31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1931

Dómsmrh. (Jónas Jónsson ):

Ég hefi skrifað hjá mér lítillega úr ræðum tveggja þm., hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Dal. Ég verð náttúrlega stuttorðari nú, þegar svo er mjög liðið á tímann, heldur. en annars. Þó eru hér nokkur smáatriði, sem ég verð að víkja að.

Hér um bil öll ræða hv. 2. þm. G.-K. var, eins og við mátti búast frá honum, ekki rök eða um málið sjálft, heldur persónuleg fúkyrði í minn garð. En þó fór nú, eins og jafnan hefir orðið er við höfum deilt, að þegar hv. þm. hafði fengið fyrstu hríðina frá mér, þá kom fram þolleysi hans og þrekleysi, og er hann þá líkastur því, sem drykkjumenn gerast daginn eftir ölæði.

Hv. þm. minntist á hið svokallaða Jóns Auðuns mál, og tók það sem dæmi, að í því máli hefði Magnús heitinn. Kristjánsson lýst yfir persónulegri andúð til mín.

Í hinu alræmda hneykslismáli út af Hnífsdalssvikunum voru alls engin samtök í Framsóknarflokknum. Flokkurinn var meira að segja þrískiptur um málið, og þótt Magnús heitinn Kristjánsson liti með meiri mildi á mál Jóns Auðuns en sumir aðrir í okkar hópi, þá var engin sneið í hans orðum til flokksbræðra hans. Það sæti líka illa á hv. 2. þm. G.-K. að bera brigður á samlyndi okkar, því að við höfðum starfað saman nálega tug ára, og höfðum, meira að segja, staðið mjög fast saman, ekki sízt á móti ofsa og heimskuflani þessa hv. þm., og enginn maður hafði meiri fyrirlitningu á allri frammistöðu þessa hv. þm. en einmitt Magnús Kristjánsson.

Vil ég í því sambandi sérstaklega benda á það, að í landsverzlunarmálinu voru þessir tveir menn í fullkominni andstöðu. Magnús heitinn Kristjánsson barðist fyrir því, að brjóta niður óheilbrigt skipulag og bjarga verzlunarmálum landsmanna inn á heilbrigðari leið, en enginn hafði verið honum ósvífnari, yfirlætismeiri og verri (ÓTh: Ætli forseti hefði ekki hringt, ef ég hefði sagt þetta?) viðureignar en hv. 2. þm. G.-K. öllum þessum málum höfðum við Magnús heitinn Kristjánsson verið samherjar og einmitt á móti hv. 2. þm. G.-K.

Það er þess vegna mjög óviðeigandi, þegar hv. 2. þm. G.-K., sem við höfum báðir barizt á móti, notar sér það, að Magnús Kristjánsson er dáinn, til þess með falsi og ósannindum að halda því fram, að um klofning hafi verið að ræða okkar í milli.

Hv. þm. kom svo að veitingu Keflavíkurhéraðs og sagði, að sá maður, sem stjórnin veitti þetta embætti, m. a. af því, að hans umsókn var hin eina, sem henni barst í hendur á sæmilegan hátt, væri ágætismaður. Hv. þm. bar ekki fram neinar skynsamlegar ástæður, en sagði þó, að fólkið væri allt á móti þessum lækni, Sigvalda Kaldalóns. Það er ekki meira á móti honum heldur en það, að þegar uppreistarstjórn læknanna vildi reyna að fá meðmæli handa hinum mjög svo trúa Íhaldsmanni, Jónasi Kristjánssyni lækni, þrátt fyrir þann mikla stuðning, sem þm. kjördæmisins hefði átt að geta veitt, þá bar það engan ávöxt. Það var reynt að fá þessi meðmæli hjá oddvitunum, en það er ekki sjáanlegt annað en að þeir hafi neitað, að minnsta kosti er það, að svo lítið hefir fengizt upp úr því, að stuðningsmenn Jónasar Kristjánssonar lögðu þau aldrei fram.

