09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

11. mál, yfirsetukvennalög

Einar Jónsson:

Ég skal ekki eyða löngum tíma til að karpa við hv. þm. V.-Húnv., en þar sem hann var að reka hniflana í mig, þá held ég, að ég verði að reka þá í hann aftur.

Hv. þm. gaf í skyn, að ég hefði orðið fyrir áhrifum frá sauðnautinu. Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa komið í námunda við þá skepnu. Hv. þm. var víst ekki með, þegar landbn. fór austur til að sjá sauðnautskálfinn, enda býst ég við, að hann hefði ekki orðið neitt glaður yfir að sjá slíka fígúru sem hv. þm. Landbn. gat ekki komizt nærri sauðnautinu, það er hrætt, þar sem það er þarna eitt sins liðs, en við því er ekki gott að gera, þar sem ekki er nema þessi eina kvíga til á landinu, svo að enginn er til að vera þar hjá henni, nema ef það væri hv. þm. V.-Húnv.

Hann var að tala um það, hv. þm., að við hv. þm. Barð. værum eitthvað svo gramir síðan við komum heiman frá okkur og hitt, að eitthvað sérstakt hefði komið fyrir okkur, sem hann skildi ekkert í. Ég veit ekki til, að það geti verið neitt nema við uggðum það, að eitthvað illt kæmi fyrir í þinginu. T. d. hefi ég heyrt, hvernig hv. þm. V.-Húnv. hefir hagað sér, meðan ég var í burtu. Hann vill gera vel, það má hann eiga, en honum tekst það ekki, því að hann vill gera allt, sem hann er beðinn. Því er hann stundum afvegaleiddur, en það þýðir ekki að reyna slíkt við mig og ekki við þm. Barð. heldur. (HJ: Ef ef til vill ekki hægt að leiða þá afvega?). Hv. þm. getur komið og reynt það, og séð, hvort það ber mikinn árangur.