31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1931

Ingólfur Bjarnarson:

Það er fremur fámennt hér í hv. þd. nú, og má segja, að það sé ekki furða, þar sem þetta er 8. dagurinn, sem nuddað er í eldhúsinu. Er fyrir löngu sýnilegt, að ekki er stefnt að öðru með öllu þessu málæði en að lengja þingið sem mest.

Þó ég vilji ekki taka mikinn þátt í þeirri iðju, þykist ég tilneyddur að segja nokkur orð, út af þeim niðrandi ummælum, sem hv. þm. Vestm. fannst viðeigandi að beina til okkar endurskoðenda síldareinkasölunnar, um óstarfhæfni okkar eða vanrækslu í þessa starfi. Ég get að vísu sagt það, að ég tek mér ekki nærri ummæli hans í minn garð, og af skiljanlegum ástæðum mun ég ekki rökræða við hann um starfshæfni mína sem endurskoðandi. En ég get ekki látið ósvarað þeim dylgjum, sem í orðum hans fólust til meðendurskoðanda míns, Jakobs Karlssonar, þar sem hv. þdm. flestir eru honum alveg ókunnugir og kunna því máske að taka eitthvert mark á því, sem hv. þm. var að segja honum til ófrægingar. Og engu síður vegna hins, að hér er um að ræða mann, sem er alveg sérstaklega vel fallinn til þessa endurskoðunarstarfs, bæði vegna ágætrar bókfærsluþekkingar, náins kunnleika hans á þessum málum öllum og vegna dugnaðar hans og samvizkusemi við að leysa vel af hendi hvert það verk, sem honum er talið. Ég er viss um, að allir, sem þekkja Jakob Karlsson og satt vilja segja, mundu taka undir þessi ummæli mín. Ég vil ekki eyða um þetta fleiri orðum, en ætla aðeins að benda hv. þm. á það í allri vinsemd, að það mundi ekki vera á hans færi að rýra að nokkru álit hr. Jakobs Karlssonar. (JJós: Mér hefir alls ekki dottið það í hug). Jæja, lýsi hv. þm. yfir, að orð hans hafi ekki átt að hafa neina þýðingu, þá get ég vitanlega verið ánægður. En mér datt í hug, að einhverjir kynnu máske að henda mark á orðum hans, þó hann rökstyddi þau ekki með öðru en því helzt, að við værum ofan úr sveit!

Mér virtist hv. þm. vilja gefa í skyn, að bókfærslu einkasölunnar mundi eitthvað ábótavant. Ég vil því lýsa yfir þeirri skoðun okkar endurskoðendanna, að við teljum reikningsfærslu einkasölunnar í mjög góðu lagi. Virðast okkur þeir menn, sem bókfærsluna annast, sérstaklega vel til þess starfs fallnir, og sýna þeir mikinn áhuga á að hafa reikningana sem gleggsta, og að láta fylgja þeim sem bezt skilríki og skýrslur.

Vildi ég láta þessa getið, þó ég búist ekki við, að hv. þm. Vestm. telji yfirlýsingu mína um þetta efni mikils virði.

Ég ætla ekki að fara að blanda mér inn í deilur hv. þm. Vestm. og hæstv. fjmrh. um einkasöluna; mér virtist hæstv. ráðh. standa svo fyrir svörum, að ekki þyrfti frekari skýringa við. En um eitt atriðið vil ég þó segja örfá orð.

Hv. þm. Vestm. talaði um samning, sem einkasalan átti að hafa gert við Brödrene Levi, og beðið mikinn skaða af. En hæstv. ráðh. kvað þann samning aldrei hafa komið til framkvæmda. Ég tel mér skylt sem endurskoðanda, og þannig kunnur þessu máli, að lýsa yfir því, að hæstv. ráðh. fer hér með algerlega rétt mál. Að vísu sáum við endurskoðendurnir uppkast að samningi við þetta firma, sem aldrei gekk þó í gildi, vegna þess að einkasalan vildi ekki ganga að því. Hv. þm. vildi rengja skýrslu hæstv. ráðh. um þetta efni. Var hann með sögusagnir, sem hann þóttist hafa heyrt um það, að einkasalan hefði þurft að greiða til Brödrene Levi „provision“ af allri síld, sem hún seldi til útlanda. Fannst mér hann trúa þeim sögum. Þetta er samt alger tilbúningur allt saman og hefir einkasalan ekki þurft að greiða nokkrar skaðabætur vegna samnings þessa, sem varla var heldur von, þar sem hann aldrei kom í gildi. Ég veit ekki, hvort hv. þm. Vestm. trúir þessu, þó að við hæstv. fjmrh. berum báðir vitni um þetta, en ég geri ráð fyrir, að flestir aðrir hv. þdm. taki það trúanlegt.