Viðvíkjandi Helga Guðmundssyni lækni er það satt, að hann talaði um það við mig, að hann vildi fá embættið, en svo kom aldrei nein umsókn frá honum, því að hann var kúgaður til að senda hana ekki til stjórnarinnar beina leið. Líka hefði hann getað fengið stórmiklar undirskriftir frá fólki í Keflavík, en hann sagði, að sér hefði líka verið bannað það, og svo, þegar Helgi Guðmundsson sendir umsókn sína til Læknafélagsins, stingur það henni undir stól, svo að hún kemur aldrei stjórninni í hendur. Helgi Guðmundsson er þannig settur, að honum er bannað að sækja til stjórnarinnar og hann verður að hindra það, að fólkið láti í ljós þann vilja sinn, að það vildi gjarnan fá hann fyrir lækni, og svo er hann hundsaður af þessu nýja veitingarvaldi læknaklíkunnar. Svo fyrst eftir að Sigvalda Kaldalóns er veitt embættið, þeim eina, löglega umsækjanda, þá er það að nokkrir íhaldslæknar, góðvinir hv. 2. þm. G.-K., úr hópi uppreistarmanna, segja: Nú vitum við það, að þarna er kominn maður, sem við ekki viljum hafa, nú skulum við eyðileggja hann, eta upp allar hans aukatekjur, með því að senda tvo lækna suður með sjó, svo að hann verði að hrekjast úr umdæminu. Þegar svo það kemur í ljós, að Sigvaldi læknir er mjög ánægður með að vera þarna í einu stærsta sjóþorpinu hér um slóðir, og þegar Helgi Guðmundsson er rólegur í Keflavík og hefir þar nóg að bíta og brenna handa stórri fjölskyldu, þá fara læknarnir í klíkunni að hugsa um að flæma hann burtu í þeirri drengilegu von, að heilsa Sigvalda sé ekki nógu sterk til að þola öll ferðalög héraðsins.

Einn af þessum læknum er Niels Dungal, sem er maður nokkuð líkt skapi farinn og hv. 2. þm. G.-K., óstilltur og ofsamenni í lund og grunnhygginn. Hann hefir borið það fyrir rétti, að það sé rangt af læknum í Reykjavík að vitja sjúkra manna í Keflavíkurhéraði meðan læknaklíkan haldi því banni, nema lög mæli öðruvísi fyrir. Ef t. d. Magnús Jónsson, bæjarfógeti í Hafnarfirði, hefir ekki gefið út fógetaúrskurð um, að það sé skylda Dungals að liðsinna veikum manni í Hafnarfirði, þá vill hann ekkert gera. Svo mikið er þeirra „brutalitet“, að þeir telja víst ekki annað en fógetaúrskurð nægilega skipun til þess að verða að liði veikum manni úr bannsungnu héraði. Og það lítur helzt út fyrir, að hv. þm. sé sama um það, þótt þessi grimmd, sem ekki á sinn líka, sé undirbúin og skipulagsbundin við kjósendur hans. Svo kemur það jafnvel fram, að sumir meiri háttar menn meðal lækna í Reykjavík, fara að reyna að flæma Helga Guðmundsson burtu úr Keflavík í því skyni einu að gera héraðsbúum erfiðara fyrir um heilbrigðismál sín. Ef nokkurntíma hefir verið til sorgleg saga fáráðrar stéttar, þá er það sagan um sókn og ósigur læknaklíkunnar í Keflavíkurhéraði.

