25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að segja örfá orð út af því, sem hv. þm. Mýr. sagði í síðara skiptið. Hv. þm. hélt því fram, að ég hefði ekki sagt allan sannleikann í þessu máli. Ég tók það aðeins fram, að eins og nú stæði væri sýslunefndum heimilt að semja reglugerðir um grenjavinnslu innan vébanda laganna. Ég sagði þetta, og ekkert annað en þetta. Og þetta kalla ég einmitt að segja allan sannleikann. En hafi það komið fyrir, að reglugerð hafi verið samþ., sem fer að einhverju leyti í bága við lögin, þá er reglugerðin vitanlega ógild. Og þótt þetta frv. verði gert að lögum, þá hygg ég, að ekki verði loku fyrir það skotið, að einhverjar sýslunefndir kynnu að heimta eitthvað, sem ekki væri löglegt. En þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um það, að hverju leyti þessi reglugerð, sem hv. þm. talaði um, hefir farið út fyrir valdsviðið, þá mun ég ekki ræða það mál meira fyrr en þær upplýsingar koma fram frá hv. þm.