25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

11. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. þm. Snæf. endaði sína síðustu ræðu með þeim orðum, að við, sem fylgdum frv. óbreyttu, hefðum ekki nema hártoganir og útúrsnúninga fram að bera. Þegar menn komast í rakaþrot, þá er jafnan gripið til slíkra slagorða. Ræða hv. þm. Snæf. var í mesta máta ósanngjörn. Hann segir, að ég hafi verið aðalmótstöðumaður þess, að bæta launakjör yfirsetukvenna, og þetta leyfir hann sér að segja um leið og verið er að ræða frv., sem ég hefi borið fram til þess að bæta þessi launakjör til stórra muna. Og þetta segir sá maður, sem í þessu máli hefir aldrei viljað sveigja neitt til samvinnu, en jafnan sett kröfurnar svo hátt, að þær náðu engri átt. Hv. þm. drap enn á þessa firru sína, að yfirsetukonur ættu jafnhliða starfi sínu að hafa hjúkrunarstörf með höndum í umdæmum sínum, Hann heldur, að hann geti úr flokki talað um þetta efni, þar sem hann er læknir. En hvers vegna hefir hann ekki tekið þetta upp í þau frv., sem hann hefir borið fram til þess að bæta launakjör yfirsetukvenna? Hann hefir talað um það áður, að starf ljósmæðra í sveitum væri svo mikið, að þær mættu ekki öðru sinna, en nú vill hann bæta þessu við, sem telja verður, að geti orðið umfangsmikið starf í sumum tilfellum. En þó að læknir segi þetta, mundi ég ekki vilja sækja þá ljósmóður til sængurkonu, sem vitað væri um, að er að stunda sjúkling, sem haldinn er af mjög næmri veiki og smitandi. Og ég geri ráð fyrir, að það yrðu fleiri en ég, sem skoða mundu huga sinn um það.

Við höfum ekki viljað banna ljósmæðrum að giftast, en það vill hv. þm. Snæf. gera með því að leggja á þær hjúkrunarstörf jafnhliða. Þá var hann að bera saman laun barnakennara og yfirsetukvenna og fannst mikið ósamræmi þar á milli. En það veit hv. þm., að þegar talað er um mismunandi laun hinna ýmsu stétta, sem ríkið greiðir, þá verður að athuga, af hverju sá mismunur stafar. Það vita t. d. allir, að núv. hv. þm. Snæf. hefir margfalt hærri laun sem héraðslæknir en ljósmæðurnar í héraði hans, en það getur verið spursmál, hvort það sé hlutfallslega jafnt, miðað við þá vinnu, sem starfinu fylgir. Þarna verður líka að reikna með þann undirbúning og þann tíma, sem til þess fer að gera menn hæfa til starfsins. Það er því engin sönnun, þó að hv. þm. Snæf. segi, að 1.000 kr. laun barnakennara séu of há á móts við þau laun, sem yfirsetukonum eru goldin.

Það var heldur ekki rétt hjá honum, að ég vildi ekkert gera úr skeytum læknanna, þó að ég segðist fara eftir því, sem sýslumennirnir segja. En þegar hv. frsm. fullyrðir, að það sé sannað, að það vanti svona margar yfirsetukonur, eins og skeyti héraðslæknanna bera með sér, þá lýsir hann jafnframt yfir því, að allir sýslumenn landsins gefi rangar skýrslur. Á annan veg verða ummæli hans ekki skilin.

Þá var hv. frsm. að gefa í skyn, að líklega mundu allar ljósmæður deyja með tímanum, og fæ ég ekki skilið, að brtt. hans og n. hamli slíku. Það er eins og hann hafi ekki hugmynd um það, að hér taki við ein kynslóð af annari. Hér er þó starfandi ljósmæðraskóli, og geri ég ráð fyrir, að margar af þeim stúlkum, sem í hann ganga, fari að námi loknu út í þau umdæmi, sem losna. Hitt má vel vera, að þær verði ekki allar starfandi ljósmæður, eða snúi sér að einhverju öðru starfi. Það verða heldur ekki allir prestar, sem læra guðfræði.

Þá vildi hv. frsm. gefa í skyn, að eitthvað mundi bogið við greiðslur til yfirsetukvenna úti um land. Lítur út fyrir, að hann hafi enga hugmynd um, hvernig þær greiðslur fara fram, og mun því ekki af veita að fræða hann þar um. Sýslumennirnir greiða yfirsetukonum launin á manntalsþingum og taka kvittun fyrir. Þær kvittanir eru svo sendar stjórnarráðinu, sem aldrei greiðir neina upphæð nema formlegar kvittanir fylgi.

Þá kom hv. frsm. að þessu spaugilega atriði um Héðinsfjörð, að nú ætti að setja þar yfirsetukonu, en þó er ekki að þessu vikið í frv. eða brtt. hans.

Þá las hann upp glefsur úr bréfi frá ljósmóður í Eyjafjarðarsýslu. Bréf þetta hefi ég ekki séð, en hefi þó ýmislegt við það að athuga og vildi því mælast til, að hv. frsm. lánaði mér það snöggvast. (JBald: Guðvelkomið).

Mér skilst, að það sé fært sem ástæða fyrir launahækkuninni, að ein yfirsetukona hefir dáið í Eyjafjarðarsýslu. En ég fæ ekki séð, að brtt. hv. fjhn. komi í veg fyrir það, að yfirsetukonur deyi.

Nú verður ekki séð af þessu bréfi, hver yfirsetukonan er eða hve lengi hún hefir þjónað. En hv. frsm. hefir hætt lestrinum fullsnemma, og ætla ég því að byrja þar, sem hann hætti :

„Aðeins ein fæðing hefir komið fyrir í mínu umdæmi síðan ég tók við, og auðvitað hafði ég hana“. Og svo bætir hún við: „Eina fæðingu hafði ég í Aðalheiðar umdæmi. Tveimur fæðingum tapaði ég“. En því miður endar nú bréfið þarna, svo að maður fær ekki frekari skýringar á þessu. En svo er ritað með annari hendi utan á bréfsröndina, að umdæmi Arnarneshrepps muni losna í vor.

Þetta bréf getur verið gott út af fyrir sig, en ég fæ ekki skilið, að það sé þungt á metunum í því máli, sem um er deilt. Þakka ég svo fyrir lánið og skila bréfinu hér með. (JBald: Ég skal lána hæstv. ráðh. fleiri gögn. Nóg er til!) Það gæti kannske lífgað upp að lesa fleira af slíku tægi. Annars sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í ræðu hv. frsm.