29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að gera fáeinar leiðréttingar á ræðum þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. En af því að nú er komið á síðari viku eldhúsdagsins, verð ég að fella ýmislegt niður.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á það, að þegar „Esja“ var smíðuð, vildi Jón heitinn Magnússon, að hún væri frekar höfð vöruskip en fólksflutningaskip. Sú skoðun hans varð þó undir, og það hefir sýnt sig, að skoðun okkar Framsóknarmanna hefir í þessu efni reynzt réttari. Það veitir ekki af að hafa eitt skip, sem bætir úr þörfunum til fólksflutninga með allri strandlengjunni, en það má nú heita svo, að „Esja“ sé ein um þetta.

Hv. þm. bar á móti því, að mér væri nokkuð að þakka, hvernig lögreglumál Reykjavíkur hefðu batnað á síðasta ári. Jæja, þessi bót hefði bara ekki komið, ef ég hefði ekki borið fram á Alþingi frv. um að skipta lögreglustjóraembættinu sem áður var, og síðan fengið duglegan mann yfir lögreglumálin. Hv. þm. skal ekki ímynda sér, að bæjarstjórnin í Reykjavík hefði farið að gera nokkurn hlut í þessum málum, ef ekki hefði verið búið í haginn fyrir hana.

Hv. þm. kom með samanburð á mér og hv. þm. Borgf. og sagði, að hann væri bústólpinn og ráðdeildarmaðurinn, ég eyðsluklóin og landeyðan. Ég vil nú benda á, að þessi dómur um okkur mun vera öfugmæli um báða. Ég vil aðeins nefna eitt dæmi. Ég hefi sýnt mikla búmennsku við þá einu verzlun, sem ég hefi tekið við fyrir ríkið. Nú eru þar ekki framar neinar tapaðar skuldir. Mannahaldið hefir minnkað og reksturinn orðið ódýrari. Þeir, sem drekka, eru ánægðari en áður, af því að þeir fá betri vín. Þeir, sem vilja auka tekjur ríkissjóðs, eru líka ánægðari, því að ríkið fær nú mörg hundruð þús. kr. í tekjur meir en áður var, allt fyrir aukna ráðdeild við rekstur verzlunarinnar og minnkaða smyglun.

Þá kem ég að hinu stóra deilumáli okkar, hvort aldur eða hæfileikar á að ráða, hver skipaður er í embætti. Hingað til hefir yfirleitt verið fylgt þeirri reglu, að láta aldurinn ráða. Steingrímur Thorsteinsson var orðinn fjörgamall, þegar hann tók við rektorsstarfi. Eins var um Geir Zoëga. Hv. 1. þm. Reykv. vildi samkv. þessari reglu auðvitað, að Þorleifur Bjarnason yrði rektor. Og hvað segir sá „mæti íhaldsmaður“ Guðmundur Hannesson um ástandið í sinni skólatíð? Hann segir, að sá, sem þá var rektor, hafi verið genginn í barndóm og telur það eina af ástæðunum til hnignunar skólans. En þetta er ástandið, sem hv. 1. þm. Reykv. og hans flokksbræður vilja halda í.

Hv. þm. fór að taka dæmi úr sögunni og skáldaði óspart inn i. En ef það er alvara hans, sem hann virtist helzt gefa í skyn, að ég sé íslenzkri pólitík eins og Friðrik II., þá er það mikla hrós algerlega á hans ábyrgð, því að ég hefi ekkert tilefni gefið til þvílíks samanburðar. En svo verður hann að minnast þess jafnframt, að andstæðingar mínir verða þá að líkjast höfuðandstæðingum hans, þ. e. Lúðvík XV. Frakkakonungi og hirð hans. Hann verður þá að jafna sjálfum sér við einhvern af hirðgæðingum þessa konungs, og siðferðisástandið hjá flokki hans er þá eins og það var við frönsku hirðina á þessum tíma. Hann um það, hvort hann vill jafna sér og sínum við spilltustu og dáðlausustu valdastétt, sem saga Evrópu þekkir.

