09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

11. mál, yfirsetukvennalög

Hákon Kristófersson:

Ég hafði hugsað mér að láta þetta mál afskiptalaust nú. Þó stend ég ekki upp nú vegna þess, að ég telji þörf á að hjálpa hv. þm. Dal., því hann mun maður á móti hv. þm. V.-Húnv.

Þegar talað var um mölun, datt mér í hug gamall vísupartur:

„Malar skítug kjaftakvörn

klækjagjörn á Fúlutjörn“.

Ég held hv. þm. V.-Húnv. rísi upp í hverju máli hér og mali, þó ekkert komi undan kvörninni. Ferst honum því eigi að brigzla öðrum um malverk.

Hann brigzlaði hv. þm. Dal. um illa meðferð á Íslandsbanka. Af því það mál er hv. þm. Dal. svo nákomið, tel ég rétt að taka svari hans að því er það snertir.

Ég vil þá benda á það, að hæstv. fjmrh. hefir lýst því yfir, að ekki beri að saka núv. bankastjórn Íslandsbanka um það, hvernig komið er. Það er því ekki annað en frumhlaup hins ógætna manns, að vera að saka hv. þm. Dal. um mistök á bankastjórn hans. Þó hann sé ekki talinn verðugur að vera bankastjóri áfram, verður það sýnilega ekki talin hans sök. En það endurtekur sig hér gamla sagan, að þegar menn eru komnir í algert rökþrot, fara þeir að fálma eftir persónulegum brigzlyrðum, sem æfinlega koma harðast niður á þeim sjálfum.

Hv. þm. V.-Húnv. var að tala um, að hv. þm. Dal. mundi mala þangað til ekkert yrði eftir af Sjálfstæðisflokknum. Ég býst nú ekki við, að hann taki sér þau ummæli nærri. Það skiptir alltaf mestu, hver það er, sem segir hvað eina. Ef einhver merkur maður hefði látið sér þetta um munn fara, hefði verið erfitt að sitja undir því, en þegar vill nú svo vel til, að það er bara hv. þm. V.-Húnv., þá auðvitað tekur enginn mark á því. Um orð hans fer eins og um sæðið, sem féll í hina grýttu jörð.

Ég sé, að hv. þm. Mýr. er að hvísla einhverju hnyttiyrði að flokksbróður sínum, hv. þm. V.-Húnv. Honum sýnist hann sennilega vera að verða mun minni en hann áður hefir verið, og þykir ekki vanþörf á að rétta honum hjálparhönd.

Hv. þm. talaði um það, að flestar sýslur á landinu létu undir höfuð leggjast að greiða ljósmæðrum dýrtíðaruppbót á sinn hluta launanna. Finnst honum það eftirbreytnisvert? Til þessa geta legið ýmsar ástæður, t. d. of mikil sparnaðarhvöt. Þannig hefir það verið í Barðastrandarsýslu fram á allra síðustu tíð. Þetta fer alveg eftir því, hvað sýslunefndirnar eru sanngjarnar, alveg eins og afdrif mála hér á Alþingi fara eftir því, hvað hv. þm. V.-Húnv. og flokksbræður hans, sem skipa meiri hl. nú, eru sanngjarnir.

Því hefir verið slegið fram, að launagreiðslur til yfirsetukvenna sýndu, að ekki væri eins mikil vöntun á ljósmæðrum og haldið hefir verið fram. En launagreiðslan er alls ekki einhlítur mælikvarði á það, hvað víða vantar yfirsetukonur, því sumstaðar mun sömu konunni vera greitt fyrir tvo hreppa. Svo er það í einum stað í Barðastrandarsýslu. Eins og ég hefi áður vikið að, vantar yfirsetukonu í Geiradalshrepp, þrátt fyrir endurteknar áskoranir til landlæknis. — Látið þið nú eitthvað verða eftir af hv. þm. V.Húnv.! Þið megið ekki safnast svo í kringum hann, að hann hverfi alveg. — Hv. þm. sagðist vilja ganga að þeim umbótum á kjörum ljósmæðra, sem felast í því frv., er fyrir liggur. Það er rétt, að í því eru dálitlar umbætur. En þó hv. þm. Dal. vilji ekki fallast á það frv., sem honum finnst ganga allt of skammt, þó hann vilji ekki falla frá þeim till., sem hann er sannfærður um, að séu réttmætar, þá finnst mér síður en svo, að hann sé ámælisverður fyrir það.

