10.03.1930
Neðri deild: 49. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Það er nú svo langt um liðið, að ég man alls ekki, hvar ég var staddur í þessu merkilega máli, þegar síðast var um það rætt hér í hv. d.

Ég held, að ég hafi stungið upp á því, þegar mál þetta var hér síðast til umr., að flm. brtt. og hv. n. vildu eiga sameiginlegan fund með sér til þess að vita, hvort ekki væri hægt að koma á einhverju samkomulagi um þær brtt., er fyrir liggja. Þó að ég hinsvegar líti svo á, að engin nauðsyn sé fyrir framgangi þessa frv., þá býst ég aftur á móti við því, að það sé ætlun þeirra, sem standa að því, að það nái fram að ganga í einhverri mynd á þessu þingi. Þess vegna ber að vanda til þess sem bezt má verða, til þess að það verði ekki meðal þeirra laga, sem þyrfti að breyta á næsta þingi. En eins og ég og fleiri bentum á við 1. umr., held ég, að velflest ákvæði þessa frv. séu að finna að meira eða minna leyti í þar um hljóðandi reglugerðum. Og þó að þessi heildarlöggjöf verði samþ., þá er ég viss um, að aðstöðumunur milli héraða gerir það að verkum, að breyt. á þessari löggjöf verða nauðsynlegar, því að eitt á við á þessum stað og annað á hinum.

Ég verð að segja fyrir mig, að eins og þessar brtt. liggja fyrir, þá er maður í miklum vanda um það, hverjar maður á að samþ., með það fyrir augum, hvernig frv. mundi líta út, ef t. d. yrði tekin þessi brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. og þessi úr brtt. hv. þm. Borgf., og í þriðja lagi úr brtt. hv. n.

Þó að þessi lög yrðu samþ., yrðu þau að meira eða minna leyti pappírslög. Ég vil t. d. beina þeirri spurningu til hv. 1. þm. N.-M., sem flytur brtt. á þskj. 173, hvaða refsingar hann hugsar sér gagnvart þeim mönnum, sem ekki skyldu vera þess megnugir að láta vökumann á greni. Ég hygg, að í flestum tilfellum hafi einyrkjar engan til að láta sem vökumann. Ég held, að þessum málum sé bezt komið í höndum hreppsnefnda. Ef þeim er trúandi í öðrum málum, hygg ég, að einnig megi treysta þeim í þessu máli. Það má náttúrlega setja slíka hluti á pappírinn, að sýslunefndir skuli hafa yfirstjórn um þetta, sem maður veit fyrirfram, að kemur aldrei til framkvæmda. Eða veit nokkur hv. þm. til þess, að sýslunefndir hafi verið að átelja hreppsnefndir fyrir einhverja vanrækslu í þessum hlutum? En úr því menn einu sinni hafa gaman af því að fylla lögin með óþörfum fyrirskipunum, þá er ég ekkert að hafa á móti því.

En það, sem ég tel athugaverðast við þetta frv., er sá rauði þráður, sem gengur í gegnum það og gerir að engu þann eignarrétt, sem fyrir hendi er. En menn þarf ekki að furða á þessari aðstöðu, því að það eru sömu fingraför á þessu frv. og öðru, sem sömu hendur hafa fjallað um, en það er frv. til ábúðarlaga. Það er sama stefna, sem þar er ráðandi.

Það er merkileg ósamkvæmni í þessum till., að í öðru tilfellinu, ef yrðlingar nást í sept. eða okt., þá á sá ekki að hafa arð af þeim, sem nær, heldur skulu skipti fram fara, en svo í öðru tilfellinu er heitið verðlaunum, sem eru algerlega óþörf. Það eina góða við þetta ákvæði, sem ég er þakklátur hv. n. og hv. 1. þm. N.-M. fyrir, er það, að aðeins er talað þar um heimild, sem vitanlega getur ekki náð nokkurri átt að komi til framkvæmda, nema í einhverjum sérstökum tilfellum, sem ekki þarf að brýna fyrir hreppsnefndum. En það er hlægilegt að ætlast til, að sýslusjóðir fari að borga 10 kr. fyrir refi, sem skotnir eru til mikils arðs fyrir þá, sem ná þeim að vetrarlagi.

Ég get fullyrt, að þótt þessi löggjöf komist á í þeim búningi, sem nú er fyrir hendi, verður ekkert eftir henni farið, a. m. k. í mörgum hreppum. En það segir sig sjálft, að það er meira áríðandi en margir halda, að löggjöfin sé þannig úr garði gerð, að ekki sé verið að neyða menn til að fara á svig við hana.

Viðkomandi ummælum hv. þm. Borgf. út af þeirri brtt. n., að ekki mætti flytja út yrðlinga fyrir 20. sept. þá held ég, að það ákvæði sé ekki svo hættulegt, þótt samþykkt yrði. Það er sjálfsagt réttilega tekið fram hjá honum, að allmikil samkeppni hefir verið af útlendum mönnum, sem vilja kaupa þessi dýr. En af hverju er hún komin? Þeir byrja fyrst á samkeppninni, þegar innlendir menn vilja fara að kaupa. En hinsvegar ber þess að gæta, að nú eru svo margir innlendir menn, sem fást við refaeldi, að ég held, að engin ástæða sé til að óttast, að eðlileg samkeppni falli niður, þó að þessi brtt. n. verði samþ. En ég hygg, að meira öryggi verði í því, að það verði falleg dýr, sem verða flutt út, þegar komið er síðla sumars, heldur en t. d. í júnímánuði. Þetta er því í rauninni ekkert hættulegt ákvæði.

Ég held, að svo geti á staðið í ýmsum sveitum, að mjög sé óheppilegt að óheimila, að nokkur megi vinna greni, hvort heldur fullorðin dýr eða yrðlinga, nema skotmaður sé frá genginn. Þetta verður eitt meðal annars, sem ekki verður farið eftir í ýmsum sveitum. Mér dettur ekki í hug, að hreppsnefnd fari að kæra sína hreppsbúa, þótt þeir hafi farið út og unnið greni, ef til vill fullt eins sæmilega og skotmaður hefði gert. Ég held, að hreppsnefndir hafi nú á seinni árum orðið svo fegnar að þurfa ekki að krjúpa fyrir mönnum til að vera skyttur á grenjum, að þær muni ekki fara að þrengja kosti þeirra manna, sem vilja taka þetta að sér, og það þótt þeir geri það í einhverjum tilfellum án óska hreppsnefndar. Ef það kemur að sömu notum, þá vil ég ekki hafa á þessu neina einokun.

Ég nenni ekki að vera að fást við þetta frekar að sinni. Ég hyggst að bíða þangað til ég sé, hvernig frv. lítur út eftir atkvgr., sem nú fer væntanlega fram, og sem ég býst við, að verði mjög undir hælinn lagt, hvernig fer, með tilliti til þeirra ýmsu breyt., sem fyrir liggja.

Ég skal að lokum viðurkenna, að hv. n. hefir lagt mikla alúð við að bæta frv., enda þótt ætíð geti orðið meiningarmunur hjá mér og öðrum um þessi og þessi atriði, sem í flestum tilfellum kemur vitanlega af þeim ólíku staðháttum, sem um getur verið að tala í landinu.