Að því, sem hv. þm. sagði um varðskipin, ætla ég að snúa mér um leið og ég tala við hv. þm. Vestm.

Þá minntist hv. þm. (MJ) á rannsókn Þórðar Eyjólfssonar og fannst hún lítilfjörleg. En hv. þm. má vita það, að þeir menn eru til í flokki hans, sem finnst þetta ekki lítilfjörlegt mál. Sumir læknar eru farnir að búast við því, að 108. gr. hegningarlaganna geti beinlínis flutt þá í betrunarhúsið, ef stjórnin lætur ekki náð ganga fyrir réttlæti bókstafsins. Það er ekki víst, að þeir hafi allir sömu skoðun á þessu og hv. 1. þm. Reykv. Hinir dugmeiri meðal þeirra eru raunar farnir að segja, að þeir séu til í það, að fara í fangelsi út af málinu. En yfirleitt treysta þeir á það, að þeim er kunnugt, að núverandi landsstjórn stillir mjög í hóf um meðferð á sökudólgum. (MG: Á ekki að höfða mál á móti læknunum?). Það liggur ekki fyrir til umræðu hér. En ef hv. 1. þm. Skagf. kemur með áskorun um það í Nd., að hengja t. d. 5% af læknunum, þá má vel taka það til athugunar. hvort málsókn eigi nú þegar að koma til greina. (MG: Ætlar hæstv. ráðh. að hengja læknana?). Ég er nú ekki eins blóðþyrstur og hv. 1. þm. Skagf., en ef hann kemur með áskorun í þessa átt, skal ég ekki segja, hvað stjórnin gerir um að undirbyggja hegningu með málshöfðun.

Þá kom hv. þm. að ástandinu í Menntaskólanum. Hann áleit að ástand skólans hefði verið gott til þessa, og hafði það eftir einhverjum, að hann hefði á sínum tíma verið bezti skólinn í danska ríkinu, — hann var nú svo dansklundaður, að hann þurfti að taka það til dæmis.

Það væri nógu gaman að sjá framan í alla þá dönsku skólamenn og prófessora, sem viðurkenna þetta. Og án þess að ég vilji nokkuð rengja hv. þm., þá væri gott að fá fyrir þessu skjallegar sannanir fremur en munnfleipur hans. Hann gæti t. d. prentað þær upp í næsta hefti af tímariti sínu, — hann hefir sjálfsagt ekkert betra efni í það. Ég skal nú nefna annan vitnisburð um ástandið á þeim bæ. Jón Ófeigsson kennari — sem hv. 1. þm. Reykv. hefir mikið álit á, þótt hann vildi hann ekki fyrir rektor, af því að hann var ekki genginn nóg í barndóm — fór fyrir fáum árum til útlanda og heimsótti þá m. a. 25 menntaskóla. Þegar heim kom, sagði hann opinberlega, að aðeins einn af þessum skólum hefði haft lakari útbúnað en Menntaskólinn hér. Þarna vænti ég, að sé vitni, sem hv. 1. þm. Reykv. tekur fullt tillit til, og það veit hann, að það er ekki gott að hafa sæmilegan skóla án góðs útbúnaðar. Ég held, að okkur sé óhætt að slá því föstu, að skólinn var mjög lélegur áður en við hv. 1. þm. Reykv. fórum að skipta okkur af honum, — en við erum nú helztu velgerðamenn hans, og á hann skilið að fá stóra rós í hnappagatið fyrir hjálpina með miðstöðina. Þótt skólinn væri þá enn lélegri en nú, er Pálmi Hannesson tók við, var hann ekki verri en hann hafði verið um langan aldur. Það er ekki fallegur vitnisburður um ástandið í skólanum 1899, þegar kennarar skólans dæma Sigurð Guðmundsson, núv. skólameistara á Akureyri, óhæfan til að sitja í skólanum, og hann fær það aðeins fyrir meðalgöngu manna utan úr bæ. Rétt um sama leyti er slíkur maður sem Böðvar Bjarkan rekinn úr skóla, og nokkru síðar Jón frá Stóradal, núverandi hv. 6. landskjörinn. Nú fáum við, ég og rektor skólans, ásakanir fyrir það, að við förum ekki eins miskunnarlaust að gegn þeim, sem ekki eru alfullkomnir í skólanum. Menn verða að athuga það, að ekki er hægt að gera eins strangar kröfur til pilta í skóla, sem hafa átt við slík kjör að búa sem nemendur þessa skóla. Annars er ástandið nú betra en það hefir nokkurntíma verið, vegna aðgerða hins nýja rektors og nokkurra kennara, er vinna með honum að því að bæta skólalífið og kennsluna. En engan þarf að furða, þótt menn búi nokkurn tíma að því uppeldi, sem þeir hafa fengið í kannske 4–5 ára vist í skólanum eins og hann var, og því er von, að ekki sé hægt að kippa öllu í lag á svipstundu eftir svo langa vanrækslu, sem þar hefir átt sér stað.