Þá kem ég að kafla, sem snýst alveg persónulega um mig, og sem hv. þm. var svo elskulegur að játa hér, að það, sem hefði alvarlega verið borið á hann áður og sem menn vissu að var rétt, þótt ekki hafi það verið stutt af vitnum, nefnil. að persónulegur ofsi hans og hatur á mér á sér engin skynsamleg takmörk. Hv. þm. var að tala um það, hve dæmalaust gott hefði verið að vera hér þegar ég var veikur, eitthvað á fjórðu viku, sagði, að það hefði verið eins og það hefði átt að vera og óskaði, að það hefði ekki aðeins verið þrjár vikur eða mánuð, heldur vildi hann líka, að eitthvað kæmi fyrir, sennilega framhald af veikindum mínum, svo að ég væri endanlega burtu af þinginu. Hv. þm. smjattaði á því, hve þingið hefði verið sérlega ánægjulegt við það, að ég var burtu. Ég býst ekki við, að það hafi nokkurn tíma nokkur áhrif á heilsu mína, hverjar óskir hv. þm. ber í brjósti til mín, en það mun samt vera alveg óvanalegt, að hatur manna og hræðsla við pólitískan andstæðing sé svo, að þeir óski opinberlega honum til handa veikinda og andláts fyrir aldur fram. En þetta kemur alveg heim við það, sem hv. þm. hefir alltaf verið að tæpa á; hv. þm. skrökvaði því upp á tvo fjarstadda menn, skipstjórana á Þór og Óðni, að þeir vildu láta drepa mig, en dró svo að vísu inn seglin með því að segja, að þeir vildu láta drepa mig pólitískt. Ekki var þetta mjög smekklega talað, en ennþá ósmekklegra var það þó eins og hv. þm. sagði það upphaflega. En þetta er í raun og veru ekki svo ósennilegt, þegar maður athugar það, hvaða ráðum hv. þm. hefir beitt til þess að losna við mig af hinum pólitíska vígvelli; hv. þm. hefir ekki búizt við, að hægt yrði að fella mig á verkum mínum, og þess vegna er það æfinlega persónulegt hatur, rógur og ósannindi, sem hv. þm. beitir gagnvart mér. Hv. þm. hefir ekki getað haldið því fram með rökum, að ég hlyti að tapa trausti hjá kjósendum þessa lands. Nei, það hefir verið rógur og níð, sem hv. þm. hefir beitt, en allir skynsamir menn sjá í gegnum slíkt, og það er ástæðan til þess, að honum hefir gengið svona illa þessi starfsemi, sem honum er svo kær, því að hv. þm. vill losna við mig með illu eða góðu. — Svo þegar hv. þm. og fylgilið hans var að reyna ýmislegt, sem þeir vonuðu að gæti komið því til leiðar, að það tækist að koma mér út úr þinginu nú fyrir jól í vetur, þá var það haft eftir þessum hv. þm., að það þyrfti að finna upp einhver þau ráð, ill eða góð, sem gerðu það að verkum að ég hyrfi. Ég segi ekki, að hv. þm. eða vinir hans hafi verið að hugsa um að losa sig við mig með morðkuta eða skammbyssu, en þó var það svo, að þeir voru ekki óglaðir yfir því, sem einn Íhaldsmaðurinn sagði, þegar hann las um viðskipti þeirra við mig í vetur, og varð honum að orði: Því drepa þeir ekki manninn hreinlega? Honum blöskraði svo aðferðin, sem flokksmenn hv. þm. beittu gagnvart mér.

Þegar hv. þm. fer að dylgja um það, að ég sé óreglumaður með vín, verður það í meira lagi broslegt úr hans munni, þm. sem sagði um sjálfan sig á fundi í Borgarnesi þessi frægu orð: Fullur í dag og fullur í gær. Í hitteðfyrra lék hann flónið á fundinum á Hvammstanga og Blönduósi. Þar fór hann úr treyjunni og óð elginn á skyrtunni. Honum gengur bezt að ná hylli áhorfenda í litlum þorpum, þar sem er töluvert af iðjulausum slæpingjalýð til að bergmála hinar dvergvöxnu hugsanir þm. Annars er hv. þm. óhætt að reyna áfram að telja fólki trú um, að ég sé drykkjumaður, að ég lifi á eitri, að ég sé geðveikur, að skipstjórar varðskipanna vilji að ég sé ráðinn af dögum. Því meira af frómum óskum af því tægi, því öruggara er fylgi mitt í landinu og því rótgrónari fyrirlitnig allra dugandi manna á andstæðingum eins og hv. 2. þm. G.-K.

