09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. 2. minni hl. (Hannes Jónsson):

Úr því að hæstv. forseti gefur mér orðið, má ég til með að skemmta hv. þm. Dal. með því að taka upp umr. um þetta mál, þó að mér virðist, að honum hafi tekizt sinn málaflutningur ágætlega, því að þótt deildin væri vel skipuð, þegar hann byrjaði að tala, þá er hún nær tóm orðin. Þetta er nokkurskonar vitnisburður um það, hve mikið hv. þdm. leggja upp úr öllu þessu fjasi um, hvað laun yfirsetukvenna séu svívirðilega lág og þar fram eftir götunum.

Ég vil benda hv. þm. á það, að ef hann vill gera yfirsetukonunum vel til, þá ætti hann að gera sitt til þess, að þetta frv. gengi í gegnum þessa hv. d. óbreytt. Því að með því einu móti eru líkur til, að yfirsetukonurnar fái bættan sinn hag á þessu þingi.

Þær brtt., sem hv. þm. Dal. flytur, eru nákvæmlega shlj. þeim brtt., sem bornar voru fram í Ed. og felldar þar. Ef þær verða teknar upp hér, þá eru litlar líkur til þess, að frv. nái fram að ganga í Ed., og hinsvegar er það víst, að frv. verður ekki afgreitt héðan úr deildinni, fyrr en alveg á síðustu stundu.

Ef hv. þm. meinar nokkuð með því að vilja bæta hag yfirsetukvennanna, á hann að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, því að í því er um 75% launahækkun að ræða, og það er ekki svo lítið, að ekki sé hægt að taka við því. Ég verð að halda, að hv. þm. Dal. sé ekki eins einlægur í garð yfirsetukvennanna og hann þykist vera, ef hann vili ekki ganga að þessu.

Allt fjas hans um, að kvenfólkið sé svo illa sett, er allmikið utangarna, því að hann hefir sjálfur fylgt þessari reglu við að úthluta kvenfólki borgun fyrir vinnu sína. Hv. þm. hefði þá átt að byrja á því að sýna í verkinu, að hann vildi ráða bót á þessu.

Á undanförnum þingum hefir oft verið talað um, að vantaði a. m. k. 30 yfirsetukonur í landinu; en samkv. því, sem sýslumenn hafa gefið upp, eru það ekki nema 14 umdæmi. Þessir embættismenn, sýslumennirnir, ættu þó að vera þessu kunnugastir, af því að þeir greiða út launin. Ef þessi kenning hv. þm. Dal. væri rétt, að vantaði svona margar, þá ættu að vera a. m. k. 16 yfirsetukonur, sem hirtu launin, en gerðu svo ekkert meira.

Ég vil ekki ætla, að svo sé, því að sýslumönnum er sjálfsagt kunnugt um það í sínum sýslum, hvort yfirsetukonur rækja störf sín eða ekki. Og það mundi áreiðanlega ekki viðgangast neinsstaðar, að yfirsetukonum væru borguð áfram launin án þess að þær ynnu störf sín. Það er því ekki um að villast, að miklu færri umdæmi eru án yfirsetukvenna en hv. þm. hélt fram.

Annars hefir svo margt verið um þetta mál fjallað á undanförnum þingum, að ekki þýðir að fjölyrða um það nú. Og allra sízt held ég, að ég fari að tala um hluti, sem liggja svo langt fyrir utan málefnið, sem margt í ræðu hv. þm. Dal. En það verður að virða honum þetta til vorkunnar, af því að hans orðgnótt er svo mikil, að hann hefir ekkert vald á að tempra það, þótt það liggi langt fyrir utan það, sem til umr. er.

