12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Fyrir rúmum áratug gerðu menn sér mjög álitlegar vonir um árangur af því að veita stóránum á engin þarna á Skeiðunum, og var leitað til Alþingis um fjárframlög. Áður hafði farið fram áætlun um kostnað, og samkv. henni gerðu menn sér vonir um, að fást mundi nóg vatn á svæðið fyrir 103 þús. kr. Þingið mun hafa lofað að leggja fram ¼ kostnaðar við verkið og auk þess allan kostnað fyrir Ólafsvelli og kot þar í kring, en það eru kirkjujarðir í eigu ríkisins. Því miður hefir reynslan orðið hörmuleg. Það hefir komið í ljós, að þrátt fyrir það mikla verk, sem unnið var á árunum 1917–1923, hefir ekki tekizt að ná valdi á vatninu eins og þurfti, og varð því að leggja í allmikinn nýjan kostnað til að ráða bætur á því. Niðurstaðan er, að fyrsta áætlunarupphæðin hefir ferfaldast, orðið yfir 422 þús. kr. Ég býst við, að margar orsakir hafi verið þarna að verki. Mest sú, að verkið var unnið á þeim tíma, sem dýrastur hefir verið í okkar sögu. En nokkuð má því um kenna, að málið var ekki svo undirbúið frá verkfræðinganna hálfu sem skyldi. En ég skal ekki fjölyrða um það nú. Hitt, sem við okkur blasir, en sú grálega reynsla, að notin hafa ekki orðið þau, sem til var ætlazt, en kostnaður margfaldur og alveg óbærilegur fyrir Skeiðamenn. Í stað þess, að áveitan átti að verða öflug lyftistöng fyrir sveitina, hefir hún orðið henni til fjárhagslegrar tortímingar.

Skeiðámenn gerðu árið 1917 samþykkt með sér um niðurjöfnun kostnaðar og tóku lán, sumpart úr viðlagasjóði, en þó aðallega í veðdeild Landsbankans. Nú í árslok 1929 hvílir á þeim 287 þús. kr. skuld vegna áveitunnar. En auk þess hefir þessi sveit safnað öðrum skuldum svo afskaplega, að ótrúlegt þykir. Á þessu svæði, sem ekki er stórt — þar búa 29 bændur — eru þessar aukaskuldir yfir 190 þús. kr. Líklega stafa þær mest af harðindunum og dýrtíðinni kringum 1920. Alls hvíla þess vegna um 480 þús. kr. skuldir á sveitinni. Eignir virðast ekki vera miklar á þessu svæði. Samkv. skattskrá 1928 eru þær 341 þús. kr., og virðast þá um 140 þús. kr. vera af skuldum fram yfir eignir í þessari litlu sveit. Afleiðingin af þessu er sú að þeir hafa ekki einu sinni getað greitt vexti af þessum lánum nú um nokkurn tíma, og ástandið virðist vera mjög bágt. Það er ekki sjáanlegt, að þeir gætu nokkurn tíma greitt þessar skuldir, og eru þá engin önnur úrræði en að ríkið neyðist til að taka þær að sér. Það er að vísu nokkuð hart, því að ríkissjóður hefir tekið þátt í öllum kostnaðaraukanum að sínum lofaða fjórðungi og er búinn að leggja fram 135 þús. kr. alls. En milliþinganefndin, sem sett var til að rannsaka þetta mál, hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að helzta tilraunin til þess, að bændur á svæðinu geti eitthvað bjargað þessu máli sjálfir, sé, að ríkið létti alveg af þeim þessum skuldum í bili. En hún hugsar aftur til þess, að eftir 1940 verði lagður á þá verðhækkunarskattur af jörðunum og söluskattur, ef söluverð fer fram yfir fasteignamat við eigendaskipti. Og auk þess eiga þeir að greiða á árunum 1940–80 2% á ári af höfuðstóli þeirra lána, sem nú hvíla á þeim. Verðhækkunarskatturinn á að nema 10% af verðauka jarðanna frá því verði, sem þær eru metnar með í jarðabókinni frá 1921, og kemur fyrst til greina að loknu jarðamati 1940, en síðan við hvert nýtt fasteignamat við hver tíu ára skipti fram yfir 1980. Söluskatturinn nemur 20% af gróða við sölu, og gilda þau ákvæði til ársloka 1980. Það er ekki gott að segja, hvað ríkið getur fengið aftur með þessu. En önnur leið er ekki líklegri, eins og nú stendur, til þess að gera hvorttveggja, að bjarga sveitinni frá tortímingu og skapa einhverja von um, að ríkið kunni að fá eitthvað af þessu aftur. Af þessum ástæðum sá fjvn. ekki annað liggja fyrir en að samþykkja frv., þó að hún sæi, að þetta væri hreinasti neyðarköstur fyrir ríkið.