25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Bjarni Ásgeirsson:

Það virtist koma fram hjá tveim hv. þm., að þeir teldu ekki þörf á lögum um þetta efni, vegna þess að sýslunefndum væri heimilt að gefa út reglugerðir um þetta, hverri í sínu héraði. En þetta er ekki rétt. Til þess að þær reglugerðir verði að gagni, þá þurfa þær að hafa stoð í lögum. Lagagerðin verður því að vera grundvöllur sýslusamþykktanna. En þau lög, sem sýslurnar hafa nú á að byggja í þessum málum, eru orðin mjög á eftir, tímanum.

Þá kem ég að öðru atriði, sem valdið hefir ágreiningi, nefnilega hver hafi rétt til grenja, sem finnast á einstakra manna löndum. Það þarf því að kveða skýrt á um það í lögum, hvort landeigendur eigi þann rétt eða hrepparnir. En ég sé á frv., að það gengur út frá rétti landeigandans, þar sem það ákveður honum hálfan arð af grenjavinnslunni. Ég álít vel farið, að þessu er slegið föstu, þar sem ég get ekki séð, að hægt sé að taka af landeigendum þessi hlunnindi á jörðum þeirra fremur en önnur. Hitt er ekki ósanngjarnt, að hreppunum, sem skyldan hvílir á að hafa umsjón með grenjaleitunum, og vitanlega bera af því kostnað um leið, sé áskilinn nokkur arður af vinnslu grenjanna, þegar hann verður. Má því vel ræða um þá skiptingu, sem frv. gerir ráð fyrir á milli þessara aðila.

En að fara að ákveða laun grenjaskyttnanna með lögum, álít ég ekki ná neinni átt. Verðlag það, sem nú er á tófuyrðlingum, getur breytzt svo, t. d. lækkað, að óhugsandi sé að fá grenjaskyttur með þeim kjörum, sem lögin ákveða, og er þá í óefni komið, ef lagabreyt. þarf til, að sveitirnar geti samið um grenjaleitir.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að n. sú, sem þetta frv. fær til meðferðar, taki þær bendingar til greina og athugunar, sem þegar hafa komið fram við þessa umr.