25.01.1930
Neðri deild: 5. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins láta það koma fram, að heyrzt hafi tvær mismunandi raddir um það, hvort rétt sé að hætta við að eitra fyrir refi. Ég vil, áður en farið er að bera fram till. um að banna það, að menn hugsi vel um það, hvaða dauðdaga sauðkindin fær, sem verður þessum vargi að bráð. Áður en hún lætur lífið, verður hún oft að þola hinar mestu hörmungar. Vargur þessi hefir oft þá aðferð, að hann bryður snoppuna á sauðkindinni, sýgur úr henni fylli sína af blóði og skilur hana eftir þannig á sig komna, að hún getur ekki dregið sig að mat, né svalað þorsta sínum. Þannig lagað dregst hún upp. Ég hygg, að sá dauðdagi sé ekki kvalaminni heldur en þótt tófan sé drepin á eitri.

Út af því, sem hv. 1. þm. Árn., sagði um það, að launakjör skotmanns, þau er frv. gerir ráð fyrir, væru næg hvöt fyrir hann að fullvinna grenin, vildi ég aðeins skjóta því til hans, að sá möguleiki er til, að yrðlingar lækki í verði, svo arðurinn verði lítill, eða borgi jafnvel ekki sanngjarnan kostnað við vinnslu. Hvernig á þá að fara að? Á þá að leggja vinnsluna niður, ef enginn fæst til að framkvæma hana fyrir þau kjör, sem frv. gerir ráð fyrir? Finnst mér full ástæða til að hafa þetta óbundið og get ekki séð, að það þurfi að koma að klandri fyrir því.