31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

1. mál, fjárlög 1931

Magnús Torfason:

Mér þótti leitt að geta ekki hlustað á alla ræðu hv. þm. Dal. Ég varð að bregða mér frá sem snöggvast. Mér er hreinasta nautn að heyra þennan hv. þm. tala. Og það er af því, að mér finnst hv. þm. alltaf meira og meira vera að líkjast síra Sigvalda, langföður sínum úr „Manni og konu“. Mér finnst presturinn og prófasturinn úr þessum forföður vera alltaf að komast lengra og lengra uppeftir hv. þm. Honum lærist þetta betur og betur, og mér virðist honum takast hlutverkið mæta vel. Hv. þm. er líka gamall leikari. (SE: Hvenær hefi ég leikið?). Mig minnir að hann væri að leika ráðherra hérna á árunum. En ég vissi, að honum þótti afargaman að vera kallaður „hans hágöfgi“.

Um leið og ég kom inn úr dyrunum áðan, heyrði ég hv. þm. segja, að hann væri skyggn á einstaka augnablikum. Vel má vera, að hv. þm. hafi þennan eiginleika. En hann hefir þá aldrei komið honum að liði, þegar verulega hefir á reynt. Hv. þm. þóttist hafa séð danska hönd yfir kollinum ú mér. Ég trúi þessu vel. Hv. þm. er nú einu sinni skáld og á sjálfsagt gott með að gera skáldskapinn að veruleika. Og þegar hann er lengi búinn að blína á einhverja hugsjón, þá verður hún að virkileika fyrir honum. Enda hefir það oft komið í ljós, að hv. þm. á erfitt með að meta hið rétta viðhorf hlutanna. Hv. þm. vildi gera mikið úr þessu sjálfstæðisnöldri sínu undanfarin ár. En ég geri lítið úr því. Þetta hefir allt verið glamur, að undanteknu þessu eina, sem allir voru sammála um: uppsögn Sambandslagasamningsins þegar samningstíminn er á enda. Hitt eru allt smámunir, sem hv. þm. hefir reynt að kemba upp og alveg ósamboðið sjálfstæðu og fullvalda ríki. Ef eitthvað væri að Dönum að finna í framkvæmd samningsins, þá er ekkert gagn að snakka um það. Ef einhverjir gallar kæmu í ljós, þá á að fá þá leiðrétta í gegnum utanríkisnefndina. En nú stendur svo á, að hv. þm. hefir átt sæti í þessari n. Hefir hann því haft ágætt tækifæri til að berjast fyrir því þar, sem til gagns mætti verða fyrir landið, en hann hefir bara ekki gert hað. Ég hefi ekki heyrt, að hv. þm. hafi komið með eina einustu till. í þessa átt. Hefi ég þó alltaf hlerað vandlega eftir því, sem gerzt hefir í þeim málum.

Hv. þm. vildi segja, að íhaldsmenn — ég bið hv. þdm. að taka eftir því, að ég segi íhaldsmenn en ekki Íhaldsflokkur, sem hefir aðra og víðtækari merkingu — hefðu sett sjálfstæðismálin efst á dagskrá. Ég hefi nú ekki orðið var við þetta síðan Íhaldsflokkurinn skipti um nafn. Þeir hafa ekkert slíkt mál með höndum, og ekkert slíkt mál getað helgað sér. Þeir hafa að vísu um einstök atriði, sem beint eða óbeint hafa snert okkar sjálfstæðismál, lagt sinn skerf fram, ásamt öðrum. Því ber ekki að neita. En hvað þessi mál snertir, þá held ég fast við þann skilning, er ég hélt fram og skýrði í minni fyrri ræðu, að við eigum að taka hvert atriði, sem þarf umbóta við, út af fyrir sig og halda fast á því og slindrulaust, án þess að vera með almennt glamur.

Hv. þm. hefir eflaust heyrt illa mína fyrri ræðu, því hann fór ekki rétt með neitt úr henni, nema eina tilvitnun í gamlar ritningar, sem ég þó gaf honum upp sérstaklega. Hann heyrði ekki heldur þessa tilvitnun, er ég flutti ræðu mína. En svo hafði ég hana upp fyrir honum á eftir, uns mér að lokum tókst að láta hann skilja hana.

