25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi aðeins farið lauslega yfir frv. og er því ekki viðbúinn að ræða það nákvæmlega. En í II. kafla þess finnst mér þó vanta ákvæði, er ég vildi benda á.

Þegar refir eru seldir erlendis, er jafnan látið fylgja vottorð, er sýni hér um bil, hversu gamlir þeir eru, t. d. 3 mánaða, missirisgamlir, eins árs, tveggja ára o. s. frv. Vottorð um þetta er nauðsynlegt vegna sölunnar, og ætti því að standa ákvæði um það í frv. Þó mun ekki nauðsynlegt að tilgreina annað um aldur dýranna héðan en hvort þau eru á 1. ári eða eldri. Þá þarf einnig vottorð um það, hvort dýrið er fætt í fangelsi eða hefir fæðzt villt.

Þá sé ég heldur eigi, hvaða ástæða er til að banna útflutning á fallegum hvítum yrðlingum. Hér er aðeins leyfður útflutningur á mórauðum. Ég veit ekki, hvaða ástæða er til þess að banna útflutning á þeim hvítu, og ég held, að ekki sé rétt að gera það, en séu ástæður fyrir þessu, þá vænti ég að heyra þær.

Ég vildi aðeins beina þessum atriðum til hv. landbn., í því trausti, að hún taki þau til athugunar.