12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

11. mál, yfirsetukvennalög

Sigurður Eggerz:

Ég verð að segja, að ég varð dálítið hissa á, að hæstv. fjmrh. skyldi ekki geta tekið í sama streng og ég um það, að ástæða væri til að breyta þingsköpunum, ef úrskurður hæstv. forseta Ed. sem ég minntist á áðan, hefir verið réttur. Hann veit þó, að ég fer hér með rétt mál. Ég er viss um, að alstaðar í heiminum væri meiri hluti talinn með því máli, sem 14 menn eiga að greiða atkvæði um, ef 7 greiða atkv. með því, 6 á móti því og 1 greiðir ekki atkv. Það er víst enginn sá félagsskapur til, sem ekki teldi slíkt mál samþ. (Fjmrh.: Þetta liggur ekki fyrir til umr. hér nú). Þetta er þáttur úr sögu þess máls, sem fyrir liggur. Í fyrra hafði frv. um hækkuð laun handa ljósmæðrum meirihl.fylgi í báðum deildum þingsins, en féll á úrskurði forseta; og sé sá úrskurður réttur, þá verður að breyta þingsköpunum. (Fjmrh.: Hver á að skera úr um það?). Ég er ekki að dæma um, hvort úrskurður þessi hafi verið réttur eftir þingsköpunum, en hafi hann verið eftir réttum skilningi á þeim, þá eru slík þingsköp þingi og þjóð til stórskammar. Þau gætu orðið mikilsverðari málum en þessu að fótakefli. Mér finnst, að stj. sé skyldug til að bera fram breyt. á þingsköpunum strax á næsta þingi eftir að upp er kveðinn þannig úrskurður sem þessi.

Hæstv. fjmrh. segir, að ljósmæður vanti ekki nema í 14–15 umdæmi. En ég hefi hér í höndum svör frá 48 héraðslæknum um það, hvort yfirsetukonur vanti í þeirra umdæmum. Samkvæmt þeim vantar 31 ljósmóður á landinu. Álítur hæstv. ráðh., að læknarnir gefi rangar skýrslur? (Fjmrh.: Heldur hv. þm. Dal., að sýslumennirnir hafi gefið ranga skýrslu?). Ég er ekki að halda því fram, en þeir eru ekki eins kunnugir þessum efnum eins og héraðslæknarnir. Mismunurinn á skýrslunum stafar eflaust af ókunnugleika sýslumannanna; það snertir mest læknana, ef yfirsetukonur vantar, og svör þeirra get ég lesið upp, ef hv. þm. vilja það.

Það er því óhætt að slá því föstu, að það vantar 31 ljósmóður, og það stafar af því, hvað kjör þeirra eru bág. Og þessu verður að ráða bót á.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, að varlegra væri fyrir mig að fara gætilega í þessu máli.

En ég þekki nú ekki aðra leið til að taka þátt í umr. heldur en að halda fram því, sem maður álítur sannast og réttast í hverju máli.

Það getur vel verið, að það sé yfirleitt „varlegra“ fyrir hvern og einn að vera eins og stj. vill í ýmsum málum; en ég tala nú á móti henni, hvort sem það er varlegt eða ekki. Ég álít, að þingmönnum sé skylt að segja stj. sannleikann, hvort sem hún vill hlusta á hann eða ekki. Ég get látið hæstv. fjmrh. vita það, að það, sem við andstæðingar hans höldum fram í þessu máli, er í fullu samræmi við kröfur fulltrúa ljósmæðranna.

Ég hygg, að þau ummæli mín hafi verið rétt, að brtt., sem fram kom við þetta frv. í Ed., hefði verið samþ., ef hv. 2. þm. S.-M. hefði ekki verið fjarstaddur atkvgr. Þá hefðu verið greidd 7 atkv. með henni en 6 á móti, og 1 mann vantað í deildina; það hefði hæstv. forseti aldrei getað úrskurðað svo, að till. væri felld.

Að öðru leyti get ég vísað til þess, sem ég hefi áður sagt um þetta mál. Þeir, sem lesa frv. það, sem nú liggur fyrir, og bera það saman við frv., sem lá fyrir þinginu í fyrra, sjá, að kjör ljósmæðra eftir stj.-frv. eru miklu verri en eftir hinu. Þess vegna var það, að ég taldi hæstv. fjmrh. vera að fara herferð gegn ljósmæðrunum, þar sem hann með þessu frv., ef honum tekst að hamra það gegnum þingið, dregur nokkuð af þeirri launabót, sem meiri hl. beggja deilda var sammála um í fyrra að veita þeim.