29.03.1930
Neðri deild: 66. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1931

Jón Auðunn Jónsson:

Þeim hv. þdm., sem hlustuðu á svarræðu hæstv. dómsmrh. til mín, þótti ráðh. allorðljótur, og skal ég ekki neita því, að það gladdi mig, því ég lít á það sem vott þess, að ég hafi hitt á viðkvæma og snögga blettinn á hæstv. ráðh. í ræðu minni. Hæstv. ráðh. vildi bera á móti því, er ég sagði, að hann hefði rægt hæstarétt og gert tilraun til að veikja álit hans innanlands sem utan. En það er eins með hæstv. dómsmrh. og seppann í austurlenzka æfintýrinu, seppann, sem átti að gæta sauðarlærisins, en gætti þess ekki betur en svo, að hann át það. Kjötflykksurnar stóðu í tönnunum á honum, þegar hann fór að afsaka sig um hvarf lærisins, og það vitnaði um sök hans. Hæstv. dómsmrh. sagði, að hæstiréttur gæfi sér ekki tíma til að dæma í bæjarfógetatnálinu og gaf í skyn, að hlutdrægni ylli þessum drætti réttarins. Nú skal ég ekkert um það segja nema fimmtardómur hæstv. ráðh., ef hann kemst nokkurntíma svo langt að verða lögfestur, sem ég vona að ekki verði, verði eins hraðvirkur í dómsuppkvaðningum sínum og tíðkast um byltingardómstóla, en hitt er víst, að eins og réttarfarinu nú er varið með þjóð vorri, mega dómar ekki falla í neinu máli fyrr en sókn og vörn hefir fram farið í málunum. Þetta ætti nú dómsmrh. að vita; þó hann langi til að fá þm. Seyðf. sakfelldan, verður hann að bíða þess, að málflutningi fyrir hæstarétti verði lokið.

Hæstv. ráðh. sagði, að fimmtardómsfrv. gengi mestmegnis út á nafnbreytingu á hæstarétti, þar eð rétturinn væri rangnefndur, með því að dómsstigin væru aðeins tvö hér á landi. Nú þykir mér það harla einkennilegt að fara að taka hér upp frægt og gamalt dómsnafn, einungis af því, að það er gamalt og þjóðlegt, án þess að jafnframt séu gerðar þær breyt. á dómaskipuninni, sem slíkt nafn dómsins hlýtur að gera ráð fyrir. En þó að slík nafnbreyt. væri til bóta, sem þó fáir munu viðurkenna, verður að athuga það, að í þessu frv. ráðh. er um a. m. k. tvö stjórnarskrárbrot að ræða, auk þess sem flestar breyt. eru til hins lakara. Aðeins eitt eða tvö smærri atriði eru til bóta, og eru þau þess eðlis, að ekki þurfti gagngerðrar breyt. á hæstaréttarlögunum til þess að koma þeim fram, heldur þurfti aðeins lítilfjörlega breyt. að gera á núgildandi lögum um hæstarétt. Þegar hæstv. ráðh. niðrar þeim mönnum, sem stóðu að hæstaréttarlögunum, þótti mér skörin taka að færast upp í bekkinn, þessi hæstv. ráðh., sem skríður fyrir lítilmótlegustu útlendingum eins og mestu ræflar íslenzkir skriðu fyrir erlendum búðarlokum á einokunartímunum. Það er vitanlegt, að þessir menn, sem undirbjuggu lögin um hæstarétt, stóðu framarlega í baráttunni um endurheimt fullkomins sjálfstæðis okkur til handa, og ég er því ekki óánægður með, að mér sé líkt við þessa menn. Hæstv. dómsmrh. má vita það, að hans verður skemur minnzt fyrir sín skemmdarverk en þessara manna fyrir sín þjóðþrifaverk, og ég verð að hryggja hæstv. dómsmrh. með því að segja honum það, að meiri hl. þjóðarinnar trúir honum ekki sem bezt í sjálfstæðismálunum.

Annað í svari hæstv. dómsmrh. til mín var utan við efnið, eins og hans er venja. Hann fór t. d. að ræða um lántökuna 1921. Ég hefi ekki séð þau skjöl, sem að henni lúta. Ég á ekki sæti í fjhn. nú eins og ávallt áður; það þótti sem sé nægilegt að 5 menn skipuðu þá nefnd nú, þó að 7 menn hafi jafnan setið í henni að undanförnu, og hafa þó mörg mikilvæg mál komið til þeirrar nefndar á þessu þingi, svo sem verðfestingarfrumvörpin og hin mörgu frv. um skattamál. Dómsmrh. mun hafa unnið dyggilega að því, að ekki yrði fjölgað í n., svo hv. þm. V.-Ísf. og ég ekki kæmumst í hana. Ég get því ekki borið um það, hvort þau rök, sem hæstv. dómsmrh. flutti fram í þessu efni, eru rétt eða ekki. Ég held, að Sveinn Björnsson hafi undirbúið og undirskrifað þessa samninga og í því efni haldið vel á hinum íslenzka málstað. Núv. óhappastj. reynir af alefli að „prokurera“ fyrir erlenda málstaðnum í þessu máli, eins og flestum öðrum.