Þá var hv. þm. eitthvað að rugla um það, að ég hefði sagt, að ekki hefði átt að setja 5 ára búsetuskilyrðið í stjskr. Ég er nú hissa á þessu. Ég var í stjórnarskrárnefnd, átti töluverðan þátt í samningu hennar og greiddi atkv. með henni. Ég sagði að þetta ákvæði hefði átt að vera í sambandslögunum en ekki í stjórnarskránni, og að þarna hefði verið farið í kringum Dani með þessu ákvæði stjskr. (SE: Þarna kemur viðurkenningin!). Það er ekki hægt að neita því, að þeir, sem settu þetta skilyrði í stjskr., voru að fara í kringum Dani. Þáverandi forsrh. leit líka svo á og neitaði því að skrifa undir stjskr. En að ég gat verið samþ. þessu ákvæði er ekki sambærilegt, því ég og hv. þm. N.-Þ. höfðum greitt atkv. móti sambandslögunum. Við vorum því ekki bundnir við ákvæði sambandslagasamningsins, og gátum því greitt frjálst atkv. um þetta. Hv. þm. viðurkenndi það nú, að Danir hefðu ekki misnotað rétt sinn hingað til. Með þessu viðurkenndi hann mína afstöðu, því fyrst svo er, þá er líka skylda okkar að sýna þeim alla kurteisi. Í gamla daga, þegar sambandið við Dani var virkilegt deiluefni, þá klingdi við jafnan orð eins og „danska mamma“ og þessháttar. Ég hefi fráleitt verið saklaus af að taka mér slík orð í munn þá. En slík orð eiga ekki við nú. Og þau má ekki viðhafa fremur um Dani en t. d. Englendinga eða hvert annað ríki, sem sýnir okkur fulla vinsemd. Þetta er sá háskalegi misskilningur hjá hv. þm. Eða þá að hann kærir sig ekki um að skilja þetta rétt. Það er allt annað, hverju haldið var fram áður, eða hverju sæmilegt er að halda fram nú. Það var ekki hægt að segja, að við værum sjálfstætt ríki t. d. á einveldistímunum eða á einokunartímunum. En þennan rétt vorum við að sækja til Dana. Við erum ekki búnir að fá hann að fullu enn í okkar hendur. En við getum fengið hann á ákveðnum tíma og höfum samning um það. Á meðan er ekki annað að gera en að sjá um, að sá samningur sé haldinn. Fyrir því er allt, sem hv. þm. hefir sagt, ekki einungis misskilningur, heldur örþrifaráð til að snúa útúr og bera fram og búa til tylliástæður, þegar engum veruleika er til að dreifa.

Ég tók það fram, að ég væri ekki hræddur við jafnréttisákvæðið, eða að Danir misnotuðu það. Hv. þm. fór að tala um fiskiflota Dana. Ég hélt ekki, að jafnrétti okkar stafaði hætta af því. Ef Danir fara að koma sér upp fiskiflota, þá er enginn vafi, að til þess verða þeir að nota botnvörpunga og þeir mega vitanlega ekki koma inn fyrir landhelgina frekar en okkar eigin eða annara þjóða botnvörpungar. En ég hefi nú enga trú á því, að Danir fari að koma sér upp fiskiflota, sem sé að nokkru gagni. Fiskiveiðar eru fjarlægar þeim, og þær, sem eru, eru allt öðruvísi en okkar. Danir sendu hér á árunum, ég ætla það væri 1907, þrjá til fjóra báta. Þeir ætluðu þá að vera svo góðir, að láta þessa báta kenna okkur fiskveiðar. En hvernig fór? — Jú, fyrirtækið tapaði öllu fé sínu á nokkrum mánuðum. Enda fóru bátarnir aldrei af stað á morgnana til fiskjar fyrr en skipshafnirnar voru búnar að eta góðan morgunverð með þremur snöfsum og nokkrum bjórum með. Slíku erum við nú ekki vanir Íslendingar!