Nú kemur hv. l. þm. Reykv. og fer að tala um eldspýtnadreifingu o. þ. h. Hann sýnist telja það rétt eins og mannsmorð að taka hausa af nokkrum eldspýtum, og sjálfsagt var þetta yfirsjón, það játa ég. En menn verða að minnast þess, að þetta kemur niður á piltunum sjálfum líka, alveg eins og þegar þeir koma með einhver „kemisk“ efni til að gera ólykt í kennslustundum. Meðan þeir verða sjálfir að þola hið sama og kennarinn, er töluverð trygging fengin fyrir því, að ekkert mjög voðalegt fari fram.

Hv. þm. kom inn á það, að ég mundi ætlast til þess, að loftið yfir bókasafninu yrði notað fyrir heimavist handa fáeinum fátækum utanbæjarpiltum. Það er nú ekkert víst, að af þessu verði, a. m. k. ekki í vetur. En látum nú svo, sem þetta væri ákveðið. Hv. þm. fannst þetta svo voðalegt vegna þess, að húsið gæti brunnið. En hvernig var það þá með eldhættuna í gamla skólahúsinu áður, meðan Langaloftið var notað fyrir heimavist og engin ljós voru nema olíulampar. Hér gerir hv. þm. vissulega kröfur um varúð gegn eldhættu, sem ekki eru gerðar annarsstaðar. Eða hvernig er það með Gagnfræðaskólann á Akureyri, þar sem um 75 nemendur hafa heimavist í timburhúsi? En bókasafnshúsið er allt öðruvísi hús en skólahúsin. Það er steinhús með járnbitum og a. m. k. steinhúð neðan á loftunum. Eldhættan er þar miklu minni en í sjálfu skólahúsinu. — Ég hefi ástæðu til að gruna hv. 1. þm. Reykv. um, að hann sé að tala um þetta af því, að hann geti ekki unnað fátækum sveitapiltum að búa þarna ókeypis. Það má vel vera, að aldrei verði heimavist þarna, en sú ástæða, sem hv. þm. bar fram á móti því, er bara grýla.

Í sambandi við eldspýtnadreifinguna vil ég nefna lítið dæmi, sem gerðist um það leyti, sem hv. 1. þm. Reykv. var í skóla, þótt hann komi þar ekki sjálfur við sögu. En það er vítavert af honum að vera að gefa rangar skýrslur um þessa stofnun, þegar hann hefir sjálfur verið þar á einhverjum versta tíma, sem yfir hana hefir gengið. Auk þess sem eldspýtnadreifingin var hættuleg fyrir taugar kennaranna, eftir því sem hv. 1. þm. Reykv. fullyrðir, var af henni töluverð eldhætta í þessu timburhúsi, en um þá brunahættu talaði hv. þm. ekki.

