05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. um refaveiðar og refarækt er komið frá hv. Nd., og aðalbreyt., sem það gerir á núgildandi lögum, eru fram teknar í nál. á þskj. 400, að sett eru heildarlög fyrir land allt, í stað heimildarlaganna frá 1919 og þeirra reglugerða, sem einstakar sýslunefndir hafa sett.

Nýmæli er það í lögum þessum, að landeiganda og ábúanda eru tryggðar nokkrar tekjur af yrðlingum, sem nást í landi þeirra.

Annar kafli laganna er um refarækt almennt og kveður á um það, að refir skuli aðeins geymdir í tryggum girðingum og öruggri vörzlu, undir opinberu eftirliti. — Svo eru ennfremur ákvæði um það, að dýr megi ekki flytja út nema að fengnu vottorði dýralæknis o. s. frv. Þetta á náttúrlega að vera til þess, að ekki sé spillt fyrir refarækt okkar, og eins hitt, að tryggja það, að íslenzkir refir vinni sér meira álit en verið hefir, bæði með því, að þeir séu fluttir út eldri en verið hefir, og sömuleiðis til tryggingar fyrir því, að þeir séu heilbrigðir.

N. verður að fallast á, að þetta sé til bóta, en gerir þó nokkrar smávægilegar brtt., sem hér skal getið nokkru nánar.

Fyrsta brtt. n. er við 2. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að 2. málsgr. orðist nokkuð öðruvísi. Hugsunin á ekki að raskast, en okkur þótti fegra það orðalag, sem við leggjum til.

Önnur brtt. á þskj. 400 er tekin aftur. Það hefir upplýstst, að nokkuð sérstakt fyrirkomulag er hér í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu um þetta fjallskilamál, og þess vegna þótti heppilegra, að breyt. kæmi ekki fram.

Þriðja brtt., við 5. gr., á að tryggja það, að þeir, sem tilkynna um gren til hreppsnefndar eða skotmanns, fái þóknun fyrir ómak sitt. En brtt. gerir ekki aðra breyt. á gr. en þetta, sem virðist vera sjálf sagt.

Þá er 4. brtt. Það er aðalbreyt., sem n. leyfir sér að gera við frv. Hún er fyrst og fremst um það, að það skuli aðeins vera ábúandi jarðar, sem hafi tekjur af yrðlingum, sem finnast í landi hans, en ekki jarðeigandi. Okkur fannst það réttara, þar sem jarðirnar eru leigðar með öllum gögnum og gæðum. Svo er þar önnur breyt., að jafnframt því, að ábúanda er áskilinn réttur til tekna af refaveiðum, þá er honum og skylt að bera tiltölulegan kostnað af grenjavinnslu í hans landi.

Ég vona, að hv. dm., sem mál mitt heyra, geti fallizt á það, að ekki sé nema rétt og sanngjarnt, að skyldur og réttindi verði að fylgjast að.

Fimmta brtt. er um það, að 8. gr. falli niður, vegna þess að það, sem í 3. gr. stendur, er með brtt. tekið upp í 6. gr. og nokkuð stendur þegar í 7. gr.

Svo er brtt. við 9. gr. um það, að ekki sé skylt að leggja fram fullnaðarreikning um grenjavinnslu „fyrir gangnaniðurjöfnunarfund ár hvert, eða fjallskilafund þar, sem fleiri hreppar eiga afrétt saman eða leitarsvæði“, heldur fyrir 1. des. ár hvert. Eins og við vitum, fara þessir fundir oftast fram í ágúst, en samkv. fyrirmælum laga má ekki flytja út refi fyrr en í september, og því er ekki hægt að gera upp reikninginn fyrr en sala yrðlinganna má fara fram, og svo virðist ekki liggja neitt á því, að þessi reikningur sé gerður upp fyrr en sveitarreikningarnir.

Þá er brtt. við 16. gr., þar sem við leggjum til, að gr. falli niður, en hún er um það, að öll refaræktarbú skuli háð dýralækniseftirliti. Okkur þótti þetta vera fullstrangt ákvæði, er gæti valdið tiltölulega miklum kostnaði fyrir búin, segjum t. d. fyrir bú norður á Ströndum, er þyrfti að sækja lækni til Akureyrar og kosta fleirum sinnum ferð hans fram og aftur. Okkur þótti því réttara að gera þetta að reglugerðarákvæði.

8. brtt. fer fram á, að í reglugerð megi setja nánari ákvæði um allt þetta.

Ég skal loks geta þess, að um 4. brtt. og tvær hinar síðustu er n. ekki alveg óskipt.