28.03.1930
Neðri deild: 65. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Jónsson:

Ég hafði hugsað mér að ræða dálítið um skólamál við hæstv. dómsmrh., en með því að menn virðast hafa hug á allt öðru núna, þá mun ég fella niður mörg atriði, sem ég hefði þurft að tala um nánar, en stikla á helztu atriðunum.

Eitt af því, sem hæstv. dómsmrh. var að tala um, var Esju-útgerðin. Það var á ræðu hans að skilja, að þegar hann hefði skrifað grein sína forðum, um að Eimskipafélagið væri látið taka að sér útgerð strandferðaskipanna, þá hefði hann ekki rent grun í, hverslags menn það yrðu, sem hefðu stj. Eimskipafélagsins með höndum. En nú, þegar hann hefir uppgötvað, að um pólitíska andstæðinga væri að ræða, þá virðist hann snúa við blaðinu, og vill nú endilega láta ríkið taka úthaldið í sínar hendur. Þetta er vitaskuld í ágætu samræmi við hina alkunnu hlutdrægni þessa manns, að trúa andstæðingum sínum ekki fyrir neinu. Þess vegna var þetta starf af þeim tekið, til þess að geta holað þar niður einhverjum gæðing sínum.

Það er eitt atriði, sem hæstv. ráðh. drap á áðan í þessu sambandi, og ég vil hér með leiðrétta. Hæstv. ráðh. sagði, að hv. 3. landsk. hefði verið á móti strandferðum, og þegar Esja hefði verið byggð, þá hefði hann viljað hafa skipið eintóma lest, en með engu farþegarúmi. Þetta er nú vitaskuld rangfærsla, svo sem vænta má, en eftir því, sem ég man bezt, þá vildu allmargir, að Esja væri útbúin þannig, að það mætti með tiltölulega lítilli fyrirhöfn breyta henni til vöruflutninga í viðlögum. Slík tilhögun er algeng, t. d. í Atlantshafsskipum. Þau eru þá notuð til vöruflutninga eftir hentugleikum, en þess á milli eru svo sett í þau skilrúm og skipið hreinsað og fágað og gert hið vistlegasta að öllum útbúnaði. Nú voru það margir, sem vildu hafa þessa tilhögun á strandferðaskipinu, sérstaklega með hliðsjón af því, að strandferðir bera sig jafnan illa og í því tilfelli gæti verið gott að hafa skipið einnig tilbúið í aðra notkun. Nú var þó hnigið að því ráði að byggja Esju svona, eins og hún er, og mun það hafa verið Klemens Jónsson, sem tók á sig þá áhættu og ábyrgð að byggja hana þannig, að ekki væri hægt að nota hana í annað í viðlögum, svo sem til millilandaferða, í vöruflutninga og þvíl. Vegna þess að hnigið var að þessu ráði, verður að binda skipið við hafnarbakkann, ef ekki er þörf fyrir það til strandferðanna um stundarsakir. Það er þess vegna mjög langt frá því, að hv. 3. landsk. og þeir, sem honum fylgja í þessu máli, hafi verið mótfallnir góðum strandferðum. Slík fullyrðing er algerlega út í loftið. En hvað sem um það er, þá skiptir það engu máli í þessu sambandi. Hitt er aðalatriðið, að komast að raun um, hvort útgerð Esju hafi farizt Eimskipafélaginu vel úr hendi eða illa, og hvort félagið hafi tekið of mikið fyrir sitt starf. Um þetta eru engar uppplýsingar fyrir hendi, enda veit hæstv. ráðh. það ósköp vel, að þetta er einungis gert til þess að útvega nokkrum mönnum atvinnu; það er ástæðan, en önnur ekki.

Líkt er að segja um veitingu útvarpsstjórastöðunnar. Hæstv. ráðh. veit það vel, að Jónas Þorbergsson hefir einn kost. Hann er duglegur pólitískur ritstjóri, duglegur að verja slíkan málstað sem Tímans, en að hann þekki sérstaklega þjóðlífið, eins og hæstv. ráðh. segir, er bara bláber firra út í loftið. Hann hefir notað gáfur sínar illa og alveg ólíkt því, sem útvarpsstjóri á að gera. Hann hefir unnið í þjónustu þess ráðh., sem jafnan hefir reynzt örðugur viðskiptis, þegar um mál sveitanna er að ræða, samanber raforkuveiturnar. Hann hefir þess vegna ekkert sýnt, sem sanni umhyggju hans og skilning fyrir sveitum landsins, nema síður sé.

Hæstv. ráðh. sýndi mér þann heiður að svara mér með tveim ræðum. Ég hefi því skotið inn í punktana ýmsu af því, sem hv. 2. þm. Reykv. beindi til mín í ræðu sinni. Hann sýndi mér þann heiður að gera eldhúsdag að mér, en slíkt þykir jafnan upphefð mikil. En sumt af því, sem hv. þm. sagði, er þess eðlis, að ég hlýt að taka það til frekari athugunar, til þess að sýna, að hv. þm. fór með órökstutt, mjög illviljað fleipur í minn garð.

Eins og kunnugt er, hafa orðið ýmsar greinir milli okkar undanfarið út af því, að hann hefir reynt að klína því á mig, að ég reyni að nota trúmál í sambandi við kosningar. Upphaf þessa máls er það, að ég þýddi fyrir nokkrum árum grein úr erlendu jafnaðarmannablaði um afstöðu kommúnista til kirkjunnar. Út af þessu æstust sócíalistarnir mjög, og töldu grein mína róg og uppspuna. Ég vil þá benda þeim á, hvaðan sá rógur og uppspuni er runninn. Grein mín var þýdd úr „Socialdemokraten“ í Kaupmannahöfn, sem er blað danskra jafnaðarmanna, svo að ætla mætti, að jafnaðarmenn hér gerðust ekki fyrstir til að rengja greinina. En þeir hafa aldrei getað gleymt þessu, og lagt hina mestu fæð á mig fyrir þá sök. Vitaskuld stafar þetta mest af því, að ég hefi jafnan verið í kjöri hér í bæ, og þá hefir mínum andstæðingum þótt mikils um vert að geta einhvernveginn klínt á mig einhverjum ósóma, og það hefir þeim sennilega tekizt í hugum margra fylgismanna þeirra. Ég er hér hataður af fjölda manna, sem ég ekkert þekki og ekkert hefi gert á hluta þeirra, hvorki fyrr né síðar. Þess er aldrei getið, þegar ég hefi fylgt ýmsum mannúðar- og umbótamálum þeirra hér á Alþingi; yfir því er vendilega þagað, því að allt veltur á að geta nuddað á mig einhverri ófrægð.