Ég vil leggja áherzlu á það, sem ég gat um áður, að ef hv. þm. vill bæta kjör yfirsetukvenna, þá er langheppilegast að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Það dugir ekki að berja höfðinu við steininn og vilja ekkert annað en það, sem hann hefir einu sinni flutt hér á Alþingi. Hann verður að sætta sig við miðlunartill., jafnvel þótt honum finnist þær ganga skemmra en hann hefði helzt kosið. Hann má ekki, ef hann heldur að yfirsetukonurnar séu allt of lágt launaðar, taka frá þeim þá launahækkun, sem farið er fram á í frv.

Ég vil benda hv. þm. á, að það er ríkjandi skoðun úti um land, að laun yfirsetukvenna séu nógu há, því að sýslunefndir hafa ekki notað þá heimild, sem þær hafa að lögum til þess að greiða uppbót. Það eru aðeins einar fjórar sýslunefndir, sem hafa gert það, og ein þeirra aðeins einu sinni, en svo ekki oftar. En úr því að þessi er hin almenna skoðun, þá þýðir ekki að segja, að almennt sé álitið, að launin séu of lág og verði að hækka.

Ég tel það mikla réttarbót í frv., að sýslunefndum er gert að skyldu að borga þessa uppbót, sem þær hafa trassað að borga. En sýslunefndir hafa ekki viljað leggja á sig að borga þessa litlu upphæð, og sýnir það, að ekki er hörgull á yfirsetukonum.

Vill hv. þm. Dal. virkilega bera sýslunefndarmönnum á brýn, að fyrir að spara þessar krónur séu þeir að stofna konum sinnar sveitar í stórkostlega hættu? Ég býst ekki við, að hann vilji bera sakir á alla þessa sýslunefndarmenn, 200 völdustu menn í landinu, því að það eru stórar sakir, ef þeir hafa trassað að borga út þessa litlu uppbót á launin, ef þeir máttu samkv. skoðun hv. þm. Dal. álíta, að flestum konum væri þar með stofnað í mikinn lífsháska.

Ég veit, að viljað hefir til, þó að læknir væri við hendina, að dauðsföll hafa átt sér stað af barnsförum. En þó að einstök slík dæmi komi fyrir, þá er ekki sjálfsagt að hækka laun yfirsetukvennanna. Ekki mundi það bæta úr þessu að hækka laun læknisins. Þessi dauðsföll eru nokkuð, sem ekki er hægt að gera við, þótt læknirinn hefði haft tvöföld eða þreföld laun.

Ég tel fulla ástæðu til þess að gera sig ánægðan með þá uppbót, sem farið er fram á í frv. Því að annað getur varla gengið fram, og í öðru lagi er almennt álitið, að launin séu ekki of lág, því að annars hefði sýslunefndunum ekki haldizt uppi að veita ekki hina heimiluðu uppbót. (HK: Sýslunefndirnar álíta, að ríkissjóður eigi að borga þessum starfsmönnum). Þeim ber nú einu sinni skylda til þess að standa straum af þessu, og þær borga út launin, nema dýrtíðaruppbótina. Og þær mundu alveg eins hafa borgað út dýrtíðaruppbótina eins og sjálf launin, ef þeim hefði fundizt þeim bera skylda til þess. Ég vil ekki taka við neinum aðdróttunum að þessum sýslunefndarmönnum, eins og mér virtist felast í ræðu hv. þm. Dal. og hljóta að skiljast á þann veg, ef maður á að ganga út frá, að launin séu of lág.

Ég hefi frekar mælt með því, að þetta frv. verði samþ., til samkomulags, heldur en að ég telji það beinlínis nauðsynlegt. Og ég er þó það velviljaður yfirsetukonunum, að ég hefi viljað, að frá þessu þingi fengju þær einhverja leiðrétting þessa máls. En hv. þm. Dal. vill, að ef þær fá ekki allt, þá fái þær ekki neitt. En það er áreiðanlega ekki neinn velgerningur, og ég býst ekki við, að hv. þm. Dal. fái þakkir fyrir að hafa staðið í vegi fyrir þessu.