Hv. þm. gerði mikið úr sinni frammistöðu, þegar sambandslögin voru samþ. Ég varð ekki mikið var við það. En hitt varð ég var við, að íslenzka flaggið hefir aldrei verið sett hærra á stöng en þegar þeir samningar byrjuðu. En raunin varð, að í verulegum atriðum komust þeir niður fyrir uppkastið 1908. Sum ákvæði voru þó góð, uppsagnarákvæðið t. d. En þó þótti mér of ríkt að heimta ¾ af ¾ allra atkv. á landinu til þess, að upp megi segja samningnum. Ég var smeykur við þetta ákvæði. Ekki af því að ég hræddist Dani. Nei, ég var hræddur við dönsku Íslendingana hérna heima. Þeir komu svo berlega fram í ljósið í öllum þeim samningaumleitunum. En því er betur, að smátt og smátt hefir fullveldistilfinningin orðið svo rík með þjóðinni, að ég held, að enginn muni héðan af ljá sig til þess hér að halda uppi danska málstaðnum. Eins og ég hefi tekið fram, met ég mikils uppsagnarfrestinn. Mér hefir því aldrei komið til hugar að gera lítið úr samningnum, hvað þá að nota hvert tækifæri til þess. Ég hefi setið hjá, eins og hv. þm. veit, þó að mér hafi mislíkað sumt í þessu masi, því að sumt af því er þó á viti byggt.

Hv. þm. Dal. fór að hafa upp eftir mér máltæki, en ekki gat hann haft það rétt eftir. Hann hélt mig hafa kallað sig „mestan í málum“, en ég sagði allt annað. Ég verð að telja það hreina og beina móðgun við mig, að honum skuli detta í hug, að ég hafi nokkurn tíma haldið, að hann væri mestur í einu einasta máli. Ég sagði, að hann væri mestur í málinu. Og það er bezt, að ég bæti nú við hinum helmingnum — eins og refurinn í rófunni. Ef hann skilur þetta ekki, þá furða ég mig ekki á því, þó að það fari að hafa áhrif, að hv. þm. er heiðinn. Ja, nú veit ég ekki, hvort hann skilur þetta, það er gamalt mál. Ég veit ekki til, að hann hafi staðfest skírn sína. Hann hafði eftir mér, að hann væri einangraður. Ekki sagði ég það. Hann er sannarlega ekki einangraður nú. En af því að hann var einangraður, datt hann í kjöltu annara. (ÓTh: Sumir hafa dottið harðar). Enginn vafi, að þeir hafa látið undir hann dúnsængur og önnur þægindi.

Þá getur hv. þm. aldrei stillt sig um að tala um það, að hann sé að vinna fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Við eigum ekki að nota nein orðatiltæki frá því, að við vorum undir Dani seldir. Hreinlegra væri að tala um sambandsslit, það er kjarni málsins. Út frá því sjónarmiði væri hv. þm. réttnefndur Slítandi. (SE: Þetta er ágæt fyndni). Þetta er gömul persóna í Íslendingasögum, sem svo hét.

Hv. þm. endaði með því að segja, að ég væri að skríða undir pilsfald dönsku mömmu. Ég get ómögulega bannað hv. þm. að segja þetta. En mér þætti gaman, ef hann gæti tilfært einhvern heimildarmann fyrir því, að ég hafi léð danska málstaðnum nokkurntíma fylgi eða veitt honum nokkra eftirgjöf um fullveldismál þjóðarinnar. Ég get sagt frá því í fæstum orðum, að ég átti talsverðar umræður um þau við suma stjórnmálamenn bana, og ég held, að þeir beri mér ekki það orð, að ég hafi skriðið undir pilsfaldinn.

Þá kem ég að bankamálinu. Orðin, sem ég var að tala um hjá hv. þm., þau minna mig á, þegar hann var að semja við Dani um lán Íslandsbanka. Hæstv. forseti óskaði eftir, að menn væru ekki að nota svona ljót orðatiltæki eins og að segja, að menn væru að skríða fyrir Dönum, og ég vil ekki heldur segja það. En ég held, að hv. þm. Dal. hafi leikið talsvert dátt við þá, klappað á öxlina á þeim og horft blíðlega inn í augu þeirra eins og ungu stúlknanna, og yfirleitt gert sig svo mjúkmæltan sem unnt var. Ég heyrði þetta í Danmörku í sumar. Það var vitanlega sagt á dönsku, og ég tek ekki upp nein orð. En ég vil benda hv. þm. á, að hann var sjálfur að kvarta yfir því, að íhaldsmenn hefðu ekkert að segja yfir nýja bankanum, stj. hefði þar öll völdin. Hvað sýnir greinilegar en þetta, að hér er ný stofnun?

