27.03.1930
Neðri deild: 64. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

6. mál, sjómannalög

Ólafur Thors:

Ég verð að segja það við okkar gamla og góða form. sjútvn., að ég sé ekki ástæðu til að fara að rjúka upp og taka á móti hanzkanum, þó hann segi, að ég gefist upp. En ég vil spyrja, hvers vegna hann hefir ekki viljað taka upp till. Er það ekki af því, að hann telur þetta skipta svo litlu máli? Ég hefi áður haldið því fram, að réttast væri að tryggja þessa muni á kostnað sjómannanna sjálfra. (SvÓ: Ég hefi viljað það líka). En þess er nú enginn kostur, og það liggur hér ekkert fyrir um það. Ef á að leggja kapp á þetta atriði, verður að taka upp till. um það.

Annars vil ég benda næstv. atvmrh. á, að samkv. reglugerð hinna norsku sjómannalaga er þess krafizt, að menn geti sannað, að þeir munir, sem vátryggðir eru og tapast, hafi verið til. Vil ég nú skora á hæstv. ráðh. að hafa þá reglugerð til fyrirmyndar í þessum efnum hjá okkur. Ennfremur vænti ég, að hann gæti þess, að beitt verði fyllstu sanngirni gagnvart bátaútveginum að því er snertir vátryggingarskyldu á munum og gjaldtaxta.