18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Ég hefi leyft mér að koma fram með nokkrar brtt. við þetta frv., og eru þær á þskj. 303.

Eins og hv. frsm. tók réttilega fram, hefir n. ekki getað haft þessar brtt. til yfirlits, sökum þess að þeim var útbýtt nú á þessum fundi.

Ég held, að þótt svo færi, að brtt. mínar, — sem ég að vissu leyti tel til bóta —, yrðu samþ., yrði engin grundvallarbreyt. ger á frv. Það má vel vera, að þær fari í bág við brtt. n. á þskj. 291. Ég vil taka það fram, að ég hafði ekki athugað þær.

1. brtt. mín er viðauki við 3. gr. frv. Hún gengur út á það, að landeiganda sé heimilt að vinna sjálfur greni, ef hann óskar þess og hann er, að dómi hreppsnefndar, til þess fær. Ég get ekki trúað því, að hv. d. vilji „anga á móti svo sanngjörnum og frjálsmannlegum fyrirmælum. Ég trúi því ekki fyrr en búið er að fella þau hér í þessari hv. d., enda geri ég ekki ráð fyrir, að svo verði.

Þá er gert ráð fyrir því, að viðkomandi hreppur hafi engan kostnað af grenjavinnslunni. En þó getur svo farið, ef þessi brtt. verður samþ., með hliðsjón af brtt., sem ég hefi við 6. gr. frv., að hreppurinn hafi allmikinn gróða af því. Þessar brtt. mínar eru yfirleitt svo ljósar, að þær geta ekki fallið vegna vafaatriða í þeim. Þetta hljóta menn að sjá, ef þeir yfirvega þær. Annars er ekki vafi á, að þær verða samþ.

2. brtt. mín er við 4. gr., og er ekkert nema afleiðing af brtt. minni við 3. gr. Hún er því engin grundvallarbreyt. að öðru leyti en því, að þar er slegið föstu, hvað telja skuli grenjavinnslutíma. Hann byrjar svo snemma og endar svo seint, að ég vona, að hv. d. gefi verið mér sammála um það, að hann þurfi ekki að vera lengri. Að vísu veit ég til þess, að af sérstökum ástæðum hafi gren fundizt eftir 20. júlí, en þau dæmi eru svo sjaldgæf, að þau eru eiginlega fyrir utan regluna.

3. brtt. mín er við 5. gr. frv. Hún er mjög lítils virði, en að mínu viti færir hún gr. til betra máls. Hún er um það, að í stað orðsins „aldrei“ í frv: komi: ekki. Mér finnst það óheppilega að orði komizt, að gren verði aldrei yfirgefið. (BSt: Ef þess er kostur). Ég vona, að hv. n. geti verið mér fullkomlega sammála um, að orðið „ekki“ sé eins hagkvæmt og „aldrei“.

Þá er 4. brtt. mín við 6. gr. Er hún raunverulegust af þessum brtt. mínum. 1. mgr. hennar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir yrðlingar, sem náðzt hafa á greni á grenjavinnslutíma, eða verið þaðan eltir uppi, eru eign þess sveitarfélags eða sveitarfélaga, er annast um grenjavinnslu á því svæði“.

Í 2. mgr. brtt. eru ákvæði um það, ef heimild hefir verið veitt eftir 3. gr. Ég vona, að hv. d. og hv. n. sjái, að hér eru svo mikil tryggingarákvæði, að trautt verði þeim betur fyrir komið. Þar segir svo:

„Nú hefir landeigandi fengið leyfi til grenjavinnslu. í landi sínu, sbr. 3. gr., og skal hann þá eignast alla yrðlinga, sem hann nær í greni eða út frá því, ef hann vinnur bæði fullorðnu dýrin. Vinni hann aðeins annað dýrið, eignast hann aðeins hálft andvirði yrðlinga þeirra, sem hann nær, til jafns við sveitar- eða fjallskilasjóð, en vinni hann hvorugt fullorðnu dýranna, fellur andvirði yrðlinga óskert til sveitar- eða fjallskilasjóðs“.

Ég vona svo, að hv. d. geti verið mér sammála um, að hér sé svo rólega í sakir farið, að tæplega sé hægt að mæla á móti réttmæti þessara till.

Þá vil ég fara svo með yrðlinga sem aðrar tófur. Í niðurlagi brtt. minnar segir svo:

„Nú næst yrðlingur á víðavangi á grenjavinnslutíma og ekki er vitað um, frá hvaða greni hann er kominn, og skal þá sá eignast, er náði, að helmingi við þann, er land á eða upprekstrarrétt, ef á afrétti er. Sama gildir og, ef unnið er gren eða yrðlingur næst utan grenjavinnslutíma á svæði því, er hreppsfélag eða hreppsfélög annast grenjavinnslu á“.

Þessi brtt. er eins og hinar, að hún skýrir sig svo sjálf, að enginn vafi er á því, við hvað er átt. Ég veit þess þó nokkur dæmi, að yrðlingar hafa, af sérstökum ástæðuan, náðzt í septembermánuði. Sé ég ekkert á móti, að þá sé annað látið gilda um gren þau, er hreppsfélagið hefir kostnað af að láta vinna. — 5. brtt. mín er nauðsynleg afleiðing af því, ef hinar verða samþ.

Ég er sannfærður um, að brtt. mínar verða vel séðar af þeim, sem við lögin eiga að búa, og get ég því ekki betra gert en að ráða mönnum til að samþ. þær. En geta mín til að koma þeim fram nær auðvitað ekki til nema míns eigin atkv. Mér þótti leitt, að hv. frsm. taldi líklegt, að n. sem slík yrði á móti till. mínum. Ég hefi komið með þær af því, að ég álít, að þær séu til bóta og svo sanngjarnar, að ekki verði með rökum á móti þeim mælt.

Að svo mæltu fel ég hv. landbn. og hv. þd. málið til úrskurðar.