Hiti er algengt, að nýr banki taki reitur gamalla og reyni að gera mat úr. Í því sambandi var hv. þm. að tala um, hvað bankinn ætti miklar eigur. En hann gleymdi hinni hliðinni. Það var eins og engar væru skuldirnar. (SE: Nei, ég tók þær með). Það þurfti að taka allt eins og það var. Það þurfti að fá að vita, hvort þeir, sem áttu inni í bankanum, vildu leggja eitthvað til. Þeir ætluðu sér að taka hlut sinn á þurru landi, en það varð nú ekki, sem betur fór. Hv. þm. varð til þess að bera bankann inn í þessar eldhúsdagsumr., það er honum að kenna, að málið var tekið upp. Hann má þakka fyrir, að öll þessi mál og hans afskipti af þeim hafa ekki verið tekin til rækilegrar meðferðar enn. Eins og hv. þm. kannast við, hefi ég ekki talað orð um stjórn hans á Íslandsbanka. (SE: Ég bið hv. þm. að koma með það). Það getur orðið austur í sveit, ef þm. þorir að koma þangað. Eldhúsið er orðið nokkuð langt.

Þá talaði hv. þm. um gengismál og þingræðisreglur. Mér ber ekki að svara því. En ég taldi það svik við þjóðina, ef stj., af því að hún hefir ekki komið öllu fram, kastaði því máli í hendurnar á hækkunarmönnum. Ég mundi kalla það örgustu svik við alla þjóðina. Fleiru þarf ég ekki að svara hjá hv. þm.

Honum, þessu mikla skáldi, hefir nú ekki tekizt vel að svara fyndinyrði mínu. Það var bara eins og strákarnir segja: Éttu 'ann sjálfur. Hv. þm. hafði orð eftir Landnámu. Þar er vísan, sem hann sagði sig langa til að hafa yfir hér. Ég skora á hann að gera það. (SE: Ég er ekki með spaug í hv. deild). Jæja, orðin, sem hann ætlaði að fara með eru þessi:

„Fork lætr æ sem orkar

at glamrandi hamra

á glotkylli gjalla

Geirhildar hví meira“.

(SE: Já, glotkyllir var orðið, sem ég hugsaði um). Það er mikill hreimur í þessum orðum, og þau lýsa vel ræðumennsku hv. þm. Ég býst við, að menn skilji þetta flestir, ef ég les upp söguna, sem fylgir, með leyfi hæstv. forseta :

„Þórir þursasprengir hét maðr; hans son var Steinröðr enn rammi, er mörgum manni vann bót, þeim er aðrar meinvættir gerðu mein. Geirhildr hét fjölkunnig kona ok meinsöm; þat sá ófreskir menn, at Steinröðr kom at henni óvarri, enn hon brá sér í nautsbelgs líki vatnsfulls. Steinröðr var járnsmiðr; hann hafði járngadd mikinn í hendi; um fund þeirra var þetta kveðit“. (SE: Þetta er ljóta pólitíkin). Vísan hljóðar einmitt um það, að hann hafi barið Geirhildar vatnsfullan nautsbelginn.

Það er einmitt það, sem ég vil gera, og einmitt sakir þessa skil ég, að hv. þm. hafi ekki kært sig um að flíka vísunni.