Nú þykja mér hvíslingarnar ganga nokkuð langt, þegar hv. þm. V.-Húnv. er farinn að hvísla að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh: Ég banna, að þetta sé látið sjást í Alþt.!). Hv. þm. V.-Húnv. er líklega í liðsbón. Þar hefði hann nú fengið liðtækan mann, ef honum hefði tekizt að fá hv. 2. þm. G.-K. í lið með sér; en hann er nú geðslegri en svo, að hann gangi undir merki hv. þm. V.-Húnv.

Ég lái hv. þm. ekki, þó hann fari í liðsbón. En ég vildi sem eldri og reyndari maður ráðleggja honum að draga nú netin í land. (ÓTh: Full af yfirsetukonum). Nei, full af hans eigin heimsku, svo ég segi ekki annað verra.

En ef ég vildi draga inn í umr. óskyld mál, eins og hv. þm. V.-Húnv., þegar hann var að brigzla hv. þm. Dal. um Íslandsbanka, þá gæti ég brigzlað honum um framkomu hans gagnvart mér í sambandi við meðferð vegalaganna, á meðan ég var fjarstaddur, um alla sviksemi og undirferli hans. (Forseti hringir). Mér er raun að því, þegar jafnágætur maður og hæstv. forsetinn okkar er að hringja á mig. Ég held hann sé bara að minna hv. þm. V.-Húnv. á að tala ekki af sér næst þegar hann talar, með því að hringja fyrirfram. Ég a. m. k. legg þannig út hringingar hæstv. forseta, því það getur ekki verið, að hann álíti neitt ofmælt hjá mér, svo einstaklega hógværum og orðblíðum manni.

Þegar ég lít yfir till. hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Reykv., finnst mér engin ástæða til að mæla á móti þeim. Að vísu virðast umbæturnar, sem í þeim felast, e. t. v. koma mest niður þar, sem þörfin er minnst. Það hefir hv. þm. V.-Húnv. ekki minnzt á. (HJ: Ég ætlaði hv. þm. Barð. að gera það). Það er gott, að ég hefi þá fengið tækifæri til að hjálpa hv. þm.

Það eru svolitlar umbætur í frv. því, sem hér liggur fyrir. En þar sem launabæturnar, sem brtt. fara fram á, eru þær minnstu, sem hv. flm. þeirra telja viðunandi, þá er ekki nema sjálfsagt og rétt af þeim að halda þeim til streitu, þó þeir verði e. t. v. að sætta sig við, að þingmeirihl. felli þær. Það er vitanlega álitamál, hvað rétt er að hækka launin mikið. Hvað víða vantar yfirsetukonur, getur verið af ýmsum ástæðum, en þó er sýnu nær, að það takist að fá ljósmæður í þau umdæmi, sem laus eru, ef boðin eru sæmileg kjör. Ljósmæðurnar eru staðbundnar í þeirri sveit, sem þær starfa í, svo að þær þurfa að fá meira kaup heldur en sæmilegar kaupakonur.

Ég vona, að minn ágæti vinur, hv. þm. V.-Húnv., fallist nú á, að það er varhugavert að vera á móti jafnsanngjörnum till. og hv. þm. Dal. Sé ríkissjóði um megn að greiða þessa launahækkun, þá eru honum ekki síður um megn ýmsar aðrar greiðslur, sem hv. þm. V.-Húnv. hefir greitt atkv. með. Það kemur lítið þessu máli við, þó hreppstjórar og oddvitar hafi lítil laun. Það bætir ekkert úr skák fyrir ljósmæðurnar, þó fleiri en þær verði e. t. v. fyrir ranglæti.

Ég ætla að enda mál mitt með því að fullvissa hv. þm. V.-Húnv. um það, að uggur hans út af því, að hv. þm. Dal. geri eitthvað, sem sundri Sjálfstæðisflokknum — hann nefndi það nú að mala, af því hann kann svo vel við það orð — er alveg ástæðulaus. Hv. þm. og flestir hans samherjar eru svo ákaflega sorgbitnir yfir því, að Íhaldsflokkurinn skuli hafa skipt um nafn og nefnt sig Sjálfstæðisflokk, vegna þess að þeir óttast, að fylgi hans muni minnka við það! En þau heilindi !