09.04.1930
Neðri deild: 75. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

11. mál, yfirsetukvennalög

Hákon Kristófersson:

Ég get verið stuttorður. Hv. þm. V.-Húnv. var að beina því til mín, að ég væri illur á stalli, síðan ég kom heiman frá mér. Ég veit ekki til, að ég hafi staðið við sama stall og hann. Ég held, að hingað til hafi hann getað etið óáreittur úr sinni jötu fyrir mér, og býst við, að svo verði hér eftir. Ég hefi aldrei tekið neina tuggu frá munninum á honum og mun ekki gera, og vísa því þeim ummælum með öllu á bug. Svona löguð orð eru aðeins orð rökþrota manna, ekkert annað.

Hv. þm. virðist álíta, að hann hafi komið sérstaklega kurteislega fram við þessar umr. Heyr á endemi! Hvenær hefir maður heyrt þennan hv. þm. koma fram kurteislega? Ég vil mótmæla öllum þessum óþinglegu orðum hans, sem sýna aðeins, hve mikið lítilmenni hann er, svo að maður segi nú sannleikann. Hann er að tala um það í þingræðum, hvort menn séu vel eða illa skapi farnir. Þar með sýnir hann, að hann er á hátindi sinnar lítilmennsku. Hæstv. forseti þessarar deildar sagði, að þessar ræður mínar kæmu ekki málinu við. Við höfum ágætan forseta, og þetta getur verið alveg satt, sem hann segir, en ég vil taka það fram, að það er ómögulegt að komast hjá því að fara út fyrir dagskrá, þegar önnur eins vesalmenni hafa framsögu og hér er og eru með þá illkvittni, sem ómögulegt er að ganga framhjá.

Ef svo skyldi vera, að ég hafi verið eitthvað skapverri en ég á vanda til eftir að ég kom heiman aftur, þá þurfti það ekki að vera af öðru en heilagri vandlætingu yfir allri sviksemi hv. þm. V.-Húnv., er hann hefir sýnt í þeim málum, þar sem við höfum unnið saman.

Ég sé, að hv. 1. þm. Rang. er farinn, en ég bið hv. þingbræður mína að skila því til hans, að ég veit engin dæmi þess, að nokkrum manni hafi dugað að skipa mér eftir sínu höfði, þótt hann ætlaði að gera það í sinni ræðu. En til hv. þm. V.-Húnv. vil ég mæla það að lokum, að hafa skal holl ráð, en hafna ekki, og vona ég, að hann taki nú til einhverra annara raka en þeirrar illkvittni, að bregða mönnum um skapbresti, þótt þeir fari heim í héruð sín í þeim erindum, sem ég fór. Slíkt og annað eins gera ekki nema hin verstu lítilmenni.