10.03.1930
Neðri deild: 49. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Ég skal ekki deila um það, hvað gengisnefnd kann að hafa sagt, en hitt væri vert að athuga, hvað þeir leggja til grundvallar hjá nefndinni. Hv. þm. sagði að það væru öll dýr, sem veiddust hér á landi og voru flutt út. Eftir því ætti að vera 200 kr. hagnaður á dýri. En þetta er af því, að út voru aðeins flutt úrvalspör, karldýr og kvendýr saman. Tölur n. sýna því aðeins, hvað slík úrvalsdýr voru seld. Þótt þessar tölur séu komnar frá n., eru þær ekki réttar að því leyti, að þær eru ekki miðaðar við það, að öll dýr væru flutt út. Heildaryfirlit hv. frsm. er því rangt, því að refabúin slátra refunum hér innanlands og selja belgina fyrir 100—300 kr., í staðinn fyrir að selja dýrin til útlanda fyrir 600 kr., eins og hv. þm. sagði. Það er því augljóst, að þetta yfirlit er rangt og villandi og gert til þess að slá ryki í augu manna.