17.03.1930
Neðri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Ég þarf ekki að svara hv. frsm. minni hl. miklu. Það, sem hann sagði, bar yfirleitt vott um velvilja til þessa máls og fullan vilja á að leysa úr því á þann hátt, sem hann álítur beztan. Það eru því aðeins smáatriði, sem á milli ber um.

Hann var að tala um, að við hefðum í upphafi átt að bera fram þær till., sem hann flytur nú. En ég vil benda honum á, að við áttum að meta, hvað Skeiðabændunum væri fært að borga af skuldum sínum. Þess vegna urðum við að miða till. okkar við það, að ríkið fengi sem mest upp í þær skuldir, sem það þarf að taka á sig vegna áveitunnar, en þó ekki svo mikið, að búskapnum á áveitusvæðinu verði hætta búin í framtíðinni.

Við athuguðum margar leiðir, sem til greina gátu komið; þar á meðal kom okkur til hugar, að ýmsir bændanna gætu borgað eitthvað af skuldum sínum með því að láta af hendi land. En þar sem landið er ekki metið nema á 16 kr. hektarinn, var ljóst, að aldrei yrði mikið greitt á þann hátt. Fáar jarðir þarna geta eins og nú stendur misst svo mikið af landi sínu, að hægt sé að reisa þar önnur býli. En bændur álíta, og ég er sannfærður um, að það er rétt, að þegar frá líður og jarðræktin eykst, auk þess sem áveitan gefur meiri uppskeru, muni löndunum skipt af bændunum sjálfum, svo býlin muni verða miklu fleiri en nú. Þetta hygg ég, að sé rétt stefna. Hv. þm. Borgf. sagði, að nauðasamningar mundu gefa vont fordæmi, sem gæti orðið slæmt fyrir seinni tímann. En hér er nú einmitt sérstakt tækifæri fyrir ríkisvaldið að grípa inn í fjárhagsmál bændanna á þennan hátt. Þessa væri máske víðar þörf: En það er einungis þarna, sem ríkisvaldið hefir afskipti af þeim málum. Nú er það svo, að þarna eru bændur, sem ekki eru færir um að bjarga sér sjálfir framvegis. Þeir hafa veðsett jarðir sínar veðdeild og Landsbanka. Annaðhvort fer þá svo, að þessir lánveitendur taka jörðina, sem við viljum ekki að verði gert, eða að svo og svo mikið af þeirri hjálp, sem ríkið veitir þessum mönnum, rennur til þessara skuldheimtumanna. Það viljum við ekki heldur. Við viljum láta skuldheimtumennina taka sinn þátt í þessu viðreisnarstarfi. Í þessu liggur engin hætta. Ástæðurnar þarna eru of sérstakar til þess, að svo sé. Þá var hv. þm. Borgf. hræddur um, að söluskatturinn, 20%, verði erfiður í framkvæmd og að farið myndi verða í kringum hann. Ég skal nú engu um það spá, hvernig þetta kynni að verða. Það er satt, að þessi möguleiki er til. Og það er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að allillt getur verið að komast framhjá honum. En í þessu tilfelli er þó á það að líta, að sveitarfélögin eiga forkaupsrétt að þeim jörðum, sem seldar verða. Ef því um óeðlilega lágt verð er að ræða, þá getur sveitarstjórnin notað sér það og keypt þær jarðir, sem seldar eru, til hagsmuna fyrir sveitina eða þá sveitunga sína, sem þurfa jarðnæði. Ég er því ekki hræddur um, að mikið yrði að þessu gert. Í flestum tilfellum mundi verða um algerlega hreina sölu að ræða. Hv. þm. bar þetta saman við húsaleigulögin. Það er rétt, að eitthvað var farið í kringum þau lög, en þó undarlega lítið.

