25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Ég vil byrja með því að spyrja hv. þm. Mýr., hvort hann hafi skilið það svo, að ég sé því mótfallinn, að sett séu heildarlög um þetta efni, eða teldi það ástæðulaust, (BA: Já, en það kann að vera misskilningur). Ég sagði einungis, að lagafrv. það, sem hér er um að ræða, tæki í engu fram núgildandi lögum um þetta efni, en það er allt annað. Veit ég að hv. þm. er fús til að taka þessa leiðréttingu til greina.

Hv. 1. þm. Árn. hélt því fram, að í 3. gr. væru ákvæði, er kæmu í veg fyrir að slíkt gæti komið fyrir, sem ég nefndi dæmi til. En við nánari athugun dylst engum, að ráðstafanir þær, er 2. gr. gerir ráð fyrir, eru enganveginn svo einhlítar sem skyldi. Hv. þm. hefir sjálfur viðurkennt það við mig. Skortir því mikið á, að dæmi mitt sé fyrirbyggt með ákvæðum þessa frv.

Hv. þm. kvað sér ekki kunnugt um, að menn hefðu nokkru sinni „stolið“ yrðlingum. Ég vil nú efa, að þetta orðalag eigi allskostar við, því tæplega myndi sá maður teljast þjófur eftir núgildandi lögum, sem ynni gren og tæki þar yrðlinga. Hér er nefnilega um skaðræðisskepnur að ræða og lagt fé til höfuðs þeirra. Sá maður getur því varla þjófur talizt, sem tileinkar sér þessi ófriðhelgu dýr. Ég held, að hv. þm. hefði ekki átt að nota svona stór orð.

Úr því að farið er að ræða þetta mál strax við fyrstu umr., þykir mér rétt að drepa á nokkra annmarka á frv., enda þótt það eigi betur við við 2. umr. M. a. vantar skýrt og afdráttarlaust ákvæði í frv. um, að engir aðrir en ákveðnir aðilar megi ráðstafa grenjavinnslu. Ennfremur vantar ákvæði, er taki yfir það tilfelli, er t. d. tveir hreppar eða fleiri eiga afréttir saman eða fleiri hreppar hafa sameiginlegan fjallskilasjóð, er ber kostnað af grenjavinnslunni. Vitanlega verður einn og ákveðinn aðili að hafa framkvæmd grenjavinnslunnar í hverju einstöku tilfelli. Ef það er tilætlunin með þessu frv. að skapa heilsteypt lög um þessi efni, þá er öldungis einsætt, að kveða verður á um þetta atriði. Ákvæði 1. gr. lúta nánast að framkvæmd laganna, en í greininni felst engin lausn á þessu spursmáli.

Í 4. gr. er skorið úr rétti einstakra manna til grenja, og er hann viðurkenndur, eins og rétt er. En álitamál er það þó, hvort rétt er að viðurkenna hann á þennan hátt, enda bera hrepparnir mjög skarðan hlut frá borði samkv. frv. Í 4. gr. er gert ráð fyrir, að landeigandi hljóti helming hagnaðar af greni hverju, og samkv. 5. gr. rennur hálft andvirði veiðinnar til skotmanns, ef hann vinnur gren að fullu. M. ö. o.: Hrepparnir borga allan kostnað af grenjavinnslu, en bera á hinn bóginn lítið eða ekkert úr býtum. Kostnaður hreppanna er margskonar og oft töluvert mikill, t. d. verður að greiða vökumönnum kaup o. s. frv. (JörB: Það er hálfur hagnaðurinn, sem landeigandi fær, en ekki hálft andvirði dýranna). Veit ég vel. Einnig verður að greiða þeim, er gren finnur, aukaþóknun samkv. 3. gr. Það sýnist því sízt ósanngjarnt, að þeir, sem sjá um grenjavinnslu og bera þunga af henni, hafi meiri hagnaðarhluta, ef hagnaður er nokkur, heldur en frv. ætlast til.

Að lokum skal ég drepa á það, er segir í 2. gr. síðast, að skotmaður skuli ráða vökumann. Þetta er vafalaust mjög viðsjárvert, enda hefir sá kvittur komið upp á síðustu árum, að skotmenn leggi gjarnan aðaláherzlu á að vinna yrðlinga, en sleppa fullorðnu dýrunum. Þarf hér að búa svo um hnútana, að slíkt sé fyrirbyggt. Væri öruggara, að viðkomandi hreppsnefnd réði einnig vökumann, enda verður ekki séð, að neitt mæli gegn því sérstaklega. Ætti hv. n. að taka þetta til yfirvegunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vil skora á hv. n. að ganga svo frá réttarákvæðum frv., að viðunandi megi teljast.