Hv. þm. talaði um, hversu ranglát veiting prófessorsembættisins í guðfræði hefði verið, og veiting dócentsembættisins forðum. Hvað hið síðarnefnda snertir, þá var það veitt eftir samkeppni, svo að hægt er að sanna, að það hafi verið réttilega veitt. Um allar aðrar embættaveitingar má segja, að þær séu pólitískar eða hlutdrægar, en um þessa veitingu verður þetta ekki sagt með neinum rökum. Hv. þm. gekk jafnvel svo langt að staðhæfa, að ég hefði notað embættisaðstöðu mína til þess að svívirða andstæðingana. Mér er nú að vísu ekki vel ljóst, hvað hv. þm. eiginlega á við með þessari svívirðilegu aðdróttun, nema ef væri það, að ég notaði kennslustundir mínar í guðfræðideildinni til þess að agitera í stúdentunum. Mín embættisaðstaða er slík, að þetta eitt væri hugsanlegt, en ekkert annað. Nú mælir stjórnarskráin svo fyrir, að engum embættismanni megi meina setu á Alþingi, og þá um leið að embættismenn megi vera pólitískir. Nú er því svo varið með mig, að ég hlýt að hafa mínar pólitísku skoðanir, þar sem ég sit á Alþingi; enginn getur meinað mér það. En að ég hafi nokkru sinni á nokkurn hátt notað embættisaðstöðu mína í pólitískum tilgangi, því vil ég leyfa mér að neita afdráttarlaust, og ég vil biðja flokksbræður hv. þm. að skila því til hans, að þetta séu helber, vísvitandi ósannindi, sem hann er alls enginn maður til þess að standa við. Ég vil um þessa hluti vitna til stúdentanna, sem ég hefi undir hendi, og hv. 2. þm. Reykv. skal standa frammi fyrir þingheimi öllum og þjóðinni sem opinber ósannindamaður, opinberlega staðinn að einu því svívirðilegasta athæfi, sem hent getur einungis lélega innrætta, rökþrota og drengskaparlausa menn. Ég er sannfærður um, að hvorki hv. þm. né nokkrum muni takast að benda á eitt einasta dæmi þess, að ég hafi notað aðstöðu mína sem prófessor í guðfræði til þess að hafa áhrif á pólitískar skoðanir prestaefnanna. Ég hefi heldur ekki hugmynd um skoðanir þeirra. Meira að segja fræddi hæstv. forsrh. mig um það um daginn í einkaviðtali, að það myndu vera allir á móti mér í guðfræðideild nema einn, og má það vel vera rétt. Þótt margt sé skrafað í tímunum, þá hefir pólitík aldrei borið á góma, en hitt hefi ég sagt þeim stúdentunum, að þeir ættu að vera radikalir, því að nógur tími væri til þess fyrir þá að verða konservatívir. Mér hefir alltaf fundizt fara vel á því, að stúdentar væru radikalir, og þá skoðun hefi ég látið í ljósi við þá, ef svo hefir borið undir. Ég veit ekki, hvort slíkt getur kallazt misnotkun á embættisaðstöðu, en að minnsta kosti ekki á þann veg, sem hv. 2. þm. Reykv. heldur fram. Nei, í þessum efnum veit ég mig hreinan. Annars held ég að slíkar aðdróttanir séu beinlínis sprottnar af bjánaskap, og nái því ekki upp í það, að vera sprottnar af illvilja. Þó getur um hvorttveggja verið að ræða hjá þessum hv. þm., og hvað heimskuna snertir, þá er hún á sumum sviðum jafnvel á enn hærra stigi en illgirnin, því að gáfnafari þessa manns er nú einu sinni svo farið, að enda þótt hann sé sæmilega greindur að sumu leyti, þá er hann á aðra röndina alveg óttalega heimskur. (ÓTh: Líkt og Jónas). Þessi sami hv. þm. lét sér ennfremur sæma að ráðast á samkennara minn, Ásmund dócent Guðmundsson, fyrir þingsetningarræðu hans, eða ummæli hennar nokkur. Vill hann út frá því láta setja censur á prédikanir við þingsetningar framvegis. Nú vita það allir, sem hlustuðu á ræðuna, að hún var algerlega ópólitísk, en hitt var annað mál, að þegar ræðumaður talaði um t. d. réttlæti, þá varð mönnum ósjálfrátt á að skjóta augunum til hæstv. dómsmrh., enda þótt alls ekki bæri að taka ummæli prédikarans sem pillu til hans, sem þó margir gerðu. Sama var um sócíalistana að segja, þegar prédikarinn beindi þeirri áskorun til þeirra, að þeir létu ekki stefnu sína komast í andstöðu við kirkju og kristindóm. Nú vita það allir, að jafnaðarmenn eru víðast andvígir kirkju og kristinhaldi, og sérstaklega sumar greinar þeirra, svo sem kommúnistar, beinlínis fjandsamlegir í garð kirkjunnar. Þess sama hefir oft orðið vart hér í allríkum mæli. T. d. var ég einu sinni í skólanefnd með Ólafi Friðrikssyni og Hallbirni Halldórssyni, og varð ég þar mjög greinilega var þessarar andúðar í kirkjunnar garð. Þeir vildu t. d. ekki láta kenna neina kristinfræði í skólanum. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að reyna að bera á móti þessu, og því ekki að koma til dyranna eins og hann er klæddur? Og hvað er þá eðlilegra en að kirkjan aðvari þennan flokk gegn því að hneigjast til alveg ástæðulausrar andstöðu gegn henni? En svo heimta þeir bara ritskoðun, sem annars þykjast þó alltaf vera með skoðanafrelsi og móti ritskoðun. Þeir vilja setja mig af embætti fyrir það, að ég hefi skoðun í stjórnmálum. Þetta eru hinir miklu brautryðjendur skoðanafrelsisins í heiminum. Af þess öllu má nú sjá, hversu óheilir menn þetta eru í raun og veru og hve mjög þeir skrökva um innræti sitt og villa á sér heimildir. Þetta eru í rauninni grímuklæddir harðstjórar. Þeir heimta frelsi meðan þeir eru í minni hluta, en jafnskjótt sem þeim vex fiskur um hrygg, gerast þeir böðlar og kúgarar þeirra, er minna mega sín.

