18.03.1930
Neðri deild: 56. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Bernharð Stefánason):

Um brtt. hv. þm. Barð. hefi ég ekkert að segja. Ég vil aðeins taka það fram, að út frá hans eigin sjónarmiði sýnist vera lítil þörf fyrir tvær fyrstu brtt. hans. Það, sem þar er farið fram á, er heimilt eftir frv. eins og það er. Hreppsnefnd getur haft skotmann, einn eða fleiri, og getur ráðið landeiganda sjálfan til starfsins á sinni jörð, ef svo vill verkast. En þessar brtt. draga þá heldur úr þeirri meginstefnu frv., að hafa þessi mál sem mest í höndum hreppsnefndanna, og því get ég fyrir mitt leyti ekki fallizt á þær. — 3. brtt. hv. þm. er meinlaus og gagnslaus. E. t. v. er betra að hafa þetta orð eins og hv. þm. leggur til. — Um 4. brtt. vil ég segja, að ég hefi 1 n. haft svipaða afstöðu um þetta atriði og þar kemur fram. Eins og þegar var tekið fram í nál., hafði ég sérstöðu um það, hvernig greiða bæri skotmanninum, og ef hv. þm. Barð. hefði haft till. sína ofurlítið rýmri, býst ég við, að ég hefði getað greitt henni atkv. En aðrir hv. nm. eru alveg á móti þessari brtt.

Þá er það brtt. hv. þm. Borgf. Hann kallaði þetta litla brtt., og það er rétt, að hún er lítil að því leyti, að hún er aðeins fá orð. En hún fjallar um það atriði, sem mest var deilt um hér við 2. umr., og er ný tilraun til að fá hv. þd. til að falla frá því, sem þá var samþ., að banna útflutning yrðlinga fyrir 20. sept. Hv. þm. Borgf. gat ekki komið fram vilja sínum um þetta atriði við 2. umr. og vill nú, að atvmrh. hafi leyfi til að veita undanþágur frá þessu banni, þegar sérstaklega stendur á. En það er nokkuð hætt við, að hv. þm. Borgf. og þeir, sem sama sinnis eru og hann, mundu vilja telja, að alltaf stæði sérstaklega á, enda var það að heyra á ræðu hans. Landbn. er á móti þessari till. nú sem fyrr.

Hv. þm. fór að rifja upp, hvaðan till. um útflutningsbannið fyrir 20. sept. væri runnin, og sagði, að hún væri komin frá refaræktarmönnum. Má vel vera; að þeir séu yfirleitt með þessu ákv. En ég hefi ekki vitað það fyrr, að það væri mótmæli gegn lagafyrirmæli, að þeir, sem sérstaklega eiga við það að búa, eru ánægðir með það. Það hefir a. m. k. ekki alltaf verið talið horfa til óheilla, þótt bændur kæmu með till. í sambandi við sinn atvinnuveg.

Þá talaði sami hv. þm. einnig um það, að n. viðurkenndi öðrum þræði eignarrétt landeiganda, en hinum þræðinum ekki. Þetta er ekki rétt. Eignarréttur landeiganda að refunum er alls eigi viðurkenndur, heldur á hann að fá landshlut af veiði í landi sínu, svo sem á sér stað um marga aðra veiði.

Loks kom hv. þm. enn með það, að ákvæðin um reikningsskilin og bannið gegn útflutningi yrðlinga fyrir 20. sept. rækjust á. En þetta er ekki rétt athugað. Því að enda þótt hreppsnefndin ætti einhverja yrðlinga á haustin, þegar reikningar eru gerðir upp, þá mætti telja þá til eignar á þeim reikningi; og tekjurnar af sölu þeirra koma þá á næsta árs reikning. Landbn. hefir ekki getað fallizt á að breyta þessu ákvæði, af því að þar sem fleiri hreppar eru eitt fjallskilafélag og hafa þetta einnig sameiginlegt, hafa þeir aðeins þennan eina fund saman á árinu til að leggja reikningana fyrir. N. sá ekki heldur, að ákvæði frv. gætu orðið til nokkurs meins.

Ég vona nú, að málið geti fengið skjóta afgreiðslu í hv. d., svo að það megi verða að lögum í ár.