12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

11. mál, yfirsetukvennalög

Fjmrh. (Einar Árnason):

Mér finnst óþarfi fyrir okkur hv. þm. Dal. að vera að deila um þingsköp nú; það er ekki svo aðkallandi í sambandi við þetta mál. Hafi hann fundið til ranglætis í þingsköpunum, þegar umræddur forsetaúrskurður var kveðinn upp eftir þeim, þá var honum sjálfum innan handar að bera fram till. um breyt. á þeim.

Hv. þm. Dal. sló því föstu, að sannað væri, að ljósmæður vantaði í 31 umdæmi, og hampaði símskeytum læknanna sem sönnunargagni. En ég get þá alveg eins talið sannað það gagnstæða.

Ég hefi líka nóg símskeyti, þó ég hafi ekki veifað þeim eins mikið og hv. þm. Dal. sínum. Það eru fullskýr svör frá öllum sýslumönnum á landinu um þetta sama efni. Hv. þm. Dal. vildi bera brigður á símskeyti sýslumannanna, af því þeir væru ekki þessu máli nógu kunnugir. En ég vil þá benda honum á, að fyrst og fremst eru það nú sýslumennirnir, sem úthluta laununum til ljósmæðranna, og svo hafa þeir með höndum að auglýsa þau umdæmi, sem losna. Og yfir höfuð efa ég ekki, að þeir skýri rétt frá. (MG: Eru hvortveggja símskeytin frá sama tíma?). Símskeytin frá sýslumönnunum eru öll dagsett í janúar, svo það getur engu munað á tímanum. Ég álít því, að hv. þm. Dal. geti ekki staðið hér upp og slegið því föstu, að ljósmæður vanti í 31 umdæmi, nema segja um leið, að sýslumennirnir hafi gefið ranga skýrslu. Ég held mér við þau, að skýrslur þeirra séu réttar, enda benda útborganir fjármálaráðuneytisins ekki á, að það vanti yfirsetukonur í mörg umdæmi.

Hv. þm. Dal. segir, að ljósmæðraskorturinn — sem ég viðurkenni ekki að sé mikill — stafi af því, að launin séu of lág. Ég skal ekkert um það segja; það má vel vera, að það sé að einhverju leyti rétt. En er ekki einmitt verið að hækka launin með þessu frv? Hv. þm. talar alltaf eins og það væri ekki. Hefir hann gert sér grein fyrir, hvað laun ljósmæðra hækka um mörg % eftir þessu frv. frá því, sem nú er? (SE: Já, já!). Það væri þá gott, að hann skýrði frá því, til þess það kæmi fram, hvað hann telur hér um mikla breyt. að ræða. Það er líkast því, að hann telji launahækkun einskis virði fyrir ljósmæðurnar, nema hún sé nákvæmlega eins mikil og hann vill hafa hana.

Hv. þm. Dal. var enn að tala um atkvgr. um brtt. við þetta frv. í Ed. um daginn. Það er auðvitað rétt, að ef 7 hefðu greitt atkv. með henni en 6 á móti, þá hefði hún verið samþ. En um það var ekki að ræða. Frv. hefði ekki komið til atkv. fyrr en deildin var fullskipuð, hefði ekki staðið svo á, að sinn manninn vantaði frá hvorum málsparti, og því allt komið í sama stað niður.

Það, sem ég sagði áðan um það, að ef hv. þm. Dal. vildi ljósmæðrum vel, þá skyldi hann ekki fara of geist nú stafaði ekki af því, að ég væri að hugsa um hv. þm. sjálfan. Ég var að hugsa um hag ljósmæðranna og vildi ekki, að hv. þm. spillti fyrir því, að þær fengju þá sanngjörnu launahækkun, sem gert er ráð fyrir í frv., sem fyrir liggur nú.