Hv. þm. sagði meðal annars, að ég hefði sagt í ræðu minni, að Pálmi Hannesson væri illa þokkaður í skólanum. Þetta eru hrein og bein ósannindi. Ég sagði einungis, að það væri mikil óregla í skólanum, en um Pálma sagði ég það, að hann væri víst fremur vinsæll, eftir atvikum.

Þá kem ég að síðari ræðu hæstv. dómsmrh., og það var nú svo sem aðalræðan. Ég verð að fara fljótt yfir sögu. Það er svo ákaflega margt, sem ég hefi skrifað eftir honum, að ég yrði ekki búinn fyrr en löngu hinumegin við hátíðir, ef ég ætlaði að svara hverju fyrir sig.

Hæstv. ráðh. er í tvennskonar ham. Stundum er hann léttur og gamansamur og leikur við hvern sinn fingur. En stundum er hann aftur á móti blár og bólginn og afskaplega dólgslegur og hellir úr sér óbótaskömmum. Í ræðu sinni nú var hann alveg eins og kría á steini. Hann fór t. d. að tala um áfengisverzlunina og sagði, að Íhaldið hefði stjórnað henni í 6 ár, en það lifði nú reyndar ekki nema 4 ár. Það hefir því stjórnað henni annaðhvort í tvö ár fyrir fæðingu sína eða eftir dauða sinn, og kalla ég það vel gert.

Yfirleitt var hæstv. ráðh. afar montinn í ræðu sinni og var alltaf að hrósa sér. Hann sagði, að þrátt fyrir íhaldsmeirihlutann hér í Reykjavík, hefði hann fengið lögregluna bætta. Hann veit þó, að hann hefir ekkert haft um það að segja. Það var bæjarstjórnin hér, sem ákvað að fjölga lögregluþjónunum, og það er bærinn, sem kostar það. Það eina, sem hæstv. ráðh. á kannske þátt í, er það, að lögreglustjórinn fór að blanda sér í stjórnmál til mikils skaða. Sumir hafa og sagt mér, að ástæðan til þess að þeir vildu fjölga lögregluþjónum, hafi verið fullyrðing lögreglustjórans um það, að hann vildi gefa sig óskiptan að þessu starfi. En svo kastar hann sér út í pólitík og vekur úlfúð utan um persónu sína, sem er afskaplega hættulegt. Hæstv. dómsmrh. hefir því gert illt eitt í þessu, ef hann hefir fengið lögreglustjóra til þess.

Hæstv. ráðh. kallaði hv. þm. Borgf. aurasál. Þetta er dálítið einkennilegt, því að rétt í sömu andránni var hæstv. forsrh. að tala um, að hv. þm. Borgf. væri ekki jafnfastur í rásinni eins og hann hefði verið um sparnað.

Annars er gaman að því með þennan hæstv. ráðh., að hann talar svo oft um lífsskoðanir. Það má ekki greina á milli nokkurs, án þess að það séu mismunandi lífsskoðanir. Ef einn er í ljósum fötum en annar í dökkum, þá eru það ólíkar lífsskoðanir.

Hæstv. ráðh. talaði um mismunandi lífsskoðanir hjá mér og sér um Þingvelli. Ég væri að áfellast, að þar væri byggður dýr bær, lagðir vegir og reistar brýr og flutt til hús og annað þessháttar. Hvað sem lífsskoðunum líður, þá snertir þetta mig alls ekki, því að ég nefndi þetta ekki á nafn. En ég talaði um, að það væri órétt að skrifa þann kostnað, sem leiddi af þessu, á kostnað við undirbúning alþingishátíðarinnar.

Ef talað er um þessar mismunandi lífsskoðanir, þá fannst mér þær koma fram milli hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Borgf., þegar hæstv. ráðh. var að lýsa skoðunum þeirra á fjármálunum. Við skulum taka dæmi þessu til skýringar. Það eru margir bjargálnamenn, sem hafa haft sig upp úr fátækt með sparsemi, eins og t. d. margir íslenzkir bændur. Þegar aftur á móti sonurinn kemst upp, byrjar hann á siglingum og allskonar eyðslu. Hann eyðir kannske meira í sígarettur heldur en öll fjölskyldan í mat. Þarna eru tvær mismunandi lífsskoðanir, annarsvegar bústólpinn og hinsvegar landeyðan, sem standa hvor á móti öðrum, alveg eins og þessir tveir aðiljar stóðu hvor gagnvart öðrum, hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Borgf. Ég skal að vísu viðurkenna, að ég er oft ekki sammála hv. þm. Borgf.; mér finnst hann oft helzt til fastheldinn á fé ríkissjóðs, en ég lasta hann ekki fyrir það. Hann veit, að hann er að fara með annara fé. Hann veit, að þjóð okkar er eins og fátæki maðurinn, sem kemst í bjargálnir, og að hún hefir ekki efni á því að lifa eins og landeyðan, sem kastar út fé á báða bóga og heldur, að hann sé greifi. Það var einu sinni síður að kalla slíka menn greifana af Montblanc, og ég ann hæstv. dómsmrh. þess vel að vera greifinn af Montblanc í íslenzkri pólitík. Hann segir: Ég ætla bara að hafa meira um mig, ég ætla að kaupa fleiri bíla og senda fleiri menn til útlanda. En hv. þm. Borgf. vill spara eyrinn, til þess að tapa ekki krónunni.

Nei, hæstv. ráðh. getur náttúrlega buslað áfram með þessa eyðslu sína svo og svo lengi, en þessi aðferð kemur til með að verða erfið, ef svona á að fara með landsfé. Hvaða sönnun er það, þótt stór félög, eins og t. d. Kveldúlfur, hafi bíla? Þar er þessi stóri munur, að maður er að fara með sitt eigið fé. En hæstv. ráðh. þarf ekki annað en fara að eins og landeyðan í útlöndum, að sóa fé föður síns. Hann þarf ekki að vera að spara fé fátækra landsmanna.