Veturinn 1928 var ég að undirbúa löggjöf fyrir menntaskólana. Ég taldi gagnlegt að kynnast nokkuð ensku skólafyrirkomulagi til hliðsjónar við löggjöfina, og fór því utan og dvaldi í Englandi nokkurn tíma. Ég ætla nú ekki að tala um það, hve drengilegt það var að nota þessa för til árása á mig, allra helzt af því fólki, sem stóð að þessum menntastofnunum, sem átti að bæta. En meðan ég er erlendis, þá er sú frétt sett af stað, og dreift út með miklum hraða, að ég væri orðinn heilsulaus, geti ekki sofið, hafi jafnvel orðið að fara á spítala í Englandi, og liggi þar fyrir dauðanum. Menn voru jafnvel farnir að hringja heim til vandamanna minna til að spyrja um þetta. En fjöðrin, sem varð að hænu, var sú, að ég hafði sagt við Guðmund Sveinbjörnsson skrifstofustjóra á bryggjunni, um leið og ég kvaddi hann, að ég hefði sofið lítið í tvær nætur, eins og satt var, því að ég hafði verið að afgreiða erindi vegna burtveru minnar. En af því að einhverjar frómar íhaldssálir heyrðu þetta, var sú saga búin til, að ég væri orðinn veikur og þyrfti að fara út á sjó til að sofa.

Þessar brennandi óskir íhaldsmanna um það, að ég yrði veikur hafa ekki ræzt fyrr en í vetur, er ég, í fyrsta skipti á æfinni, lá nokkurn tíma í kvefi og hálsbólgu. Enda var þá fögnuðurinn íhaldsherbúðunum svo mikill, að hv. 2. þm. G.-K. hefir fært á Alþingi opinberar þakkarfórnir fyrir veikindi mín. En nú hefir þó rógurinn um mig gengið svo langt, að jafnvel hv. 2. þm. G.-K., sem hefir breitt út um landið þær sögur, að ég væri óhófsmaður á eiturnautn, er nóg boðið, af því að hann sér, að ég muni meira græða en tapa á þessum níðingsverkum samherja hans.

Á einum stað vék hv. þm. nú á annað atriði, sem ég vil nú snúa mér að að lokum. Hann viðurkenndi, að það hefði verið rétt hjá mér í svari mínu til hv. þm. Dal., að sjálfstæði þjóðarinnar væri hætta búin, ef stjórnmálamennirnir kynnu sér ekki meira hóf en á Sturlungaöld. Ég hafði sýnt fram á, að allt þetta nýja sjálfstæðisglamur væri innantómt og ímyndað þvaður um hættu þá, er oss stafaði af Dönum, og vegna þessarar hættu þættust nú þessar gömlu íhaldshetjur ætla að koma þjóðinni til bjargar. Nú vita það allir, að Danir hafa á engan hátt misnotað þegnrétt sinn hér, og því er ástæðulaust með öllu að vera með nokkur ónot í garð Dana. Mgbl. og hv. 3. landsk. þm. hafa skrökvað upp á sambandsþjóðina og gert sýnilega tilraun til þess að rægja sambandsþjóðirnar saman með því að básúna hina dönsku hættu, sem enginn annar hefir séð. En ef Danir færu eitthvað að hugsa sér til hreyfings hér á landi, þá yrðu hinir dansk-íslenzku „bastarðar“ í Íhaldsflokknum lítilsvirði í baráttunni, og ekki myndi þjóðinni koma hjálpin frá hinum gömlu innlimunardátum og fjendum íslenzka fánans, né heldur frá leppunum fyrir Shell-félagið. Rótlausir og föðurlandslausir „spekúlantar“ myndu ekki bjarga landinu úr þeirri hættu. Nei, það er miðstéttin, hin þjóðlega miðstétt, sem síðast myndi flýja af hólmi í þeirri baráttu, og allra síðast bændur landsins. Ég vil benda á, að það eru einmitt þessar þjóðhetjur, sem Danir hafa lánað fé, sbr. lán til hv. 3. landsk. og Knud Zimsens persónulega og milljónafélagsins í Viðey.

