12.04.1930
Efri deild: 76. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

13. mál, Skeiðaáveitan o.fl.

Jón Þorláksson:

Eins og menn muna, útvegaði landsstjórnin sér með ákvæði í fjárl., sem samþ. voru á síðasta þingi, leyfi til að ákveða upp á sitt eigið eindæmi, hvern þátt ríkissjðður tæki í kostnaði af Skeiðaáveitunni. Ég mótmælti því þá, að þetta væri dregið úr höndum Alþingis og áskilið landsstj. einni. Víst er það góðra gjalda vert, að hæstv. stj. hefir tekið þær aðfinnslur til greina og ekki notað sér leyfið, heldur lagt málið fyrir þingið eins og henni bar. Um efni málsins hefi ég ekki mikið að segja. Það er auðséð, að Skeiðahreppur á í erfiðleikum út af þessu, ekki svo mjög af því, að áveitan hafi brugðizt réttmætum vonum. Að vísu þurfti nokkrar endurbætur til þess að tryggja nóg vatn. En kostnaður af því varð ekki mjög mikill. Hitt var höfuðóhappið, að verkið var unnið á dýrasta tíma, svo að það varð fram undir þrefalt dýrara. (JónJ: Ferfalt). Það varð nærri þrefalt dýrara en áætlað var. Ég vil taka tækifærið til að sýna, að í þeirri sundurliðun kostnaðar af áveitunni, sem gerð er í aths. við frv., þar sem skýrt er frá framkvæmd áveitunnar, eru upphæðir, sem öllum kemur saman um, að séu óviðkomandi því, sem samkv. venju er tekið með í áætlanir verkfræðinga. Það eru sex fyrstu liðirnir í því, sem kallað er ófyrirséð útgjöld, og eru það afföll af verðbréfum, annar kostnaður við lántökur, forvextir af víxlum, vextir frá lánadegi til júní 1923, afborganir af lánum á sama tíma, og loks annar kostnaður við afborganir og lánagreiðslur. Þessir liðir nema samtals 92 þús. kr., og sé það dregið frá 422 þús. verða eftir 330 þús. kr. Það er ekki alveg þreföld áætlunarupphæðin, ef seinni viðaukar eru teknir með, eins og hv. frsm. réttilega gerði. Þó að þessi kostnaðaráætlun hafi aðeins fylgzt nokkurn veginn með almennu verðhækkuninni, er samt auðséð, að þetta er of þungbært fyrir Skeiðahrepp.

Ekki er annars kostur fyrir mig en að greiða atkv. með þessu frv., þó að ég sé ekki ánægður. Því að mér finnst milliþinganefndin hafa gert þetta spursmál allt of flókið og vafstursmikið með sínum víðtæku till. til að ná inn einhverri smáupphæð upp í þetta, sem ríkissjóður þarf nú að kosta til. Það er tvennskonar verðaukaskattur, sem ákveðið er, að borga skuli ein 50–60 ár fram í tímann, og þar fyrir utan nokkur áleg greiðsla. Mér finnst það stinga ákaflega mikið í stúf, hve þetta er vafstursmikið, þegar litið er til þess, hve léttúðarlega hefir verið farið á öðrum sviðum með stærri greiðslur úr ríkissjóði. Mér er ekki grunlaust um, að sumir muni líta svo á, að þegar kemur að framkvæmd þessarar lagasetningar, þá þyki hún of flókin og verði að breyta henni.

Ég get vel greitt atkv. með frv. nú eins og það er, enda er enginn kostur á að koma með svo margar brtt., sem þörf væri á til þess að koma málinu í sæmilega einfalt og óbreytt horf.

Þá vildi ég benda á, að ef landbúnaður á Suðurlandi annars á nokkra framtíð, þá er það hreint ekki útilokað — og meira að segja líklegt —, að raunveruleg útgjöld ríkissjóðs af þessu verði engin, þau fáist öll endurgreidd með vöxtum, ef þessum lögum á annað borð verður hlýtt eins lengi og þau gera ráð fyrir. Því að ekki þarf mikinn verðauka á jörðum til þess, að hann vinni upp á móti kostnaðinum og skattur af honum vegi á móti árlegum afborgunum ríkissjóðs. (JónJ: Það þarf mikið til). Þetta er mikið land að flatarmáli. Ef menn hafa annars trú á, að landið byggist með býlum, sem nytji mest eða eingöngu ræktað land, er ekki hægt að segja, að það sé ólíklegt, að verðhækkunarskatturinn nægi til að inna af hendi greiðslur þessara lána. En hitt er aftur annað mál, að ef verðhækkunargjöldin fara að nema verulega miklum upphæðum, þá er ekki víst, að menn uni því, að þau séu látin standa óbreytt.