Þá kom hæstv. ráðh. að embættaveitingum og flutti afarlanga heimspeki um þær. Hann sagði, að ég setti upp þá reglu, að taka alltaf elzta manninn, en hann hefði þá reglu, að taka alltaf bezta manninn. Ég verð þá víst að fara dálítið út í heimspeki líka. Mér fannst ég sjá þarna ágætt dæmi, þess, hvernig ofstækismenn verða til. Ég er nú alveg laus við ofstæki sjálfur. Ég segi mér það ekki til hróss, því að stundum hálf öfunda ég þessa ofstækismenn. Þeir sjá ekki nema annan málstaðinn og verða því oft nokkuð kröftugir. Þeir loka augunum algerlega fyrir öðrum málstaðnum og búa til skrípamynd af því, sem andstæðingarnir segja. Ef hæstv. ráðh. er sannfærður um, að hann vilji alltaf fá bezta manninn og við alltaf elzta manninn, þá er ekki furða, þótt hann haldi, að hann hafi alltaf á réttu að standa.

Okkar aðferð er sú, að reyna að ráða þetta sem mest af verkum mannsins sjálfs. Af því leiðir það, að embættisaldur er alltaf talsvert mikils metinn. En auðvitað hefir það aldrei verið regla, að embættisaldurinn einn ætti að ráða. Það kann að hafa verið á kancellitímunum. En við viljum leitast við að láta verk mannsins ráða og fá þannig bezta manninn. Hæstv. ráðh. er ófáanlegur til þess. Hann vill seilast út og taka nýtt blóð. Hann fór að vitna í Napóleon, sem hefði gert skraddara og skómakara að hershöfðingjum og tekizt vel. Það eitt var Napóleon reyndar ekki nóg, að um nýtt blóð væri að ræða. En ef hann var búinn að sjá að þessi skraddari eða skómakari var meistari í því að stjórna her, þá gerði hann hann að hershöfðingja.

Þessi regla hæstv. ráðh., að halda, að hann þurfi ekki annað en sýna fram á, að eitthvað sé gamalt, til að sanna, að það sé vont, og sýna fram á, að eitthvað sé nýtt og því sé það gott, þessi „fílósófí“ nær auðvitað engri átt. En úr því að hæstv. ráðh. gengur með þessa flugu, að hann sé að feta í fótspor Friðriks mikla og Napóleons, þá fer maður að skilja ýmislegt, sem hann gerir.

Það er ekki alveg víst, að hið nýja sé alltaf betra. Herbert Spencer sá fram á, að það væri ómögulegt annað en að sócíalisminn hlyti að koma, og bjóst hann jafnvel við, að hann myndi sigra. Hann sagði, að þetta væri afleiðing af vélunum og stóriðjufyrirkomulaginu. En hann var alveg jafnsannfærður um, að sócíalisminn yrði mannkyninu til mestu. bölvunar. Að eitthvað sé nýtt, í upprás og sé að vaxa, er því engin sönnun fyrir ágæti þess.

Hæstv. ráðh. fór að verja skipun skipherrans á Ægi. Það er dálítið gaman að sjá, að hann hefir ekki meira en svo trú á sinni eigin reglu. Honum var nú svo illa við skipherrana, sem fyrir voru, að ekki vildi hann velja þá. En svo segir hann: Ég valdi manninn, sem þá var næstur. Ef hann vildi fylgja reglu sinni átti hann að taka lægsta hásetann á varðbátnum Trausta. Og hvernig var farið að, þegar ráðh. og fylgismenn hans voru að velja ritstjóra að Tímanum? Því tóku þeir ekki alveg óreyndan mann? Nei, þeir tóku skipherrann á Degi og gerðu hann að skipherra á Tímanum. Þar reið á að standa fást í ístaðinu, og þess vegna fylgdu þeir þessari fornu reglu, að taka þann, sem lengst og bezt hafði að þessu starfað.

Hæstv. ráðh. sagði, að maðurinn hefði reynzt vel. O, jæja. Ranglæti var það nú samt að veita honum stöðuna. Enda mun hann ekki hafa reynzt neitt betur en aðrir, því að þetta dæmi, að Ægir hafi tekið fleiri skip heldur en Óðinn á sama tíma, það sannar ekkert. Hann kann að hafa falið sig fyrir togurunum, til þess að narra þá inn á víkur og taka þá svo. Það er eins og ef lögregluþjónn héldi, að maður ætlaði að brjótast inn, feldi sig og léti manninn byrja á innbrotinu til að hremma hann svo. Bezt er auðvitað að vera á vakki og reyna að afstýra brotum; en það getur orðið til þess að falla í ónáð hjá svona ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði, að Friðrik Ólafsson, sem mestum órétti var beittur, ætti að verða kennari við stýrimannaskólann. Ráðh. finnst það engu skipta, þótt Friðrik hafi átt heimtingu á að fá skipherrastöðuna á Ægi. Hann segir bara: Þú getur eins orðið kennari við stýrimannaskólann. —

Ég veit ekki, hvort ég ætti að minnast á veitingu læknisembættisins í Keflavík. Það er erfitt að komast hjá því, af því að það er mesta hitamál. Sérstaklega hefir það rifjazt upp, vegna þess að birt hefir verið í Tímanum skýrsla um þessa rannsókn, sem Þórði Eyjólfssyni var falin á hendur. Ég býst við, að hafi menn ekki vitað það áður, að hér var hégómamál á ferðinni, þá sjáist það af þessu plaggi, því að það er ekkert annað en kjaftaslúður. — Svo vildi ég yfirheyra þennan og hann sagðist hafa farið suður í Keflavík, og svo vildi ég yfirheyra þennan og svo fór ég suður í Keflavík og yfirheyrði hann. — Það var einu sinni sýslumaður, sem var mjög drykkfelldur, og þegar hann eitt sinn kom heim frá sakamálsrannsókn, tók hann allt heimilisfólkið fyrir rétt. Þegar svo rann af honum, vissi hann ekkeri hvað hann átti af sér að gera. En þessi dómsmrh. okkar er þeim mun forstokkaðri og vitlausari, að hann lætur prenta skýrslu um þetta í Tímanum, þegar runnið er af honum. (ÓTh: En er þá runnið af honum?). Nei, kannske það sé ekki.