Allt þetta gaspur um hættu, sem oss stafi af Dönum, er mjög vítavert, jafnvel svo vítavert, að Einar Arnórsson gat ekki varið það í sambandslaganefndinni þegar það bar á góma.

Hv. þm. Dal. var einn af þeim, sem beittu sér fyrir samþykkt sambandslaganna 1918 og tók þátt í samningunum. Hann má því að nokkru leyti kenna sjálfum sér um þá hættu, sem af þeim stafar, ef hún væri nokkur.

Hv. 2. þm. G.-K. velti vöngum yfir því, sem ég hafði sagt um fjárhagslega sjálfstæðið. Ég hafði bent á, hve sú framkoma hv. 1. þm. Skagf. væri óviðkunnanleg og skaðleg, að nota embættisaðstöðu sína til að hjálpa til að gera útlenda hringa að íslenzkum borgurum með leppmennsku sinni. Í þessu liggur hætta fyrir sjálfstæði vort, en þetta leggur Mgbl. og klíka þess blessun sína yfir. En þjóðin hefir fordæmt þetta athæfi.

Þá hafði ég bent á aðferðina við lántökuna 1921. Af skjölum, sem liggja fyrir þinginu, er sannað, að annar trúnaðarmaður stjórnarinnar við þessa lántöku var svo „blankur“ að hann varð að slá sér peninga til að komast til Englands, en hinn fulltrúinn sofnaði dauðadrukkinn í knæpu í Gautagötu, svo að varð að tosa honum upp í vagn til að koma honum þaðan. Það var rétt, sem Jón heit. Magnússon sagði, að áhuginn fyrir lántökunni væri mestur hjá milliliðunum, þessum prangaralýð í Höfn, sem steyptu sér eins og ránfuglar yfir fjármálaráðherra og Alþingi til að krækja í sinn hluta af þóknuninni fyrir útvegun lánsins.

Þessi sorgarsaga, sem byrjaði með fullum manni á knæpu í Gautagötu, endaði með lántöku með 15% afföllum, 7% vöxtum og veðsettum tolltekjum ríkisins. Ráðherrann, sem stóð að láninu, hafði aldrei séð veðsetningarskjalið, fyrr en í vetur er hæstv. forsrh. las það upp. Þetta er sorgarsaga, en hún er sönn. Í slíku atferli liggur hætta fyrir sjálfstæði landsins. Með þvílíkum forkólfum getur þjóðin ekki haldið frelsi sínu.

Gegn slíkri hættu af fjárhagslegu ósjálfstæði hefir verið háð hin mikla barátta Framsóknarmanna fyrir því, að gera verzlunina íslenzka og reisa sveitirnar úr rústum. Þrátt fyrir róg og lygi Íhaldsins hefir þessi stefna sífellt unnið á og mun gera það betur. Hv. 1. þm. G.-K. (BK) dreifði níðpésa um Samband íslenzkra samvinnufélaga inn á hvert heimili og taldi allt tapað, er félögin hefðu undir höndum. Seinna sat hann í matsnefnd Landsbank., og varð þá að viðurkenna, að bankanum stæði engin hætta af viðskiptum við samvinnufélögin, heldur af kaupmönnunum. Það var ekki S. Í. S., sem tapað hafði 3½ milljón kr. og kom svo til ríkisins og bað um ábyrgð á 35 milljónum. Það var Íslandsbanki, höfuðvígi Íhaldsins, þar sem það hafði fengið að leika lausum hala og sýna fjármálavit sitt og ábyrgðartilfinningu. Þegar verkamenn reyna að rétta við bæ, sem Íhaldið er búið að setja á hausinn, og biðja um ríkisábyrgð fyrir samvinnufélög sín í þessu skyni, þá berst Íhaldið á móti því með hnúum og hnefum, að ríkið taki nokkra ábyrgð á sig. Það á að vera stórhættulegt að ganga í nokkur hundruð þúsunda króna ábyrgð fyrir Ísafjörð og Eskifjörð. En Íslandsbanka setur Íhaldið fyrst á hausinn og kemur síðan til Alþingis og heimtar þjóðnýtingu á honum. Þá koma þeir veinandi og segja: Gefið oss þjóðnýtingu! Gefið oss sósíalisma! Slík er samkvæmnin og höfðingslundin í þeim herbúðum.