Þá var hæstv. dómsmrh. enn með ásakanir út af stjórn minni á útibúinu á Ísafirði, en samkv. reikningum þess hefir það fært Landsbankanum til tekna arð, sem alls nam með vöxtum 684 þús. kr. auk gengismunar, sem á 3 árum nam 180 þús. kr. Þarna er þá komin álitleg upphæð upp í tap það, 1 millj. króna, sem ráðh. nýr mér svo mjög um nasir.

Á sama tíma tapaði Landsbankinn í Reykjavík á einu fiskkaupafélagi á Ísafirði um 300 þús. kr. Það er margfalt að tiltölu við tap útibúsins. Það er viðurkennt, að sömu eðlilegar ástæður lágu til taps útibúsins á Ísafirði sem til taps annara lánsstofnana á sama tíma. Það var erfitt að verjast töpum á þessu tímabili, sérstaklega þó árið 1919, þegar síldarútvegurinn varð fyrir hinu óminnilega tjóni. Dómsmrh. hefir upplýst, að Landsbankinn hafi alls tapað. 20 millj. og eigi nú minna en ekkert.

Dómsmrh. afsakaði ekki, að hann væri hefnigjarn og kæmi stundum fram sem illmenni, þegar hann réðist með ofsóknum á saklausa menn. Það hefir enga þjóðmálalega þýðingu, þó að hæstv. dómsmrh. beiti ofsóknum gagnvart mér, og ég stend jafnréttur fyrir aurkasti hans, en hitt er til skaða, þegar þessari aðferð er beitt gagnvart heilum stéttum og stofnunum í landinu, stofnunum eins og hæstarétti, sem er einn af hyrningarsteinum sjálfstæðisins.

Þegar hæstv. dómsmrh. var að belgja sig upp með stóryrðum um fjarverandi menn, svo sem þegar hann var að núa ýmsum mönnum á Ísafirði því um nasir, að þeir væru svindlarar, sýnir það ekkert annað en að hann hefir ekki taumhald á tungu sinni. Er það leiðinlegt um mann í svo virðulegri stöðu, sem hann nú skipar; en slík ósvinna hendir hann oftar en nokkurn annan mann á Alþingi Íslendinga, fyrr eða síðar.

Ég vænti nú, að þessum stutta ræðutíma mínum hafi verið vel varið. Ég vænti þess ennfremur, að hæstv. ráðh., sem annars er vanstilltur í lund, svo sem kunnugt er, muni nú halda skapbrestum sínum í skefjum framvegis, betur en hingað til. Annars er það næsta ískyggilegt, hversu mjög ýmsum lélega innrættum þjóðmálaskúmum hefir tekizt í seinni tíð að blekkja landslýðinn með hverskyns fláttskap og brögðum. Í því efni hefir enginn komizt með tærnar þangað sem hæstv. dómsmrh. hefir hælana. Jafnvel starfsfélagi hans og flokksbróðir, hinn ágæti maður Magnús heitinn Kristjánsson ráðherra, var ósjaldan neyddur til þess að skakka leik starfsbróður síns, þegar honum þótti hinar gífurlegu blekkingar og geðofsi þessa manns keyra úr hófi. Þegar um var að ræða ábyrgð á 9 millj. króna láni fyrir Landsbankann, sem tekið var í brýnustu nauðsyn, þegar afurðir til lands og sjávar höfðu selzt seint og illa, þá gat Magnús heitinn Kristjánsson ekki lengur setið hjá og horft upp á aðferðir núv. hæstv. dómsmrh., sem barði því inn í landslýðinn, að þetta væri ókjaralán og að með því væri hverju mannsbarni á landinu bundinn 90 króna skuldabaggi. Þá tróð hann fram fyrir skjöldu og hvatti núv. hæstv. dómsmrh. til að sýna hógværð og stillingu á vettvangi þjóðmálanna og af honum fullkomna ofanígjöf fyrir ósannindin og blekkingarnar, sem ráðh. viðhafði í umr. um það mál, sjá Alþt. B. 711. Hér er aðeins að ræða um eitt lítið sýnishorn af þeim aðferðum, sem hæstv. dómsmrh. lætur sér sæma að beita í pólitískum viðskiptum.

Ég veit nú ekki, hvort ég á að minnast á þriðja atriðið, sem ég hefði haft fulla ástæðu til, en mér er nú sagt, að það verði ekki kvöldfundur, og þá vil ég ekki verða þess valdandi, að eldhúsverkum geti ekki verið lokið kl. 7, og skal því játa máli mínu lokið að þessu sinni, en vænti þess að fá bráðlega tækifæri til að ræða við hæstv. dómsmrh um ýmislegt, sem ekki er tími til að svo stöddu.