En það kom einu sinni fyrir á skólaárum hv. 1. þm. Reykv., að þegar einn kennari skólans, Geir heitinn Zoëga, sem annars var mikill friðsemdarmaður, var að kenna, að loftið í skólastofunni fylltist óþolandi brennisteinssvælu. Var þá kallað á rektorinn. Hann kom og hafði enska húfu á höfði. Hann tekur húfuna af sér og heldur í derið. Heldur síðan harða skammaræðu yfir piltum og lemur með húfunni niður í kennarapúltið. Við þetta tættist húfan í sundur og var loks ekkert eftir annað en derið. Síðan fór fram rannsókn í málinu og fyrst athugað, hvaðan fýlan mundi koma. Fannst þá lítið hylki í skáp, sem síðar var notaður til að geyma í skóhlífar. Hylkið hafði verið fyllt með brennisteini og síðan kveikt í því í frímínútunum. Áður hafði verið reynt að skapa ólykt í skólanum með efni, sem fékkst úr apótekinu. En þá tókst rektor að hafa upp á þeim, sem það gerði, og var þá einn af merkustu mönnum sinnar kynslóðar rekinn úr skólanum. Nú taldi rektor víst, að hafa mætti upp á þeim pilti, sem var upphafsmaður að brennisteinskyndingunni, með því að fá það upplýst á apótekinu, hver keypt hefði brennisteininn. En það brást og rektor fékk aldrei að vita, hver valdur var að þessu. Sá, sem það gerði, hafði verið kaupamaður norður í Mývatnssveit sumarið áður. Hafði hann þá notað tækifærið til þess að ná í brennisteininn úr námunni hjá Reykjahlið. Vildi hann víst gera kennurum sínum það ljóst, hvers vondar sálir mega vænta hinum megin. Og hann sýndi það, að hann hafði ekki gleymt sínum kæra skóla þann tímann, sem hann var fjarvistum við hann í kaupavinnu fyrir norðan. Ber þetta dæmi óneitanlega vott um það, hversu skólinn bjó í hag fyrir sig hjá nemendum.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það, sem einna bezt sýndi ástandið í skólanum nú í vetur, sé það, að þegar hinn ungi rektor hafi áminnt einn pilt, þá hafi pilturinn snúið sér að rektor og boðið honum sígarettu. — Ég get nú að vísu hugsað mér, að jafnvel menntur maður og núverandi rektor er, hafi ekki farið að reka piltinn fyrir þetta. Sagan er að vísu ekki merkileg, en auk þess er hún sennilega lygasaga. — En ég get sagt hv. þm. sögu af miklu stærri „sígarettu“, sem einum kennara var gefin á afmælisdegi hans, og það einmitt í skólatíð hv. þm. Sá kennari er enn við skólann og er merkur og mætur maður. Piltar vildu, svona á sinn hátt, gleðja kennarann. Þá hafði Thomsen kaupmaður hér vindlagerð. Piltar létu búa þar til einn meiri háttar vindil, sem var eitthvað um alin á lengd. Tóku þeir svo tóman vindlakassa, skáru raufar á gaflana og lögðu vindilinn í raufarnar og lokuðu honum síðan. Stóðu þá endarnir langar leiðir út báðum megin. Binda þeir síðan slaufur um vindilinn. Tekur svo einn kassann með vindlinum í og fer með hann heim til kennarans. Hinir piltarnir fylgja allir í halarófu, þannig að hver heldur í annars treyju. Þótti þeim víst, af þeim kunnum ástæðum, tilhlýðilegast að haga „prósessiunni“ þannig. Þegar svo heim til kennarans kemur, þá bukkar og beygir sá fremsti sig fyrir honum, óskar honum allra heilla og gefur honum vindilinn.

Ég hefði nú ekki sagt frá þessu, ef hv. þm. hefði ekki farið að tala um sígarettuna. En ég vildi bara sýna hv. þm., að svona stórar „sígarettur“ voru nú gefnar á þeim gömlu og góðu tímum, sem hv. þm. heldur að nú séu að glatast. Og það er meir en líklegt, að hv. 1. þm. Reykv. hafi verið potturinn og pannan í þessari vindlagjöf.

