17.03.1930
Neðri deild: 55. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það eru aðeins örfá orð til að svara hæstv. forsrh. og hv. 3. þm. Reykv. Hæstv. forsrh. tók undir með hv. 3. þm. Reykv., að það væri til að skaða veðdeildina, ef lánið samkv. till. minni yrði gefið eftir. En sami hæstv. ráðh. sagði þó, að gerð hefði verið ráðstöfun til þess, að varasjóður 1. fl. veðdeildar rynni til Ræktunarsjóðs. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh.: Ef það skerðir traust á veðdeildinni, að gefnar séu eftir samkv. till. minni 65–66 þús. kr., mun það þá ekki enn frekar skerða traustið, ef varasjóðurinn, sem nema mun 122 þús. kr., er látinn renna til óskyldrar stofnunar? Mér finnst sama, hvort Alþ. heldur gerir ráðstafanir til að veðdeildin gefi eftir af skuld, eða að varasjóður sé látinn hverfa til annara. Það er þá sjálfsagt hætta í báðum tilfellum, og hún þeim mun meiri, sem um hærri upphæð er að ræða. Hér er heldur ekki gengið inn á nýja braut, því Alþ. er búið að ráðstafa varasjóðnum áður.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að stj. hefði heimild til að gefa bændum eftir af áveitukostnaðinum, og hann taldi, að í nál. mínu fælist ávítun til sín fyrir að hafa ekki gert þetta. En það er ekki rétt. Ég skýrði bara frá því í nál., að stj. hefði þessa heimild. Og þótt Skeiðaáveitun. bæri fram till. um að gera það á þennan sérstaka hátt, þá var stj. alls ekki bundin við að fara eftir því. Hún gat farið þá leið, er hún vildi, án þess að bera það á ný undir Alþ.

Hæstv. ráðh. sagði viðvíkjandi vatnsskorti áveitunnar, að úr því hefði verið bætt á síðastl. sumri. En ég vil benda á það, að álit n. er undirskrifað 2. jan. síðastl., og eru því þau ummæli, er hún hefir um vatnsskortinn þarna, miðuð við núverandi ástand.

Ég skal svara bæði hæstv. atvmrh. og hv. frsm. meiri hl. viðvíkjandi því, er ég sagði um, að ríkið tæki á sig nokkurn kostnað vegna þessa eftirlits, að þá tel ég engan vafa á, að þetta álit mitt sé rétt. Mér finnst líka óþarft að taka þetta í frv., því vitanlega eiga Skeiðamenn sem aðrir bændur aðgang að leiðbeiningum trúnaðarmanna Búnaðarfélags Íslands.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að n. hefði verið uppálagt að gera till. um, hvað bændum teldist fært að bera af áveitukostnaðinum. Mínar brtt. byggjast einmitt á áliti n. að þessu leyti og eru því ekki í neinu ósamræmi við till. hennar.

Hv. frsm. meiri hl. talaði um, að þetta myndi ekki vekja neitt fordæmi, þó bændum væri gert að skyldu að leita nauðasamninga um skuldir sínar, því það væri gert undir þeim alveg sérstöku kringumstæðum, að verið væri að létta af þeim skuldum vegna áveitunnar. En ég vil benda hv. þm. á, að ekki þarf að leita eftir slíkum tækifærum sem þessu, því slík tækifæri eru nóg til. Það var náttúrlega alveg rétt, að þetta stafar af sérstökum óhöppum. En það er nú yfirleitt svo, að erfiðleikar og þrengingar, sem borgarar þjóðfélagsins komast í, stafa af ýmiskonar óhöppum.

Viðvíkjandi því, sem ég sagði um verðhækkunarskatt, að það væri ekki mikið að hafa upp úr honum að því leyti, sem hann kæmi fram sem söluskattur á jarðirnar, þá sagði hv. þm., að hreppsn. hefðu alltaf forkaupsréttinn og gætu því gripið inn í, ef jarðarverð virtist vera óeðlilega lágt. En hv. þm. gleymir því, að hér eiga allir hreppsbúar óskilið mál. Verðhækkunarskatturinn hvílir á flestum jörðum, og þá hreppsnefndarmanna og oddvita líka. Það er því sameiginlegt hagsmunamál allra hreppsbúa að komast undan verðhækkunarskatti. Er því í þessu falli engin minnsta trygging í forkaupsrétti hreppsnefnda.

Hvað eftirlit með Skeiðaáveitunni snertir vil ég enn minna á það, að ég tel ástæðulaust að efast um, að bændur á þessum slóðum eins og annarsstaðar kunni að meta sína hagsmuni, og muni, svo sem þeir hafa getu til, halda við og endurbæta þessi mannvirki án þess að ríkissjóður standi með reidda svipu yfir höfðum þeirra. Ég álít hitt ætti að nægja, að bændur fengju í þessu efni nauðsynlegar upplýsingar hjá Búnaðarfélagi Íslands.

Hv. þm. fékkst nokkuð um það, að ríkissjóður heimti nokkuð af sínu, með því að bændur greiddu skatt af verðhækkun eigna þeirra. En ég hefi bent á, að þær leiðir, sem hv. meiri hl. fer til þess að ná þessum skatti, eru ólíklegar til nokkurra verulegra tekna fyrir ríkissjóð. En hinsvegar er með þessu gengið inn á skattstefnu, sem ég tel óheppilega. Og þegar þetta hvorttveggja leggst saman, þá byggi ég vitanlega þar á þá ályktun, að þetta beri að fella niður.

Hv. þm. minntist á Flóaáveituna og kvað nokkrar líkur til, að það myndu verða forlög þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, að leita á náðir ríkissjóðs á líkan hátt og Skeiðamenn. Ég vona, að það fari ekki svo. En ég vil þó benda á, að ef svo fer, þá stendur allt öðruvísi á um Flóaáveitusvæðið, því að þar hefir ríkissjóður — að því er ég held — haft veð fyrir því, sem hann lagði fram fram yfir það, sem honum bar samkv. þeim lögum, er þar um gilda.

Ég hefi þá gert grein fyrir, hvað fyrir mér vakir, og læt þetta nægja að sinni.