En þessi rannsókn finnst mér sýna átakanlega, að hér er um hreina misbeitingu á valdi að ræða. Ég býst helzt við, þegar þingi er slitið, að ég og einhverjir flokksbræður mínir verðum settir undir sakamálsrannsókn. Ætli það hafi ekki horfið kindur einhversstaðar á landinu, og því mætti þá ekki setja mig undir sakamálsrannsókn? Bara það, að læknarnir voga sér að mynda stéttarfélag eins og verkamenn mynda með sér, til þess að verja hagsmuni sína, og þetta félag reynir að koma í veg fyrir ranglátar embættaveitingar; þá er skipaður konunglegur kommissarius til þess að rannsaka þetta mál.

Hæstv. ráðh. sagði, að íbúar í Keflavík hefðu ekki skorað á sig að veita Jónasi Kristjánssyni embættið, og engin rödd heyrzt um annað en að menn væru ánægðir með Sigvalda Kaldalóns. Ég las þó í einu blaðinu, að borgarafundur hefði verið baldinn þar, bæði til þess að mótmæla því, að læknirinn væri fluttur til Grindavíkur, og ennfremur var samþ. að vita alla meðferð dómsmrh. á þessu máli. Ég veit ekki, hvað hann vill fá þetta skýrara fram. Hann vill kannske fá þá til að sparka í sig, ef þetta dugar ekki.

Annars er það sannast að segja, að veitingu læknisembætta er allra sízt hægt að fela fólkinu. Starf læknanna er alls ekki ljóst almenningi. Það getur verið ágætur læknir, sem fyrst fær tvo sjúklinga, sem batnar ekki, en skussinn getur byrjað starf sitt á því, að þeim sjúklingum batnar, sem hann er sóttur til, en fólkið dæmir eftir útkomunni. Það er þó skárra um kosningu á presti. Hann getur komið og látið heyra í sér röddina. En það er nálega ómögulegt fyrir lækninn að sýna fólkinu í fljótu bragði sína réttu hlið.

Langlengsti partur ræðu hæstv. ráðh var um skólana: Hann finnur, að með veitingu rektorsembættisins hefir hann framið það hermdarverk, sem hann rís ekki undir. Og til þess að reyna að bjarga sér, fer hann að rægja þessa gömlu stofnun. Það er hart að heyra kennslumálaráðh. lesa upp úr gömlum prótókollum til þess að rægja skólann. Hann hafði aðeins eina vörn, sem ég hafði sagt, að hann yrði að koma með, að það þyrfti að fá nýtt blóð í skólann. Þarna er þá komið á fastan grundvöll. Setningin er miðuð við það, að kennarar skólans hafi að vísu verið góðir, en þeir hafi viljað halda skólanum á sama grundvelli og áður.

Hæstv. ráðh. vildi sanna, að gamli skólinn hefði verið ómögulegur, og las upp úr gömlu Kirkjublaði lýsingu fyrrv. lærisveins á skólanum, sem sagðist hafa haft mest gagn af því, sem hann las hjá sjálfum sér. Nú veit hæstv. ráðh., að menn læra mest í skólum af því, sem þeir lesa af sjálfsdáðum. Menn halda, að hægt sé að troða lærdómnum í nemendurna, en reynslan er sú, að menn læra aðeins það, sem þeir sjálfir vilja.

Hæstv. dómsmrh. las upp úr prótókollum skólans. Þeir sýna það, að einstöku piltar voru áminntir- og sumir reknir. Hæstv. ráðh. hefði átt að sanna sitt mál með því að sýna, að framkoma piltanna hefði verið þannig, að þeir hefðu verið áminntir án saka. En upplestur hæstv. ráðh. sýndi ekki annað en að t. d. Héðinn Valdimarsson og Ólafur Jensen voru áminntir vegna þess, að þeir höfðu unnið til þess. Eða þegar piltar voru að strá eldspýtum. Hæstv. ráðh. vill ekki láta reka þá úr skóla fyrir það. Slík refsing var líka mjög sjaldgæf þangað til árið 1903. Það ár er alveg sérstakt í sögu skólans.

Það er dálítið kátlegt að heyra það frá uppeldisfræðingi, að ekki megi beita aga í skóla, ef piltar tækju upp á því að brúka munn við skólastjórann eða hlýða ekki skólareglugerðinni og sækja ekki tíma o. s. frv. Þar sem á að uppfræða menn en ekki aga, stöðvast uppfræðslan fljótt.

Ég kannast ósköp vel við dæmið frá 1903, þegar Þorgrímur Kristjánsson var rekinn úr skóla. Ég stóð nærri honum, þegar hann rak upp skjáina á Björn M. Ólsen og sagðist aldrei hafa vitað skóla stjórnað með öðrum eins óforskömmugheitum sem þessum. Veit hæstv. ráðh., hvað eldspýtnadreifing er? Veit hann, hvað það er að mega ekki hreyfa sig úr stað, nema af því hljótist brak og brestir? Og það var ekkert, sem braut eins niður taugakerfi Björns M. Ólsens sem þessi eldspýtnadreifing.

Það má ekki taka veturinn 1903 sem dæmi. Hann er alveg einstakur. Þá var hrein uppreist (Revolution) í skólanum.

Piltarnir í skólanum voru úr öllum flokkum, bæði heimastjórnarmenn og sjálfstæðismenn. Björn M. Ólsen hafði þá skoðun, að þeir, sem höfðu skarpasta skoðun í stjórnmálum, væru höfuðpaurarnir í öllum óspektum í skólanum og vildi þá reka þá úr skóla, svo að hægara yrði að hemja hina. Hann hafði ekki lag á að stjórna skólanum. Það er ekki nein gömul aðferð við stjórn skólans, sem hér kom til greina, heldur var mislukkaður maður í þessu starfi. Uppreist piltanna í skólanum 1903–04 stefndi því að því ákveðna marki að koma honum frá skólanum. Þetta voru hlýðnir og auðsveipir menn, en þeir höfðu sett sér það mark að flæma hann frá skólanum. Enginn þessara manna hefði leyft sér að gera ýmislegt það í tíma hjá Ólsen, sem nú er algengt að menn leyfa sér. Vegna þessa varð Ólsen að fara frá, þótt skólinn væri að öðru leyti í mjög góðu lagi. Það hafa margir sagt. Kennarar voru ekki jafngóðir allir, en yfirleitt útskrifaði skólinn sæg af vel menntuðum mönnum til háskólanáms. Það er því óþolandi, þegar hæstv. ráðh. er alltaf að reyna að níða þessa stofnun niður. Reykjavíkurskóli hefir alltaf verið álitinn einhver bezti skólinn á Norðurlöndum. Það var litið svo á við háskólann í Kaupmannahöfn, að 2. eink. frá Reykjavíkurskóla væri eins góð og 1. eink. frá dönskum skólum. Nú vill hæstv. ráðh. veita Pálma Hannessyni rektors-embættið við þennan skóla.

