05.04.1930
Efri deild: 70. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Jón Jónsson):

Mér finnst hv. 4. landsk. till jafnaðarmaður í þessu máli, þegar hann er alveg á móti því, að réttindi og skyldur fylgist að. Hann virðist halda, að kostnaður einstaklinga af grenjavinnslu geti orðið þeim mjög tilfinnanlegur. Ég held nú samt, að það yrði mjög sjaldan, sem farið væri að kosta til þess að leggjast á gren, án þess að tekjur af því færu fram úr kostnaðinum. En þótt kostnaður kynni að verða meiri eitt og eitt ár, þá er ekki ósanngjarnt, að ábúandi beri kostnaðinn af þessari hreinsun á jörð sinni að nokkru leyti. Það mundi ávallt borga sig til lengdar. Ég vil vona, að hv. þdm. séu ekki svo miklir ójafnaðarmenn, að þeir fallist ekki á till. meiri hl. landbn. um þetta atriði.

Ég get ekki fallizt á skoðun hv. 4. landsk. um nauðsynina á dýralækniseftirliti. En ég vil þó benda þeim, sem eru líkrar skoðunar og hann um þetta, á það, að brtt. landbn. fer aðeins fram á, að numin sé úr lögunum fyrirskipunin um dýralækniseftirlit. Ef svo færi, að hæstv. landsstj. virtist nauðsyn á því eftir ítarlega athugun, gæti hún sett strangar reglur um það í reglugerð. Því er ekkert hundrað í hættunni að samþ. brtt. landbúnaðarnefndar.