin.

Það þýðir eflaust ekki að halda uppi frekari umr. um þetta mál. Hv. þdm. munu þegar ákveðnir að greiða atkv. um málið. Þó mun ég ekki skorast undan að rökræða málið enn um stund, ef þess verður óskað.