04.04.1930
Efri deild: 69. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

205. mál, almennur ellistyrkur

Ingibjörg H. Bjarnason:

Þar sem ég er fyrri flm. þessa máls, sé ég mér skylt að segja nokkur orð við þessa umr., og vil ég þá byrja á því að þakka hv. meiri hl. fyrir góðar undirtektir við málið, þar sem hann leggur til, að það nái fram að ganga. Þar sem ég við 1. umr. þessa máls gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni, vil ég ekki þreyta hv. d. með langri ræðu, enda ekki ástæða til, þar sem meiri hl. hv. n. hefir sýnt svo góðan skilning á málinu.

Meiri hl. tekur það réttilega fram á þskj. 382, að ef frv. nái að verða að lög­um, þá sé það stór bót frá því, sem verið hefir. Við flutning málsins í fyrra tók ég það líka fram, að þetta væri engin endan­leg lausn á málinu, heldur aðeins bót í bili, en hún væri því betri, því fyrr sem frv. næði fram að ganga. Þess vegna þótti mér það leitt, að svo skyldi þetta mál fara í fyrra, að frv. var hrakið milli deilda og síðan fellt í Sþ., því að það hefði vissulega verið hægur vandi að bæta úr göllun­um, þegar endanleg lausn málsins yrði gerð. Málið fékk góða afgreiðslu hér í þessari hv. d., en það var eitt aðallega, sem fjhn. beggja deilda greindi á um, og það var, hvort sveitar- og bæjarfélög skyldu gjaldskyld eða ekki, og svo hitt, hvort ráðlegt væri að hækka nefskattinn. Ég er þess fullviss, að sjálfsagt sé að gæta þess, að þeim verði í hóf stillt, en þeir eru nú orðnir nokkuð algengir hér, eins og í öðrum nágrannalöndum vorum, en þar sem þeir, sem skatta hafa greitt, geta orðið aðnjótandi hærra styrks en fé það nemur, sem þeir hafa lagt, þá sé ég ekki ástæðu til að líta á þetta sem óheillavænlegan nefskatt.

Ég vil taka það fram, að á það hefir verið bent, að ellistyrkurinn, sem hver einstaklingur hefir borið frá borði, hefir verið svo lítill, að hann hefir ekki bætt úr þörfinni svo nokkru nemur, en þessu vildum við, ég og hv. meðflm. minn, reyna að bæta úr að einhverju leyti, enda mun með þessu móti koma meira fé til úthlut­unar en áður. Þetta verður á tvennan hátt. Fyrst og fremst þannig, að tillagið er aukið frá öllum þeim, sem eru á aldr­inum 18–60 ára, og svo kemur meira fé til úthlutunar en áður, og er þetta tvennt til stórra bóta. Hæstv. stj. er hér ekki stödd, en mig hefði langað til að beina nokkrum orðum til hæstv. fjmrh., sem lagðist fast á móti þessu frv. í fyrra og vildi láta sveitar- og bæjarfélög leggja fram fé, en hv. frsm. er nú búinn að benda á, að það var ekki vinsælt í Nd., svo að ég mun ekki víkja að því frekar. Hæstv. fjmrh. sagði þá, að það væru takmörk fyrir því, hverju mætti hlaða á ríkissjóðinn, en ég hygg nú, að mörgu óþarfara sé hlaðið á hann en þessu. Þar sem nú frv. fer ekki fram á neina hækkun á ríkissjóðs­framlagi, þá vona ég, að hæstv. stj. sýni þessu máli fulla velvild og bregði ekki fæti fyrir það eins og í fyrra. Ágrein­ingsatriðin voru svo mikil þá, að okkur flm. fannst ekki rétt að taka málið upp með öðru formi en hv. Nd. samþ. það, en svo kunna hv. þdm. söguna, málið fór fyrir Sþ. og féll þar með litlum atkvæðamun.

Þótt það kunni að láta illa í eyrum að hækka nú eingöngu persónuframlagið, þá lít ég svo á eins og í fyrra, að engan verk­færan mann muni um hækkun, sem nemur einni krónu á karla, en fimmtíu aur­um á kvenmenn.

Hæstv. fjmrh. sagði í fyrra, að þótt gjald þetta væri að vísu ekki hátt, þá drægi það sig saman, er slík gjöld hlæðust að mönnum úr mörgum áttum. Ég vil snúa þessu við og nota þessi orð sem meðmæli með frv., að það munar um það fyrir sjóðinn, þegar þessi lágu gjöld koma öll á einn stað, en þessu til sönnunar get ég bent á útreikninga þá, sem frsm. fjhn. Nd. gerði í fyrra. Hinsvegar er ég sann­færð um það, að enginn vinnufær karl né kona lætur sig muna um að greiða þetta gjald. Ég vildi leyfa mér að minna á þennan útreikning, sem gerður var í Nd. í fyrra, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég lesa hann upp. Er þar gerður svo hljóð­andi samanburður á tekjum sjóðsins eins og þær eru og eins og þær hefðu orðið eft­ir þeim till., sem fram komu í málinu:

Tekjur Úthlutun Vextir

þús. kr. þús. kr. þús. kr.

Lögin . . . . . . . . . . . 173 97,7 75,3

Frv. flm. . . . . . . . . . 286 165,4 120,6

Frv. Ed. . . . . . . . . . . 297 222,3 75,5

Till. fjhn. Nd. . . . . . 229 176,7 52,8

Þessi útreikningur mun standast þá prófraun, ef menn vilja fara að athuga, hvort hann sé réttur.

Ágæti þessa máls verður bezt sannað með ummælum hæstv. fjmrh., þar sem hann segir í einni ræðu sinni, að sveitarsjóðirnir mundu fá framlag sitt marg­faldlega endurgreitt, þótt þeir kæmu inn sem nýir gjaldendur, því að færri yrðu þá þurfandi sveitarstyrks. Betri meðmæli með frv. er naumast hægt að fá frá þeim manni, sem skipar sæti fjármálaráðherra Íslands. Ég vísa til þessara meðmæla í Alþt. frá 1929, C-deild, 230. dálki.

Í núgildandi lögum frá 1909 er gert ráð fyrir, að veita megi 200 kr. styrk sem hámark. En eins og ég tók fram í fyrra, hef­ir þessu hámarki aldrei verið náð. En það er auðvelt að reikna út, að ef frv. nær fram að ganga, þá mun því hæglega verða náð, þegar svo stendur á, að ástæða þykir til að veita hæsta styrk, sem hægt er að veita.

Ég get alveg fallizt á það, sem hv. frsm. fjhn. sagði í ræðu sinni, að þessa breyt. á ellistyrktarsjóðslögunum ber ekki að skoða, samkv. ummælum mínum á síðasta þingi og ummælum mínum nú, sem neina endanlega lausn á þessu máli, heldur aðeins sem millibilsástand, sem getur í engra sanngjarnra manna augum annað en bætt úr mikilli þörf. Ég tel maklegt að styðja þá menn, sem reyna eftir fremsta megni að bjarga sér sjálfir í lengstu lög, með því að þiggja ekki sveitarstyrk, og það geta þeir miklu betur, ef þessi styrkur verður allmiklu meiri, og hjálpar þeim þannig til að bjarga sér sjálfir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég vona, að hv. þdm. sjái, að hér er enginn voði á ferðum, og geti gengið inn á efni frv. og það, sem ég hefi sagt í þessu sambandi um tilgang þess, sem er að hjálpa í bili þeim, sem eru að reyna að bjarga sér sjálfir, án þess að þurfa að leita til sveitar sinnar eða annarar hjálpar, sem mörgum hrýs hugur við að leita.