28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Ég vil taka það fram, að það var ekkert brot á gerðum samningum, þótt fundur byrjaði kl. 10, einkanlega þar sem hv. 1. þm. Skagf. óskaði þess, því að hann fer með umráð innan Sjálfstæðisflokksins, þótt það vildi nú svo til, að ég samdi við hæstv. stj., Hitt kann ég illa við, og álít það alls ekki rétt, að mörgum stórmálum sé blandað inn í eldhúsdagsumr. Það er einnig enganveginn rétt hjá hæstv. forsrh., að umr. um þessi mál hafi aðeins staðið á aðra klst., heldur hafa a. m. k. 3 tímar farið í að ræða um sjómannalögin og siglinga lögin, og nú liggja hér tvö stórmál fyrir. Allan daginn í gær töluðu svo aðeins 3 menn, hv. þm. Ísaf., sem raunar var vorkunn, því að hann hafði ekki talað fyrr, svo talaði hæstv. forsrh. og að síðustu kom hæstv. dómsmrh. með eina af þessum langlokum sínum, sem allir kannast við.