10.03.1930
Neðri deild: 49. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Halldór Stefánsson:

Ég efast um, að mikið verði greitt fyrir þessu máli með því að hafa lengri umr. um það eða einstök atriði þess. Ég held, að héðan af verði að láta það nægja, að menn velji á milli, og velji það, sem þeim gezt bezt að.

Ég vil aðeins vekja athygli á því, að brtt. mínar ná aðeins til fyrri kafla frv. Þar sýnist mér vera milli þrenns að velja, brtt. minna, brtt. n. og frv. sjálfs. Mínar till. fara að ýmsu leyti lengst og eru að því leyti fullkomnastar, svo að ég tel, að þær ættu að koma fyrst til atkv., en annars legg ég það á vald hæstv. forseta.

Hv. frsm. n. taldi, að sumar till. mínar væru aðeins orðabreyt. En ég vil benda á það, að þær eru nokkuð meira en orðabreyt., þótt þær séu einnig öðruvísi settar fram hjá mér. Eftir mínum till. eru það sveitarstjórnir, sem hafa framkvæmd og skyldu um að annast um útrýming refa, undir eftirliti sýslunefnda, eins og mun vera og hafa verið hér á landi. Eftir till. n. er sýslunefndum skylt að sjá um, að hreppsnefndir hafi eftirlit með eyðingu refa, en ekkert er getið um, hvar framkvæmdarvaldið og framkvæmdarskyldan sé á þessu. Það er sagt, að sýslunefndir eigi að sjá um, að hreppsnefndir hafi umsjón með, — með hverjum? — engum. Framkvæmdarskyldan er ekki lögð neinum á herðar.

Að lokum er það þá út af fyrirspurn hv. þm. Barð. til mín um það, hvaða refsiákvæði ég hugsaði við því, ef menn gætu ekki lagt vökumann á gren. Ég veit ekki, hvers vegna hann spyr mig frekar en aðra. Ég þarf ekki annað en benda honum til 15. gr. frv. Þar eru almenn ákvæði um refsingar, sem taka til brota á lögunum.