Þá var hv. þm. Borgf. hræddur um afskipti ríkisins af Skeiðaáveitunni. En það er alveg ómögulegt að hugsa sér þessi afskipti ríkissjóðs, nema um þetta séu settar reglur, sem bændum sé skylt að fylgja árlega og litið er eftir að gert sé. Þetta er í raun og veru hið sama og gildir um aðrar framkvæmdir í landinu, og sem hefir gefizt vel. Hvers vegna er þá ekki líka sjálfsagt, að vel sé litið eftir þessu meðan það er á gróðrarstigi? Hér eiga þó margir hlut að máli. Og því fleiri, sem eiga að sjá um viðhaldið, því meiri hætta er á, að það verði vanrækt af einhverjum. Slíkt viðhald er oft lítið verk, ef árlega er við gert það, sem bilar. En þegar farið er að trassa hlutina, þá getur svo farið, að viðhaldið verði mikið og til óþrifa fyrir fyrirtækið. Það er rétt hermt í skýrslu n., að enn er ógert allmikið af flóðgörðum, eða um 1/8. Ennfremur er þarna mikið ógert af ýmsu öðru, sem nauðsynlega þarf að gera, en bændur hafa enn ekki efni á að gera. Þannig þyrfti að girða öll slægjulönd af. Þau eru þarna bæði mikil og góð, en liggja innan um beitilöndin. Fénaður gengur því á þeim á vorin. Sauðféð dregur þarna upp rótina á vorin og stórskaðar slægjulöndin. Það er því nauðsynlegt vegna sprettunnar að girða af og friða slægjulöndin.

Þarna er líka um fleiri sameiginleg verk að ræða, sem, sjá þarf um, að séu unnin. Eitt, sem þarf að gera, er að slétta áveitulöndin. Það gerist með haustáveitum. Vatnið er látið standa á yfir veturinn. Við þetta, sléttast löndin. Þessu þarf að stjórna, annars er hætt við, að það geti farizt fyrir. Ég býst við, að hv. þm. Borgf. þekki útúrboringshátt sumra manna, sem geta stórspillt góðu fyrirtæki. Það er því varla of mikið, þó á áveitubændurna sé lögð þessi kvöð, þegar jafnmikið er fyrir þá gert. (PO: Sú skylda hvílir þegar á þeim með samþykkt um áveituna!). Það er aðeins innanhrepps samþykkt, en ekki utanaðkomandi skipun, sem er tryggari. Mér heyrðist hv. þm. Borgf. taka það illa upp fyrir n., að hún segir í áliti sínu, að „aðalorsökin liggur í mjög greiðum aðgangi að lánum“ fyrir skuldum bænda á þessu svæði. Þar er líka bent á, að skuldirnar stafi að nokkru leyti af fóðurbætiskaupum veturinn 1919–1920. En hin greiðu lán eru þó aðalorsökin. Sumstaðar sést naumast, til hvers lánunum hefir verið varið. Sum hafa verið notuð til of dýrra ábýliskaupa, sem svo er ekki hægt að standa í skilum með. Svo er a. m. k. um 4 jarðir. Annars þarf þetta varla meiri sönnunar við. Hið sama hefir gilt þarna og yfirleitt var um aðra atvinnuvegi á þessum lággengistímum og sem áttu greiðan aðgang að lánum. Bændur þarna hefðu orðið að vera miklu hyggnari en menn voru almennt þá, ef þeir hefðu siglt klaklaust framhjá þeim skerjum. Ég hefi áður borið þessa áveitu saman við túnrækt, og miðað við túnrækt er þarna ekki um mjög gífurlegan kostnað að ræða. Samkv. jarðræktarlögunum eru greiddar á þriðja hundrað kr. fyrir hvern fullræktaðan ha. En þarna hefir áveitukostnaðurinn orðið 140 kr. á ha. Og af því hefir aðeins ¼ hluti verið greiddur. Er því ekki um gífurlegt framlag að ræða, ef áveitan gefur þá raun, sem von er um.

Ég hefi svo enga ástæðu til að taka fleira fram um þetta. Hv. þm. Borgf. hefir komið fram með sínar brtt. af því hann vill losa bændur þarna undan öllum kvöðum vegna áveitunnar. Ég er sammála honum um, að það væri bezt. En það er annað, sem líka þarf að gefa gætur að. Það er annað fyrirtæki, sem líkt er ástatt með. Það er Flóaáveitan. Hún kemur á eftir. Og þegar um svo mikið er að ræða, þá er full ástæða til að fara varlega og gæta hófs og leysa málið þannig, að báðir megi vel við una. Annars fer allt út í öfgar. Samkv. till. hv. þm. Borgf. eiga þeir að borga 65 þús. kr. í eitt skipti fyrir öll. En hvers vegna mega þeir ekki greiða meira, ef jarðirnar hækka í verði vegna áveitunnar og fólkinu fjölgar um helming? Þá skapast líka verðmæti. Þessar kvaðir eru heldur ekki lagðar á nema til 50 ára. Að þeim tíma liðnum eru bændur lausir við þær. Bændur áveitusvæðisins hafa tekið þessari úrlausn vel og tjáð sig reiðubúna til að greiða skatt af þeirri hækkun, sem verður.