Svo kom hv. þm. inn á skrópvottorðin. Þeim var nú komið á í hans tíð. Ég ber nú satt að segja enga sérstaka virðingu fyrir umbót, sem allir vita að er gagnslaus. Eins og ástandið var þá orðið í skólanum, gat það meira að segja verið stórhættulegt að ætla að treysta svo á drengskap pilta. „Piltar í Rugby skrökva aldrei“, sagði skólameistarinn. Hann kom fram með þeim drengskap við lærisveina sína, að þeir vildu aldrei skrökva að honum. — En þarna var ástandið svo, að það var blátt áfram heimskulegt traust, sem fólst í þessu. Enda er mála sannast, að þetta leiddi af sér fals og svik, sem hélzt alla tíð, þar til núverandi rektor afnám þessa kennslu í skjalafalsi og ósannindum. Er einkennilegt, að þau skuli ekki hafa fyrr verið afnumin, þessi skrópvottorð því þau hafa frá því fyrsta aðeins leitt illt af sér.

Ég geri nú að vísu ekki ráð fyrir því, að hægt sé að kippa hinu innra ástandi skólans að öllu leyti fljótlega í lag, enda var hugsunarhátturinn orðinn spilltur af þessum vottorðagjöfum. En með núverandi aðferð, að rektor fari heim til nemenda, sem ekki koma í skólann, eða sendi þangað kennara eða lækni, fæst þó sönn vitneskja sama dag um, hvernig á fjarveru nemenda stendur. Ég hygg, að þetta muni gefast stórum betur en vottorðagjafirnar. Ég hygg og að rektor sé að undirbúa og gefa út nokkurskonar hagskýrslu um skróp í skólanum fyrr og síðar, og sést þá, hvernig gengið hefir í vetur. Hv. þm. ætti að bíða með dóma sína þangað til.

Ég vil nú ekki segja, að það sé í sjálfu sér mjög hrósvert hjá rektor, þótt ástandið batnaði lítið eitt, þar sem það var svo vont áður. En þegar allar kringumstæður eru aðgættar, þá er ekkert, sem sýnir þó betur, að það virðist hafa verið vel ráðið að fá þennan unga og efnilega mann að skólanum. Þrátt fyrir það, að flestir nemendur eru frá heimilum hér í bænum, þar sem Morgunblaðið er nær eingöngu lesið og því trúað, að undanteknum fáeinum verkamannabörnum og máske einhverju af þeim 10% nemenda, sem eru utan Reykjavikur. Og það er vitanlegt, að á heimilum þessara Morgunblaðsmanna hefir allt verið gert, sem hægt hefir verið, til að afflytja Pálma rektor og gera honum erfitt fyrir að vinna verk sitt. Með þessum undirbúningi gæti maður hugsað, að eitthvað sögulegt hefði gerzt. — Það er vitað, að hv. 2. þm. G.-K. reyndi beinlínis að koma af stað uppreisn í skólanum. En það tókst ekki, því námsfólkið leit nú þannig á, að meira væri litið á þess hag en áður frá mannlegu sjónarmiði. Ekki af því að aga sé ekki haldið uppi líkt og áður, heldur af ýmsu öðru. Þannig hefir aldrei í manna minnum komið fyrir fyrr en nú, að rektor skólans hafi verið í bindindisfélagi með piltunum. En áður kom það einu sinni fyrir, að flestir kennarar skólans skrifuðu undir skjal, sem gekk á móti bannlögunum. Má nærri geta, að er til lengdar lætur hefir það áhrif á viðhorf nemenda til áfengisnautnar, hvort kennarar vinna móti áfengislöggjöfinni eða þeir ganga á undan með góðu eftirdæmi um bindindi. Óhæfileg vínnautn hefir lengi verið átumein skólans. Og áður nefnd tilkynning fyrri forráðamanna skólans um fjandskap við bannlögin hefir áreiðanlega ekki aukið hófsemina í skólanum.

