09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

11. mál, yfirsetukvennalög

Einar Jónsson:

Það er nú búið að þrátta svo mikið um þetta mál, að ég held að ég megi láta þar við sitja og bíða eftir atkvgr.; hennar verður víst ekki svo langt að bíða. En ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á það, sem farið hefir hér fram undanfarna daga.

Ég tók engan þátt í eldhúsdagsumr., þó að þær væru langar. Ég finn ekkert að því í sjálfu sér, þó að mikill tími fari í eldhúsdagsumr., en ég tók eftir því, að gegn því álasi, sem hæstv. stj. varð fyrir af mörgum skýrum mönnum, var ekkert frá henni að heyra nema sjálfshól og að hún hefði alltaf gert það bezta, sem hægt var að gera. Ég skal ekki fara út í það, en þegar hæstv. stj. var búin að ganga gegnum þessa þraut, þá lítur út fyrir, að hún hafi fengið hv. þm. V.-Húnv. til að standa fyrir svörum fyrir sína hönd á móti okkur sjálfstæðism. Af því mér er vel við hv. þm. V.-Húnv., vil ég vara hann við að haga sér eins og hann hefir gert og láta aðra hafa sig til að koma svona fram. Það er óvíst, að það verði honum neitt til góðs að vera að reka hornin svona í aðra á báða bóga. Hann gerir þetta að vísu fyrir orð hæstv. stj., og gerir það vel, en af því ég er vinur hans, vil ég ráða honum til að gera það ekki. Honum er sigað á sjálfstæðismenn af stj., ég vil ekki segja eins og hvolpi, en eins og seppa. Það er ekki heldur rétt af stj. að nota sér það svona, að þessi hv. þm. er þægari en aðrir. Hann á það ekki skilið, því að hann er góður drengur og þm. alveg eins og hinir.

Ég mun ljá þessu máli atkv. mitt, en þó ekki fylgi mitt. Ég vil gjarnan, að hægt verði að afgreiða málið sem fyrst, því að mér leiðist þetta langa málþóf.