Það, sem mér virðist liggja fyrir nú, er náttúrlega ekki það, að fara að þjóðnýta allt, ekki t. d. að taka h/f Kveldúlf, á meðan hann er ekki kominn á kúpuna, sem maður líka vonar að ekki verði, nema hv. 2. þm. G.-K. sanni nú ummæli sín um það, hve óhentugt það sé fyrir mann, sem hafi eitthvað að gera, að vera á þingi, sanni það með því að eyðileggja sitt fyrirtæki. En það er vitanlegt, að hinn vinnandi hluti þjóðarinnar hugsar ekki með neinni ástúð um stjórnina á Íslandsbanka eða hlutafélag Coplands eða öðrum fyrirtækjum, sem mest hefir borið á hér; það lítur helzt út fyrir, að samvinna í ýmsum myndum muni verða það, sem við tekur af mestu glæfrafyrirtækjum samkeppnisstefnunnar, og þessa samvinnu myndar kjarni þjóðarinnar, ekki aðeins af fjárhagslegum ástæðum, heldur líka af þjóðernisástæðum. Ég hefi því hrakið þær kenningar, að okkar pólitíska sjálfstæði sé í nokkurri hættu vegna samvinnufélaganna. Ef um hættu er að ræða, þá er það vegna lána frá útlöndum, eins og t. d. við lánið frá 1921, eða fjármála-óstjórn eins og þá, sem átti sér stað með Fiskhringnum svokallaða eða á Íslandsbanka, en öll þessi vandræði stafa frá mönnum, sem nú kalla sig „Sjálfstæðismenn“ (í gæsarlöppum), sem ekki byggja upp neitt Sjálfstæðis-Ísland. Það gera þeir menn einir, sem borga skuldir sínar.

Annar liður í ræðu hv. þm. var það, að ef Ísland lenti í raunverulegri Sturlungaöld af innanlandsdeilum, þá væri það mér að kenna, og að ég hefði sáð einhverju óvildarfræi í hug hinnar íslenzku þjóðar. Þetta hefir þó ekki átt sér stað hjá íslenzku bændastéttinni, því að hún hefir gert mér þann heiður að kjósa mig sinn fulltrúa til þings með fleiri atkvæðum frá þeirri stétt heldur en nokkur annar þingmaður. Ekki getur það verið hjá verkamannastéttinni, því að það hefir kveðið við hjá íhaldsblöðunum, að ég sé svo hlynntur verkamönnum, enda hefir heldur ekki komið fram hjá verkamönnum, að þeir hati mig. Hverjir eru það þá, sem segja, að ég hafi sáð hatursfræjum hér á landi og sé hættulegur sjálfstæði okkar? Það eru aðeins glæfra- og óreiðumennirnir, sem standa að fjárhættufyrirtækjum hér, það eru þeir, sem hafa löngun til að ég sé drepinn, pólitíkst eða með falsvottorðum. Það eru þessir menn, sem eru á móti mér og ég á móti þeim. En hvort sjálfstæði landsins er nokkur sérstakur styrkur að fjárglæframönnum og fjársvikurum, það læt ég dugandi menn landsins dæma um.

