25.02.1930
Efri deild: 34. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

11. mál, yfirsetukvennalög

Erlingur Friðjónsson:

Hv. þdm. hafa skipzt í tvo andstæða flokka um þetta mál, að mér undanteknum, sem ekki hefi verið talinn ákveðinn. Mætti því ætla, að umr. þær, sem nú hafa orðið hér um málið, hafi einkum átt að hafa áhrif á mig og sannfæra mig. Ef þetta hefir verið hugmyndin, þá vil ég lýsa yfir því, að hvorugur flokkurinn hefir fært fram þau rök, að þau hafi haft áhrif á aðstöðu mína. En fjhn. hefir tekizt að koma fram með till., sem sýna, að hún lítur öðruvísi á málið heldur en ég. Ég get ekki fallizt á þá skoðun, að ljósmæður í umdæmum með 300 íbúa fái jöfn laun og ljósmæður í umdæmum með 1.000 íbúa. N. gerir engan greinarmun á þessu, eins og sést á brtt. hennar. Hinsvegar er gert ráð fyrir því í frv., að greitt sé aukalega fyrir hverja 50 menn, sem eru fram yfir 300. Það er ljóst, eigi að greiða launin með tilliti til vinnunnar, að hærri laun á að greiða í 1.000 manna umdæmi en 300 manna, því að vitanlega er starfið erfiðara í stærri umdæmum, ef staðhættir eru svipaðir. En þeir geta að vísu verið ólíkir. Það er oft þéttbýlla í fjölmennari héruðunum og ferðalög því hægari. En á þessu er þó ekki hægt að byggja, því að strjálbýli getur verið innan hinna fjölmennu umdæma, og er það líka oft.

Það hefir ekki verið tekið fram, hvorki í frv. né brtt. n., hvað hverri ljósmóður er ætlað. En ég vil láta sjást í Alþt., hver munur er á till. stj. og fjhn.

Stj. leggur til, að launin séu 300 kr. á ári fyrir 300 manna umdæmi, og 140 kr. í viðbót fyrir þá 700 menn, sem þarf til þess að 1.000 íbúar séu í umdæminu. Á tíu árum fær ljósmóðirin 100 kr. aldursuppbót. Með dýrtíðaruppbót verða launin þá 756 kr., ef gengið er út frá 40%, eins og hún er nú. Fjhn. gerir ráð fyrir 300 kr. í byrjunarlaun, að viðbættri 200 kr. aldursuppbót á 12 árum + 200 kr. dýrtíðaruppbót. Þetta verða alls 700 kr. En n. gerir engan mun á því, hvort héruðin eru stór eða lítil. Lágmarkslaun eru samkv. till. stj. 300 kr. + 100 kr. aldursuppbót + 100 kr. dýrtíðaruppbót, eða alls 560 kr. Mismunurinn á launum þeim, er n. leggur til, og lægstu launum, sem stungið er upp á í stjfrv., er því 140 kr. Mér virðist stj. hafi valið hyggilegri leið, og mun því fylgja frv. hennar. Ég vil að launin séu í samræmi við stærð og fjölmenni héraðanna. Enda hefir n. að nokkru leyti fallizt á þetta, því að úr því að íbúatalan fer yfir 1.000 menn, eiga launin að hækka fyrir hverja 50 íbúa.

Ég læt liggja á milli hluta, hvort þetta séu sæmileg laun eða ekki. Ég er þessum málum ókunnugur, en eftir því, sem borgað er yfirleitt, þykir mér sennilegt, að á 6. hundrað kr. fyrir 300 manna umdæmi sé sæmileg borgun. Ég held, að launakjörin ráði ekki svo miklu um það, hvort ljósmæður fást eða ekki, a. m. k. ekki, þegar ekki ber nema 140 kr. á milli á árslaununum. Héruðin eru mörg, og það hefir hingað til ekki þótt svo óeðlilegt, þótt ljósmóður hafi vantað um tíma í stöku umdæmi. Ég held að ein ástæðan sé sú, að fólk telji ekki svo mikla nauðsyn á lærðum ljósmæðrum. Fram að síðustu 20 árum var víða engin lærð ljósmóðir, og þótt þær væru til, voru þær ekki ætíð sóttar. Þess þótti ekki þörf, og sumstaðar var jafnvel ekki sóttur kvenmaður út af bænum, þótt kona ætti barn. Ég vil því ekki ganga út frá þessari afturför hjá kvenþjóðinni, að þörf sé á í öllum tilfellum að hafa lærðar ljósmæður í afskekktum héruðum, þar sem enn ríkir sá gamli hugsunarháttur, að ólærðu ljósmæðurnar standi þeim lærðu jafnfætis.

Þá vil ég bera saman kjör ljósmæðra og barnakennara, því til stuðnings, að ég greiði hér atkv. með lægri upphæðinni. Það hefir verið minnzt á, að ef frv. um hækkuð laun farkennara verði samþ., muni kennararnir hafa 1.000 kr. fyrir 6 mánuði. En í fámennum ljósmæðrahéruðum verður starf ljósmæðra e. t. v. ekki nema sex vikna vinna, og fyrir hana fá þær 560 kr. eftir frv. stj. Ég get ekki verið í neinum vafa um, að launakjör ljósmæðra verða mun betri en launakjör farkennara. Ég vil benda á það, að í fyrra greiddi ég atkv. með till., sem fóru í líka átt og þetta frv., og þótt ég rökstyddi ekki afstöðu mína þá, þykist ég hafa gert það nú. Þótt ég vildi ekki greiða atkv. um frv. í fyrra, sem gekk í aðra átt en till., sem ég hafði greitt atkv. með áður, og forseti hafði fengið hnútur fyrir afstöðu sína í því máli, þá vil ég mæla á móti því, að hnýtt sé í hann fyrir þær sakir. Það var eðlilegt, að ég greiddi ekki atkv. með frv., þar sem ég hafði áður greitt atkv. með öðrum till., og því var það ekki ástæðulaust hjá forseta, þótt hann skoðaði mig sem andstæðing þess við atkvgr. í fyrra.