12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

11. mál, yfirsetukvennalög

Hákon Kristófersson:

Ég ætla nú ekki að fara langt út í þetta mál. Ég vildi aðeins leiðrétta dálítinn misskilning hjá hæstv. fjmrh., sem ef til vill stafar af ókunnugleika. Hann sagði, að þar sem yfirsetukonu vantar í umdæmi, en þeim þjónað af nágrannaljósmæðrum, þá væri það gert með samþykki hlutaðeigenda. A. m. k. að því er snertir slíkt tilfelli í Barðastrandarsýslu er þetta alls ekki rétt.

Mér er kunnugt um, að yfirsetukonu vantar í einn ef ekki tvo hreppa í Barðastrandarsýslu, og yfirsetukonur í næstu hreppum eru þar þjónandi, jafnframt sínu umdæmi. Hlutaðeigendur telja þetta óviðunandi fyrirkomulag, en þeim hefir ekki tekizt að fá úr því bætt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og umkvartanir. En ljósmóðir Reykhólahrepps fær ljósmóðurlaun beggja umdæmanna, þ. e. Geiradals- og Reykhólahrepps, og því dettur mér í hug, hvort ósamræmið milli skýrslna læknanna og sýslumannanna muni ekki stafa af því, að sýslumennirnir miði sínar skýrslur við það, í hvað mörg umdæmi þeir greiða ljósmæðralaun. En eins og ég nefndi dæmi um, gegnir sumstaðar sama ljósmóðirin fleiri en einu umdæmi. (Fjmrh.: Sýslumennirnir vita það). Því er þá ekki samræmi í svörum læknanna og sýslumannanna? Mér finnst ekki hægt að gera upp á milli þessara tveggja stétta þannig, að önnur skýri rétt frá, en hin rangt. Ég vil slá því föstu, að þær séu báðar trúverðugar. Þess vegna hlýtur mismunurinn að stafa af einhverskonar misskilningi.