Þá vildi ég víkja fáeinum orðum að hv. þm. Dal., sem endurtók dálítið af sínum fyrri fullyrðingum. Ég hefi svarað hv. þm. að talsverðu leyti, en hann segir sem svo: Hvað höfum við gert, sem erum fylgjandi stefnu Mgbl. hér? Hvað höfum við gert til þess að hægt sé að segja, að við höfum komið fram öðruvísi en átti að vera samkvæmt okkar utanríkispólitík? Ég hafði einmitt drepið á þetta í minni síðustu ræðu, þar sem ég gat um það, þegar hv. 3. landsk. skrifaði greinar í Mgbl. og Vísi og segir, eftir samruna Íhaldsflokksins og frelsishersins, að þessi samruni þeirra sé nauðsynlegur, af því að það sé farið að bóla á því, að Danir séu farnir að leggja undir sig landið. Þetta var gott og heiðarlegt, ef það hefði verið satt, en þegar hinn rökfimasti maður í flokknum getur ekki fært minnstu líkur, hvað þá sannanir fyrir því, þá er það áreiðanlega ósatt. Okkar áhugamál er að gera okkur fjárhagslega sjálfstæða og undirbúa það, að við getum eftir nokkur ár, þegar samningurinn við Dani getur fallið miður, að við þá verðum færir um að taka alla stjórn landsins í okkar hendur og halda síðan áfram um langa ókomna framtíð að vera frjáls og sjálfstæð þjóð. Þetta er sú heilbrigða stefna, sem við viljum vinna að, en aftur á móti er allt það glamur um einhverja ímyndaða hættu, t. d. að það sé verið að taka af okkur fiskimiðin, á meðan ekki ein einasta dönsk fiskiskúta er á þeim! En ágangsleysi Dana er ekki að þakka hv. þm. Dal., heldur því tvennu fyrst og fremst, að Danir hafa litla löngun til landsins og mjög litla möguleika til að þrífast hér í atvinnurekstri. Það stafar að nokkru leyti líka af því, að Danir eru ekki „koloniserandi“ þjóð og hafa aldrei verið, og það er mikill munur á því, hvað sumar aðrar þjóðir, okkur nærskyldar, að minnsta kosti einar þrjár, hafa meira af því í eðli sínu, svo ef við komum eitthvað á þeirra vegi, þá eru þar miklu meiri möguleikar til að gera okkur skaða í verki, af því að þeirra hugur stendur meira út á við og þær hafa betri getu til að vinna sig upp í löndum með annarlegum náttúruskilyrðum. En þetta útilokar ekki það, þar sem við höfum langan samning við Dani, að við eigum fyllilega að vera á verði, en við eigumi ekki að hrópa: Eldur! fyrr en hann er kominn upp; það á ekki að ljúga upp eldi og kalla á slökkviliðið, eins og götustrákarnir gera hér stundum.