Ég get sagt frá því, að í fyrravetur, þegar Þorleifur H. Bjarnason var rektor, kom fyrir tilfelli í sambandi við drykkjuskap; þar sem eftir strangasta bókstaf reglnanna hefði verið sjálfsagt að reka tvo pilta úr skólanum. Það hefir nú máske verið til minnkunar fyrir þáv. rektor og mig að gera það ekki. En við komumst nú samt að sömu niðurstöðu, hvor í sínu lagi, um það, að réttara væri að láta mildi ganga fyrir rétti og hlífa þessum piltum frá að verða eyðilagðir sem nemendur í skólanum. Við hugsuðum, að mildin mundi fremur bæta þá en brottrekstur hefði gert. Ég veit, að bæði rektor og ýmsir yngri kennararnir hjálpa þeim nemendum, sem hættast eru staddir gagnvart drykkjuskapnum, eftir því sem unnt er. En það er hart að rógbera menn fyrir það eitt, að þeir leggja sig fram á mannlegan og drengilegan hátt til að bæta skólann. Og ég held sannarlega, að foreldrar ættu að hugsa sig tvisvar sinnum um áður en þeir fordæma viðleitni, sem nú þegar hefir borið nokkurn árangur nemendum til góðs.

Hv. 1. þm. Reykv. áleit, að sjálfsagt hefði verið að reka þessa pilta úr skóla, sem í vetur skiluðu ófullkomnum jarðfræðistíl. Ég skal endurtaka það, sem ég áður sagði, að piltar höfðu þarna nokkuð til síns máls, svo að vafasamt var, eins og á stóð, hvort rétt var að beita ítrustu hegningu. Enginn jarðfræðistíll er heimtaður vegna prófsins. Í skólanum er allt námið miðað við próf. En Guðmundur Bárðarson er vísindamaður. Og hann vildi gera meira en skyldan krafði, og er það vitanlega heiður fyrir hann að hafa viðleitni til þess, að nemendur læri sem mest. Ég veit, að piltar gerðu þarna rangt. En að skilja er oft sama og að fyrirgefa. Og þegar piltar, sem höfðu í 4–5 ár sýknt og heilagt búið sig undir prófið og þeim verið innprentað það, að prófið væri aðalatriði skólaverunnar, þá er eðlilegt, að þeir óski ekki eftir viðbót við námið á því sviði, sem ekki kemur þeim að haldi við prófið. Nemendurnir eru á kapphlaupi gegnum skólann, til þess að öðlast að skólagöngunni lokinni próf, brauð og bein. Ef komið hefði verið með þetta mál til mín og ég sagt: Piltarnir hafa framið „diciplin“-brot og það er sjálfsagt að reka þá. Þetta hefði nú sjálfsagt verið gert í gamla daga. En það hefði nú samt sem áður verið vafasamur dómur: Hegningarfræði nútímans gengur meir og meir í þá átt, að meta afbrot eftir ástæðum. Og meðferðin breytist í þá átt, að lækna en ekki að kvelja. Hv. þm. veit líka, að í okkar hegningarmálum hefir verið gerð breyting, er stefnir í þessa átt. Og nú er þegar komið það álit á vinnuhælið á Eyrarbakka, að margir menn fari þaðan virkilega betri menn en þeir koma þangað. Þessu orka góð húsakynni, skynsamleg aðbúð, regla, vinnan og bætandi áhrif á fangana. Það mun jafnvel ekki dæmalaust, að feður hér í bænum, sem eru svo ógæfusamir að eiga syni, sem þeir eru í vandræðum með vegna drykkjuskapar eða leti, hafi farið að kynna sér hælið á Litla-Hrauni með það fyrir augum, að koma þeim þangað. Þeir vilja gjarnan freista, hvort vinnuhælið á Litla-Hrauni geti ekki gert þá að betri mönnum.