Tveir aðrir hv. þm. hafa yrt á mig nokkrum orðum. Ég hlustaði á blessað kerlinganöldrið mitt hjá hv. þm. Borgf. Hann hermdi það eftir mér, að sjálfstæðisnafnið væri móðgun við Dani. Ég sagði að það væri móðgun við fullveldi okkar eigin þjóðar, og það er dálítið annað. En ég get ósköp vel skilið, að hv. þm. hafi ekki getað hlustað vel á ræðu mína og ekki verið með fullkomnu jafnaðargeði. Hann byrjaði ræðu sína með því að játa, að hann hefði talað af sér, en þetta hefir hann oft gert áður. Hann sagðist hafa haft óheflað alþýðumál. (PO: Er það að tala af sér?). (Forseti: Ekki samtal). Já maður á ekki að nota óheflað mál. (PO: Þá ætti hv. 2. þm. Árn. aldrei að tala). Má ég biðja hv. þm. að vera ekki að þessu kerlingarnöldri. Það er einmitt kerlingasiður að taka fram í fyrir mönnum. En þetta stóð ekki lengi hjá honum, því að í næstu andrá datt hann ofan í pyttinn. Hann fór að bregða mér um hluti, sem alls ekki eru nefnandi í þinghelgi. (PO: Hvað var nú það?). Ég skal nú fyrirgefa honum það, því að hann hefir verið fulla tvo mánuði hjákona hv. 2. þm. G.-K. og hefir lært þetta af honum. Þessi hv. þm. sýndi þar með kvenskap sitt, því að ég veit ekki til þess, að karlmenn bregði nokkurntíma öðrum mönnum um slíkt, en það er algengt um kvenfólk.

Ætla ég nú að kveðja hann að þessu sinni. Hann sagði reyndar ennfremur, að ræða mín hefði verið það vitlausasta, sem sagt hefði verið um sjálfstæðismálið. Hann var að leika hér hæstarétt og lék hann vel. Hann fór alveg að eins og hæstiréttur, þegar hann ekki með nokkru móti getur varið dóma sína. Hann flutti nefnilega engar ástæður.

Eitthvað var hann að tala um klæðafald og laut þá nokkuð lágt, en ég get ósköp vel skilið það, því hv. þm. er ærið niðurlútur, því jafnvel meðan hann er að halda ræður hér í þingsalnum, er eins og hann sé alltaf að leita að tíeyringnum, sem hann týndi hér fyrsta þingsumarið sitt.

Þá á ég aðeins eftir að svara hv. 2. þm. G.-K. Hann fór, eftir því sem hann sagði sjálfur, að líkja eftir hæstv. dómsmrh. og hrósa sér af framgöngu sinni í gengismálinu 1925. Ég held nú, að ég hafi aldrei heyrt neinn mann hrósa sér öllu greinilegar en hv. þm. gerði þá. Og það væri náttúrlega ósköp gott, ef hann ætti þetta lof skilið. En því miður hefi ég, og hafði frá fyrstu tíð, fullar heimildir fyrir því, að menn innan hans eigin félagsskapar, sem hann átti að standa á verði fyrir, voru fjarskalega óánægðir með hans framkomu; þetta barst í tal núna einmitt út af þessari lofdillu, sem hv. þm. setti á sjálfan sig.

Ég skal gjarna taka það fram, að hann átti sjálfsagt við mjög ramman reip að draga, þegar hann átti að stöðva gengishækkunina. Það voru þar mörg vopn á lofti og margar torfærur. Þar munu hafa verið fjöll af sementssekkjum yfir að fara og annar tröllskapur að yfirvinna, sem ég hirði ekki að nefna.

Eitthvað var hv. þm. að hnýta í mig fyrir það, að ég var ekki endurkosinn forseti sþ. og hefði farið utan. Ég á nú bágt með að skilja þetta, a. m. k. eftir því sem hann rökfærði það. Ef það er hans meining, að einhverjum hafi ekki farizt sem bezt við mig, þá hélt ég, að bæri ekki að núa mér því um nasir. Ég hefi aldrei vitað það gert, og skil ekki þá röksemdafærslu. En ég get huggað hv. þm. með einu: Það, að ég fór utan, var fyrst og fremst góðum og gegnum íhaldsmönnum að þakka.

Hv. þm. vildi kvarta undan því, að ég hefði farið utan að læra mannasiði. En ég get skýrt hv. þm. frá því, að einn mikilsmegandi maður hefir krafizt þess, að það yrði flutt vantraust á stj. fyrir að senda ekki hv. 2. þm. G.-K. utan, til þess að læra mannasiði í minn-stað.