12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

11. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Hv. þm. Dal. virðist bera ákaflega mikla umhyggju fyrir atkvgr. í hv. Ed. Og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo, að til þess að koma fram breyt. á lögum um laun ljósmæðra verði að breyta þingsköpum.

Ég verð að segja það, að mér finnst nú vera farið að seilast nokkuð langt eftir ástæðum í þessu máli, ef leita þarf þeirra úrræða til að koma fram þeirri launahækkun, sem hv. þm. Dal. stendur svo fast á.

Annars þykir mér það ómaklega mælt af hv. þm., að telja mig vera að fara í herferð á hendur ljósmæðrum og níðast á þeim í launamálum. Í þessu frv., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir talsvert mikilli hækkun á launum yfirsetukvenna, einkum þeirra, sem lægst eru launaðar áður; það er aðeins ekki gengið eins langt í því eins og þeir vilja, sem lengst vilja fara í hækkunaráttina. En ég vil benda hv. þm. Dal. á það, að ef honum er í raun og veru áhugamál, að ljósmæður fái launahækkun, þá sé réttara fyrir hann að fara varlega nú.

Það var misskilningur hjá hv. þm. Dal., að brtt., sem fram kom í Ed., hefði verið samþ., ef hv. 2. þm. S.-M. hefði verið viðstaddur atkvgr. Það vantaði annan mann í deildina, sem ekki var brtt. fylgjandi, svo það hefði farið eins, þó deildin hefði verið fullskipuð.

Þá sló hv. þm. Dal. því föstu, að það vantaði ljósmæður í 31 umdæmi á landinu. En ég hefi nú í höndum símskeyti þessu viðvíkjandi frá öllum sýslumönnum á landinu, og samkv. þeim eru það ekki nema 14–15 umdæmi, sem ekki hafa fasta yfirsetukonu, og þar af aðeins 4–5, sem aðkallandi þörf hafa á að fá yfirsetukonu; hinum er þjónað af nágrannaljósmæðrum, með samþykki hlutaðeigenda. Ég vil benda hv. þm. á, að ekki liggur fyrir nein almenn beiðni um það frá héruðum úti á landi, að laun ljósmæðra séu hækkuð vegna þess að skortur sé á þeim. Og það eru ekki nema 4 sýslur á landinu, sem nota heimildina til að greiða ljósmæðrum dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna. Sýnir það, að héruðin telja engin vandræði stafa af, hvað ljósmæðralaunin eru lág. Og þó er nú í þessu frv. gert ráð fyrir allverulegri hækkun á þeim, svo mikilli, að ég þykist fullviss um, að ef aðrir embættismenn ríkisins fengju aðra eins launabót, þá yrðu þeir mjög ánægðir. Enda er ég viss um, að ljósmæður úti um land verða ánægðar með þá launahækkun, sem frv. gerir ráð fyrir.

Annars finnst mér ekki ástæða til að vera langorður um þetta nú við 1. umr. Ég býst við, að n. sú, sem fær frv. þetta til meðferðar, komi fram með sínar till., og er þá hægt að ræða málið frekar.