09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

11. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. 2. minni hl. (Hannes Jónsson):

Það eru sérstaklega tveir hv. þm., sem hafa nú sótt að mér, þeir hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. Barð. Það liggur eitthvað svo hræðilega illa á þeim, og þó veit ég ekki til, að neitt hafi komið fyrir þá nú síðustu dagana nema að þeir fóru báðir heim til sín. Það virðist einkennilegt, að það skyldi hafa svona áhrif á þá; mér finnst, að það hefði miklu fremur átt að spekja þá heldur en hitt. Ég veit að vísu, að það er sauðnautskálfur í námunda við heimili hv. 1. þm. Rang., sem hefir víst stangað hann í þessari ferð, svo að hann hefir lært að haga sér eins og hann gerir nú, þegar ég er að reka í hann hníflana, eins og hann orðaði það.

Það er ekki rétt, að ég hafi ráðizt á Íhaldið við þessar umr., og mér hefir ekki verið otað fram af neinum nema öðrum minni hl. n., því að ég hefi framsögu fyrir hann. Þess vegna verð ég að tala hér, enda þótt það sé ekki skemmtilegt að vera að deila við hv. þm. Dal. Hv. 1. þm. Rang. er að mestu leyti sömu skoðunar og ég, og hv. þm. Barð. að nokkru leyti líka. Hann hefir sýnt það, að hann hefir tekið eftir umr. frá því í fyrra um þetta mál og vill ekki veita þeim launauppbót, sem sízt þurfa hennar með, eins og kom fram á síðasta þingi. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Barð., og ætti það að verða til þess, að hann greiddi atkv. á móti brtt.

Ég held, að ég verði að sleppa að mestu leyti að minnast á hv. þm. Dal. Hann var að minnast á flug. Það er eðlilegt; hann er svo mikill flugfálki. Þegar hann er að tala, ber hann sig til eins og hann ætli að hefja sig til flugs fram yfir borðið og fljúga eftir öllum listarinnar reglum.

Hann er samt ekki farinn að hefja sig til flugs ennþá, en fer víst bráðum til þess, en það væri bara betra fyrir hann, ef hann gæti grennt sig lítið eitt áður, því að eins og hann er nú, verður hann varla háfleygur. Honum hefir ekki tekizt ennþá að vera háfleygur, nema þegar hann er að tala um þá miklu áþján, sem yfirsetukonurnar verði að þola.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Þessir hv. þm. eru eitthvað svo illir á stallinum, sérstaklega hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. Barð., og er það undarlegt, þar sem þeir eru nýkomnir heiman frá sér.