Þá vildi hæstv. ráðh. sýna, hversu ómögulegur skólinn væri vegna skrópvottorðanna frá 1903. Þessi vottorð voru þá alveg ný. Áður þurfti alltaf læknisvottorð. Mætti segja margar sögur í sambandi við það, t. d. af manninum, sem kom að finna lækninn, en hann var þá ekki heima, svo að hann fann konuna hans og bað hana um vottorð. Konan spurði þá, hvort ekki væri að honum höfuðverkur, en pilturinn spurði, hvort það mætti ekki eins vera magapína, og varð það að samkomulagi. Það var því í anda hins nýja tíma, þegar það var ákveðið 1903, að nóg væri, að húsráðandi skrifaði vottorðið. Það var þá tekið trúanlegt. Hvernig fór það? Piltarnir misnotuðu þetta, eins og hæstv. ráðh. sagði. Þeir sýndu, að þetta var ekki rétt aðferð. Unglingar frá fermingu til tvítugsaldurs eiga bágt með að beygja sig undir aga. Það, sem þeir heimta, er réttlæti. Ef rétt er farið að þeim, þola þeir mikinn aga. Björn Jenson var t. d. strangur kennari á vissan hátt. Ég kom t. d. einu sinni of seint í lestrartíma. — Það var ekki kennslustund. — Ég fékk undir eins nótu. Við þessu var ekkert að segja. Ég vissi, að ég hafði komið of seint, og þegar hann refsaði, var það fyrir brot. Héðinn Valdimarsson og Ólafur Jensen hafa líka fundið, að þeir höfðu brotið. (ÓTh: O, ekki mikið). Ef þeir eru ekki skammaðir, þá fá þeir fyrirlitningu á kennurum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri einhver lífsþráður skorinn í sundur, ef einhver piltur fengi 1 í stærðfræði. Hæstv. ráðh. heldur, að ef svo fer, að einhver fær l í einhverri námsgrein, þá komist hann ekki upp úr bekknum, hversu góðar einkunnir sem hann hefði í öðrum námsgreinum. Þetta þýðir það, að hann geti ekkert í einni námsgrein og hafi gersamlega vanrækt hana. Annars var skýrslan, sem hæstv. ráðh. las upp, röng. Pilturinn fékk ekki 1. Hæstv. ráðh. hefir sjálfsagt ekki vitað það, að hann fékk 3 einkunnir: 3, 12/3 og 11/3. Í staðinn fyrir að fá ÷ 23 fékk hann þá ekki nema ÷ 9. Þetta varð til þess, að hann fékk ekki nógu háa einkunn við gagnfræðapróf til þess að komast í lærdómsdeild skólans, þótt hann stæðist gagnfræðapróf. Og þótt enginn ráðh. hefði verið til þess að hjálpa honum, hefði hann getað haldið áfram og lesið utanskóla. Þarf ég ekki að fara frekar út í það. Það hefir hv. 1. þm. Skagf. gert. En mikið má sá ráðh. skammast sín, sem hælir sér af því að hafa tengt saman lífsþráð eins manns, en lokar skólanum fyrir fjölda manna, sem langar til að komast þangað. En á sama tíma koma borgarar Reykjavíkur upp góðum skóla og bjarga þar. með öllum þessum lífsþráðum. Hæstv. ráðh. miklast hér yfir einum manni, sem hann hefir bjargað og ætlast til þess að maður fari að standa á öndinni af því. Ég vil segja hæstv. ráðh., að einstakt dæmi sannar ekkert.

Það, sem hæstv. ráðh. las upp, var frá árinu 1903. Þá var hrein uppreisn í skólanum. En dæmin sýna, að skólinn var góður og vel var haldið uppi aga. Þeir fengu lof, sem hegðuðu sér vel, last þeir, sem hegðuðu sér illa. Þá var ekki hægt að standa upp í hárinu á yfirboðurum sínum.

Ég skal ekki fara hér út í aðgerðir hæstv. dómsmrh. við skólann, t. d. vindsnældurnar og fatasnagana. Tíminn byrjaði að tala um þetta áður en þeir komu.

Þá er það fundur Íþöku. Ég vil leiðrétta það, að hæstv. ráðh. hafi fyrstur tekið eftir því, að hægt væri að gera meira úr þessu húsi en var. Fyrir þinginu 1919 lá till. og áætlun um það, hvernig megi gera við bókasafnið. Það var þó ekki gert þá, og má kannske kenna stj. um það. En hvað hefir hæstv. ráðh. nú geit? Hann hefir nú framið það hermdarverk að setja heimavist á loftið, svo að vel getur verið, að húsið fuðri upp einhvern góðan veðurdag. Þetta er óforsvaranlegt. Ég vildi að hægt væri að grafa upp gjafabréf þess góða manns og vita, hvort það er ekki bannað. Ég ætla þó ekki að vona, að húsið eigi eftir að brenna. Vil ekki vinna það til, þótt það yrði til þess að lækka nokkuð rostann í hæstv. ráðh. Þessu hælir hæstv. ráðh. sér af og heldur, að enginn hafi gert annað eins. Hvernig var með skíðin á Laugarvatni? Það er sagt að hingað hafi komið skautar og skíði til Laugarvatnsskóla, sem hæstv. fjármrh. vildi ekki innleysa, vegna þess að engin heimild var til þess í fjárl. Þessi sending lá hér lengi óinnleyst, vegna þess að kaupmaðurinn vildi ekki láta það af hendi nema það væri keypt út. En hvernig rættist úr þessu með skautana og skíðin? Ég skoða það meinbægni, að það skyldu ekki vera nógir peningar í ríkissjóði til þess að gefa skólanum skíði. Annars er það einkenni hæstv. dómsmrh., að ganga fram hjá kennarafundum, ef um afskipti af skólanum er að ræða. Nú er t. d. nýbúið að staðfesta reglugerð fyrir skólann, sem aldrei hefir verið borin undir kennarafund. Í stað þess skipaði rektor Menntaskólans nefnd til þess að gera hana, og var umsjónarmaður skólans (inspector scholae) formaður hennar. Þegar þessi reglugerð kom, voru svo allir óánægðir með hana nema nefndin, sem hafði gert hana. Ungir menn eiga bágt með að koma sér saman sjálfir. Allt verður að koma ofanfrá.