Hv. þm. þarf eigi að undra það, að þó við, sem breytt höfum leiðinlegu kvalalífi fanganna á Íslandi í holla vinnu, lítum líka nokkuð öðruvísi en hann á skólayfirsjónir. — Það er allt önnur lífsskoðun, sem ræður gerðum okkar, heldur en manna eins og Björns Ólsens eða þess kennara, sem nóteraði hv. 1. þm. Reykv. fyrir það að koma ½ mínútu of seint, eftir því sem hv. þm. sagðist sjálfum frá. Það er stórvítavert, hvernig hv. 1. þm. Reykv. og flokksbræður hans láta gagnvart skólanum. Þeir vita þó, að þetta, sem gert hefir verið fyrir skólann, bæði hið ytra og innra, eru möguleikar til umbóta, sem ekki hafa fyrr verið gerðar í skólanum alla tíð síðan hann kom til Reykjavíkur. Ég veit, að skólinn hefir haft þann kost, að hann hefir verið allsómasamleg stúdentaverksmiðja. En hví má þá ekki slíka bæta við líkamlegu uppeldi, lifandi skólalífi og hollara og skemmtilegra en áður? Allir vita, að nú er unnið í þessa átt; húsið betra, áhöldin meiri og fullkomnari, aðgangur að góðum lestrarsal, gerð byrjun að heimavist við skólann, íþróttalíf aukið og ferðir um nágrennið. Samt hefir ekkert borið á því, að minna væri lært en áður. Allt hefir verið gert, sem hægt var, til að hnekkja þessum umbótum í skólanum. Andstæðingarnir hafa haft mörg blöð til þess, þeir hafa haft með sér nokkuð af kennaraliði skólans, og þeir hafa haft með sér nokkurn hluta nemendanna, sem koma frá æstustu íhaldsheimilum hér í bænum. Það hefir verið reynt að gera uppreist í skólanum. — Þrátt fyrir þetta hefir ekkert tekizt að hnekkja hinni nýju umbótastarfsemi í skólanum. Aðaldæmið um óstjórn í skólanum, sem hv. 1. þm. Reykv. gat nefnt og sem hann elur mótstöðu sína á, er dæmið um Guðmund Bárðarson. Og þó er það leyst þannig, að það er Guðmundi Bárðarsyni til sóma og stjórn skólans til sóma. Og að því leyti, sem um misgerð frá hálfu piltanna var að ræða, þá var það bein afleiðing af því gamla „regimenti“, þ. e. syndum íhaldsins. Um hitt dæmið, sem hv. þm. nefndi og sagði, að hefði misheppnazt, það, að gefa piltum frídag, ef þeir sæktu vel skólann, er það að segja, að það var heiðarleg tilraun, sem sjálfsagt var að reyna. Ég veit nú reyndar ekki nema hún kunni að heppnast. Og þótt svo verði ekki, þá er þó miklu betra að prófa sig áfram með lægni og lipurð en með gamla fyrirkomulaginu, illindum og falsvottorðum.

Hv. 1. þm. Reykv. þóttist vera ánægður yfir miklu sporti. En í sambandi við það varð hann þó að fara að segja lygasögu frá Laugarvatni. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að hafa minnzt á þetta og gefið mér þar með tilefni til að kveða niður þvætting, sem hefir gengið aftur og aftur í 3–4 mánuði og átt að vera eitthvert stórkostlegt hneykslismál. Sönn er sagan svona:

Skólastjórinn á Laugarvatni er gamall glímukappi og einn af mestu áhugamönnum þessa lands um íþróttamenningu. Hann er og skörungur í að stjórna fólki, sem bezt sést á því, að hann hefir það traust, að honum hefir verið falið að hafa yfirlöggæzlu á Þingvöllum í sumar meðan hátíðin stendur yfir. Er það gert með góðu samþykki hv. 1. þm. Reykv., sem er í hátíðarnefndinni. Nú er það, að í vetur, þegar snjór var kominn, þá bregður þessi skólastjóri sér til Reykjavíkur og semur við norskan kaupmann hér í bænum um kaup á 40 pörum af skíðum. Einnig kaupir hann eitthvað af skautum hjá Zimsen. Skólastjórinn kaupir þetta sjálfur handa skólanum og fær andvirðið með gjöfum, samskotum og leigu hjá skólafólkinu og vinum skólans, en einna drjúgust munu hafa orðið framlög frá honum sjálfum. Eiga svo þessi íþróttatæki að verða eign skólans. Er þetta gert vegna þess, að fólk á Suður- og Vesturlandi er ekki eins vant skíðanotkun og fólk norðanlands og austan og hefir minni þörf fyrir að koma með skíði heim frá skólanum, þótt þetta sport eigi þar vel við. Þótti því naumast rétt, að hver nemandi keypti skíði til notkunar á skólanum. Betra að skólinn ætti þau. En hvað gerir nú íhaldið hér í bænum út úr þessu? Það býr til stóra lygasögu. Og eftir það, að hún hefir verið uppsoðin minnst 20 sinnum hjá sögusmettum úti í bæ, þá kemur hv. 1. þm. Reykv. með hana hingað inn á Alþingi. Ég átti að hafa pantað skíðin á ríkisins kostnað. Reikningurinn átti að hafa verið sendur til fjármálaráðuneytisins, en fjármálaráðherra afsagt að greiða hann. Síðan átti reikningurinn að hafa verið að flækjast hér manna á milli og um götur bæjarins. Afleiðingin af öllu þessu átti svo að verða sú, að yfir mér væri haldinn landsdómur, sprenging innan Framsóknarflokksins og hver veit hvað. Svona var sagan um skíðin orðin voldug, og tilefnið var þó ekki svo mikið, sem „ein lítil fjöður“, eins og efnið í hænuna hjá H. C. Andersen.

Það síðasta, sem ég hefi skrifað hér hjá mér, er um skammir og grínmyndir úr blaði, sem nemendur í menntaskólanum eiga að hafa gefið út innan skóla. Ég sá í fyrra blað frá piltunum þar, það var fulli af keskni og hreinum stóryrðum, t. d. um Jón Ófeigsson, hann var þar mjög „karrigeraður“. Í þessum blöðum er líka alltaf eitthvað um kennslumálastjórnina, þegar hún skiptir sér eitthvað af málefnum skólans. Ég geri alls ekki sömu kröfu um kurteisi í þessari stofnun og þar sem gott uppeldi hefir skapað prúðmannlegar venjur. En ef ég lifi eftir ein 6 ár og við skólann verður sami rektor og svipaðir kennslukraftar, þá mundi ég telja annað eins og þetta mjög leiðinlegt, meira að segja alveg óhæfilegt. Og í góðum skóla, þar sem piltar hafa sæmilega aðbúð, kæmi slík blaðaútgáfa vitaskuld ekki fyrir. En út af fyrir sig dæmi ég um brek menntaskólapilta með meiri mildi sökum þess að ég veit við hvað þeir hafa átt að búa. Og út frá þessu viðhorfi ætla ég að segja hv. 1. þm. Reykv. dálitla gamansögu af reynslu eins vel metins íhaldsborgara hér í bænum, um hreinlæti eins og það var áður en skólpræsi komu neðanjarðar eftir götunum hér. Þessi maður bjó þá í Mjóstræti skammt frá Vinaminni. Það var mjó gata og engin skolpræsla. Kona hans kvartaði yfir því við mann sinn, að það búi hinn mesti sóði í næsta húsi, að þar sé hellt tilteknum slæmum óhreinindum beint út í opna rennuna við götuna. Maðurinn fór að tala við heilbrigðisfulltrúann — það var ekki Ágúst Jósefsson, heldur einhver annar merkur maður. Þá svarar heilbrigðisfulltrúinn með þeim orðum, sem ég vil gera að mínum í sambandi við kröfur íhaldsmanna um grimmar hegningar til handa nemendum, sem hafa átt við að búa kæruleysi, kulda og andúð frá kennurum árum saman: „Þeir, sem búa í svona „kvarteri“, geta búizt við, að eitt og annað af þessu tægi komi fyrir, sem ekki verður að gert“.