05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Jón Baldvinsson:

Ég hefi skrifað undir nál. landbn. með fyrirvara. Verður það að kallast gott samkomulag um annað eins mál og refamálið, að ekki skuli koma nema eitt nál. og brtt. aðeins í einu lagi. Ég ætla nú samt að hrella hv. þd. með því, sem alltaf mátti óttast, að þetta er aðeins stundarfriður, því að ég hefi nú í hyggju að koma með nokkrar sérstakar brtt. við 3. umr., ef ég hefi ekki komið þeim að áður.

Ég er hvorki sammála ákvæðum frv. né brtt. hv. meiri hl. um 6. gr. Þár er það ákveðið, eins og frv. er nú, að þegar yrðlingar eru teknir í heimalandi manna, fái landeigandi og ábúandi samanlagt hálfan ágóða, til jafns við sveitar- og fjallskilasjóð, af sölu þeirra yrðlinga. Landshlut þessum skal skipta jafnt á milli landeiganda og ábúanda. — Ég álít nú hvorki rétt né sanngjarnt, að landeigandi fái nokkurn hluta af þessum ágóða, ef hann hefir leigt jörðina. Ábúandinn á að fá hálfan ágóðann einsamall. Hann greiðir jarðarafgjaldið til landeiganda, og það verður honum að nægja. Af þessum ástæðum vil ég fella úr 2. mgr. 6. gr. allt um það, að landeigandi eigi að fá nokkurn landshlut. — Nú hefir meiri hl. landbn. gert brtt. í þessa átt, en bætt því við, að ábúandi skuli og bera hálfan kostnaðinn af grenjavinnslunni á ábýlisjörð sinni. Þessi kostnaður getur vel orðið nokkuð mikill í afdalakotum, þar sem landrými er mikið og máske mörg gren. Mundi þá stundum ekki koma tilsvarandi hagnaður á móti. Ábúendur á þessum stöðum geta vel verið fátækir menn, þótt það þurfi auðvitað ekki að vera, og sýnist mér ekki rétt að íþyngja þeim með þessum kostnaði. Það er einnig fyrst og fremst hagur sveitarfélagsins að fá refunum eytt, en ábúendurnir fá nógan skatt að gjalds, þar sem er það fé, er tófan bítur, þegar gren eru í landi þeirra.

Þá vil ég ekki láta fella niður ákvæði 16. gr. um það, að refabú skuli háð dýralækniseftirliti. Ég álít þetta ákvæði nauðsynlegt til að tryggja það, að aðeins heilbrigð dýr séu alin upp. Mér er sagt, að þegar farin sé að aukast „menningin“ hjá refunum, — ef það orð má nota um refi —, sé þeim miklu hættara við ýmiskonar sjúkdómum en villtum dýrum. Því er ástæða til að hafa eftirlitið strangt. Refaræktin er sögð uppgripaatvinnuvegur, og mega refabændur því vel kosta nokkru til. Ég vil ekki heldur segja, að ákvæði 16. gr. feli það beint í sér, að t. d. þurfi alltaf að kosta för dýralæknisins í Borgarnesi vestur á Strandir til að líta eftir refabúum þar. Mér virðist, að dýralæknirinn mætti a. m. k. stundum láta aðra athuga refina fyrir sig, og að nægilegt væri, að hann sýndi sig sjálfur t. d. einu sinni á ári eða svo. — Ég nefndi refabú á Ströndum sem dæmi vegna þess, að í Grímsey á Steingrímsfirði er nú eitthvert bezta refabúið. Þar er meiri snjór og kaldara loftslag en í Breiðafjarðareyjum, og verða refabelgirnir af þeim sökum fallegri og verðmeiri.

Ég mun greiða atkv. gegn brtt. um að fella niður 16. gr., og síðar mun ég koma með aðra brtt. um 6. gr., eins og ég hefi sagt.