Hæstv. ráðh. þykast hafa valið bezta manninn, sem völ var á, og nú er rétt að athuga, hvernig þetta nýja blóð verkar. Ég gat þess reyndar í fyrstu ræðu minni, en með því að ég sé, að hæstv. ráðh. hefir ekki látið sér skipast, verð ég að taka það til athugunar aftur.

Ég ætla fyrst að taka það dæmi, sem hæstv. ráðh. gat um sjálfur. Það er um Guðmund Bárðarson náttúrufræðing. Mig minnir, að það væri í 6. bekk C., sem Guðmundur Bárðarson vildi láta nemendurna gera ritgerð. Þeim þótti efnið of þungt og vildu ekki gera hana. Þeir fengu þá frest, og skiluðu þá loks allir vélrituðu eintaki, og var það ekki nema nokkrar línur og það vitleysa, sem þar var. Fólk með hinum nýja anda vill enga kennslu hafa hjá honum, og hefir engin kennsla farið fram hjá honum síðan. Ég verð að segja, að það er primitívur skóli, þar sem ekki er hægt að kenna það, sem segir í reglugerð. Þegar leitað var til rektors, skiptir hann sér ekkert af þessu. Svo var annar kennari fenginn til þess að kenna náttúrufræði í þessum bekk. Svona er heilnæmt í hinum nýja anda.

Þá er annað dæmi. Það sagði mér maður nýlega, að hann hefði komið inn, þar sem verið var að sýna skólamynd í Nýja-Bío, og voru nemendur Menntaskólans einnig þar saman komnir. Meðal annars sást þar á myndinni pálmasunnudagur í Palestinu. Varð af þessu ógurlegur hlátur í salnum. Það er nefnilega sérstakur pálmasunnudagur hér á Íslandi, og hann er þannig til kominn, að til þess að koma af fjarvistum við skólann, leyfði rektor, að sá bekkur, sem minnstar fjarvistir hefði, skyldi hafa einn dag frían á mánuði. Var hann skírður pálmasunnudagur. Eftir nokkurn tíma var svo úrskurðað, að 6. bekkur C. skyldi fá frí í 1 dag. En þá urðu aðrir bekkir reiðir og sögðu, að þetta væri rangur úrskurður. Einn bekkur sagði t. d.: Hjá okkur hefir einn maður verið svo lengi veikur, að við þess vegna höfum svo marga fjarvistardaga, en annars skrópum við minna en aðrir bekkir. Og fyrst að við ekki fáum leyfið með góðu, þá tökum við það sjálfir. Og svo byrjaði 6. bekkur B. og tók sér sjálfur frí. Gerði rektor ekkert við því. Næst tók 6. bekkur A. sér frí. Þá keypti rektor bíla og keyrði um bæinn til þess að safna nemendunum saman í tíma. Ég hefi heyrt sagt, að einn nemendanna hafi tekið upp cígarettu og boðið rektor, og að hann hafi þegið hana. Mér finnst þetta sýna, að nemendur beri alls enga virðingu fyrir honum, þótt kannske sé hægt að segja, að hann sé ekki illa látinn. Ég hefi heyrt sagt, að þessir 2 bekkir hafi ekki einu sinni beðið afsökunar. Þeir hafi kannast við brot sitt og lofað að gera það ekki aftur, nema brýna nauðsyn bæri til.

Þessi tvö dæmi sýna, að ekki er um neina refsingu að ræða þótt nemendur gangi úr tíma. Ef sæmileg stjórn væri á skólanum, hefðu nemendum verið settir 2 kostir, annaðhvort að fara úr skóla, eða vera góðir. Nemendur verða að finna, að þeir verði að láta í minnipokann fyrir stjórn skólans. Áður var það skólafundur, sem ákvað nemendum hegningu. Nú átti að koma á nokkurskonar gerðardómstól, þar sem væri jafnmargir kennarar og nemendur, 2 af hvorum. Skólapiltar gátu ekki sætt sig við það og heimtuðu, að það væru 4 skólapiltar, en engir kennarar.

Þá hefi ég áreiðanlegar upplýsingar fyrir því, að óregla er svo mikil í skólanum, að stundum er alls ekki hægt að kenna. Þá getur það komið fyrir, að þótt kennarinn sé kominn inn í bekkinn, og þar sé alveg kyrrt, sé svo mikil ólæti fram á ganginum, að enginn heyri til kennarans. Það er því allt stjórnlaust og vitlaust í skólanum. Þetta er nú nýi andinn í skólanum.

Þá hefi ég áður getið um trúarjátninguna í skólablaðinu. Þetta blað, eins og það er skrifað, er alveg nóg til að sýna, að allt keyrir um þvert bak í skólanum. Hugsa sér t. d. skóla, sem kallar hæstv. dómsmrh. „Nasa“ í blaði sínu. Eða hvað á að segja um blað, sem flytur annað eins og þetta:

„Ég Pálmi frá Skíðastöðum leita hér með hófanna hjá þér Nasi, hvort þú ætlir ekki að gera mig að rectori, eins og þú lofaðir mér í fyrra“.

Eða þá þetta :

„Þú klepptæki Jónas! Ég Durgur Durgsson leyfi mér að krefjast þess, að þú gerir mig þegar í stað að rectori Menntaskólans“.

Ég er ekki að álasa námsfólki skólans fyrir þetta. Það er upp og ofan eins og gengur. En fólk á aldrinum 15–20 ára þarf styrka stjórn. Ólsen missti alveg stjórn á skólanum og Pálmi Hannesson hefir líka misst hana.

2. tbl. af skólablaðinu byrjar á því, að taka það allt aftur, sem stóð í því fyrra. Nær það þá ekki upp í nefið á sér fyrir að hafa gert kennara skólans svo grama. Þetta er náttúrlega græskulaust af nemendum. Sökin er öll hjá skólastjórninni, hjá nýja blóðinu, sem hæstv. ráðh. veitti inn í skólann. Hæstv. kennslumálaráðh. hefir þannig tekizt að gera það meistarastykki að eyðileggja svo að segja bezta skólann á landinu. Jafnvel þó að Pálmi væri svo drenglyndur að yfirgefa skólann nú, þá væri efamál, hvort komið yrði á hann góðu lagi aftur, vegna þessa frumhlaups hæstv. ráðh.

Mér þykir undarlegt, hvernig þessi maður talar um stjórnleysið í menntaskólanum, því mér er sagt, að hann hafi haldið uppi harðvítugum aga í sínum skóla, meðan hann var skólastjóri sjálfur. Ég held, að samvinnuskólapiltum hafi ekki verið leyfð eldspýtnadreifing eða að fara óvirðulegum orðum um skólastjóra sinn. Og allir vita, að hæstv. dómsmrh. er hinn mesti kúgari sem ráðh. Það er undarlegt, ef hann vill láta unglingana í menntaskólanum haga sér eins og þeim sýnist; á þá má ekki anda, þó fullorðnir menn megi varla snúa sér við fyrir hæstv. ráðh. Læknarnir mega t. d. ekki mynda félagsskap og verjast rangsleitni hans. Þá fá þeir á sig konunglega rannsókn.

Ég ætlaði að lokum að tala nokkuð langt mál um flokk hæstv. ráðh. og afstöðu hans þar. En nú er orðið svo áliðið, að ég verð líklega að sleppa því að mestu. Hæstv. ráðh. hélt svo skemmtilega ræðu um stofnun Sjálfstæðisflokksins, að það hefði verið gaman að gera hans flokki dálítil skil.

Það er ekki nema mjög eðlilegt, þó framsóknarmönnum sé illa við það, að Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn gerðu bandalag með sér og sameinuðust. Það er mjög eðlilegt, að framsóknarstj. sé ekki rótt, ef eitthvað er gert, sem dregið getur úr fylgi hennar, þegar hún hangir við völdin á ranglátri kjördæmaskipun og engu öðru. Eina von hennar um völd framvegis byggist á því, ef hún gæti með atkvæðamagni flokksmanna sinna hindrað, að réttmætari kjördæmaskipun komist á. En flokksmenn hennar eru nú ekki stöðugri en það í þingmannssætunum, að einir 200 kjósendur út um land gætu komið stjórnarstuðningsmönnum í algerðan minni hluta í þinginu.

Svo verður Framsókn líka að burðast með ýmsar byrðar, sem kjósendum er lítið gefið um. Sócíalistar styðja að vísu stj., en þeir kosta líka flokk hennar talsvert. Hv. þm. Ísaf. var að tala um, að Parísardömurnar létu stundum ófríðar konur fylgja sér, til þess mönnum litist betur á þær sjálfar. En það getur nú líka farið svo fyrir allra laglegustu stúlkum, að enginn vilji verða til að giftast þeim, vegna þess hvað tilvonandi tengdamamma er leiðinleg og ljót. Þó að ráðherrarnir gengju nú í fólkið, þá væri ekki óhugsandi að kjósendunum þætti sócíalistatengdamamman strembin.

Hv. þm. Ísaf. lýsti dálítið, hvað hæstv. dómsmrh. er undarlegur gripur í flokki sínum. Eiginlega,var hann að sýna fram á, að dómsmrh. væri ekki annað en sócíalisti, því hann var að tala um, að hann væri alltaf að koma fram með ágætismál, svo sem eignarnám, samlagsfrv. og annað sócíalistískt sælgæti, en svo kæmi ólukku litla Íhaldið, nefnilega Framsóknarbændurnir, og dræpu frv. eða sniðu af þeim kostina.

Marga krossa verður hæstv. forsrh. að bera, en af þeim öllum held ég þó, að hæstv. dómsmrh. sé þyngsti krossinn, þó hann hafi talsverða kosti á sumum sviðum. Hann er t. d. laginn á að laða menn að sér, og duglegur að mæta miklum erfiðleikum.

Það virðist nú vera byrjað á því starfi innan Framsóknarflokksins, sem þarf að fara þar fram og hlýtur að fara þar fram fyrr eða að hundsa hæstv. dómsmrh. Meðferðin á „ömmu“ t. d. sýndi það. Þó það frv. hafi verið borið fram þing eftir þing, hafa flokksmennirnir ekki fengizt til að samþ. það og nú voru þeir loks orðnir svo harðir, að þeir drápu það blátt áfram. Svipað er að segja um bankamálið. Það er opinbert leyndarmál, hver hefir verið aðalhatursmaður Íslandsbanka innan Framsóknarflokksins. Nú hefir hann orðið að láta í minni pokann, orðið að éta ofan í sig allt hatrið og verður að vera í stj., sem ber fram frv., er felur í sér endurreisn Íslandsbanka og ekkert annað, þó hún reyni að fela það að forminu til.

Þá er nú öllum kunnugt, hvaða manni hæstv. dómsmrh. ætlaði að vera forseta Sþ., og að hann gaf honum 3.000 kr., úr landssjóði auðvitað, til þess að læra mannasiði. En svo kom „varalið Íhaldsins“ og varavaralið og gerði annan að forseta, — hundsaði hæstv. dómsmrh.

Hæstv. dómsmrh. minnir mig oft á danska stjórnmálamanninn Struensee. Hann fitjaði upp á ýmsum nýungum, og þó í sumum brygði fyrir einskonar hugsjónaleiftri, voru þær allar meira og minna vanhugsaðar. Nú eru Danir búnir að nema allt það, sem hann kom í framkvæmd af hugmyndum sínum, úr gildi, nema Klasselotteríið.

Struensee endaði nú líf sitt á höggstokknum, en það er nú ekki hætta á, að þau góðmenni, sem hér eru, fari þannig með stjórnmálamenn sína. Þó finnst mér flokkur hæstv. dómsmrh. vera alltaf að þoka honum nær og nær hinum pólitíska höggstokki.