Ég minnist hér einnar sögu úr sambúð Norðmanna og Svía á meðan Carl Johan lifði, sem bendir á það, hvernig við Íslendingar myndum fara að, hversu lítið sem færi að bera á innlimunarstefnu hjá sambandsþjóð vorri. Það var í sambandi við 17. maí, þann dag, sem Norðmenn fengu stjórnarskrá sína 1814, með von um, að þeir gætu verið sjálfstæðir. Svo eftir nauðungarsamningana við Svía byrja Norðmenn að minnast þessa dags, þegar þeir höfðu gengið frá grundvellinum undir frelsi sínu. En Svíar vildu láta þá halda hátíðlegan annan dag og beittu við þá ofbeldi til þess, og það var einmitt mótstaða Svíanna, sem varð þess valdandi, að 17. maí er svo stórkostlegur dagur hjá Norðmönnum þann, dag í dag. Það er miklu meira fjör og innilegleiki í þeirra hátíð heldur en okkar 1. desember, og af hverju? Af því að það var svo lítil „romantik“ yfir samningnum 1918. Að það hafi verið spor í áttina, neitar enginn, en það var svo lítil hrifning í sambandi við þá athöfn, og svo líka af því, að þetta hefir ekki orðið okkur eins kært og Norðmönnum, af því að Danir hafa verið svo miklu hóflegri í sambúðinni við okkur heldur en Svíar við Norðmenn. Þeir hafa verið síðan 1918 svo óáleitnir sem verið getur, og meira að segja próf. Knud Berlin, sem var okkur mjög óvinveittur áður, hefir sjálfur sagt: Nú höfum við samið við Íslendinga. Látum oss halda þann samning. — En það mun sýna sig, að hvenær sem Danir færu að stinga hrammi sínum í okkur, eins og Carl Johan gerði við Norðmenn, þá myndi það ekki vera Morgunblaðsmennirnir, heldur allt aðrir Íslendingar, sem yrðu fremstir í baráttunni. Nei, það er svo langt frá því, að þessir nýju vinir hv. þm. Dal. séu ákaflega skeleggir; ef eitthvað reynir á, þá fara þeir til Dana; ef þeir þurfa að fá lán til húss, biðja þeir Dani, og það stundum ekki á sem viðkunnanlegastan hátt. Mætti þar nefna það dæmi, þegar einn flokksbróðir hv. þm. barðist með hnúum og hnefum fyrir því, að samið væri við dönsk félög um endurtryggingu fyrir Reykjavík, enda þótt þýzkt félag hefði boðið mun betri kjör, svo að munaði 60 þús. kr. á ári til sparnaðar fyrir Rvík; en um sama leyti var þessi maður að reyna að fá lán hjá dönskum félögum til að geta komið upp stórhýsi fyrir sjálfan sig. Eða hvað á að segja um það, þegar slíkt kemur fyrir, að ekki má syngja Íslendingabrag, af því að það kemur svo illa við taugarnar í hinum nýju pólitísku vinum hv. þm., að þeir stökkva á burtu úr samkvæmum, ef þetta gamla kvæði frá fyrri baráttu Íslendinga er sungið? Og af hverju er svo þetta? En þetta segi ég ekki til hv. þm. Dal., því að hann mun sjálfsagt vel þola að heyra Íslendingabrag sunginn, en því er nú svo háttað, að töluvert mikið af helztu mönnunum, sem hv. þm. hefir bundizt í einskonar pólitískt hjónaband við, hatar bláhvíta fánann, menn, sem reyndu að kúga æskulýðinn á Þingvöllum árið 1907 til að draga niður fánann á tjaldi sínu, en láta Dannebrog í staðinn, af því að þeir þoldu ekki að sjá þessa byrjun á íslenzku sjálfstæði. Nei, það er síður en svo, að það sé mikils að vænta af mörgum þessum nánustu fylgismönnum hv. þm. Ég þykist vita, að hann sjálfur muni jafnan greiða atkvæði með íslenzku sjálfstæði og öðrum skynsamlegum hlutum; en ég benti hv. þm. á, að hann er gagnslaus maður, þegar verið er að slíta útlenda fjármálafjötra af landinu, t. d. við að leysa áburðar- og síldarverzlunina úr útlendum hömlum, vegna þess að þar var hann að sækjast eftir vinfengi við þessa sjúku aðila hér innanlands, sem ekki þora að vera sjálfstæðir í verki, ef ekki fjármagn á í hlut.

Hv. þm. minntist svo á „kritik“ á Dönum í sambandi við varðskipin. Ég sagði það, að stundum eru foringjar duglegir, en stundum eru það duglitlir menn, og þetta viðurkennir maður eftir því sem rétt er. En það, sem hv. þm. hefir verið töluvert aðgætinn með, í staðinn fyrir að gagnrýna þetta mál með rökum, eins og þetta væri íslenzkt skip, þá hefir þetta mál verið flutt af ókurteisi, til að æsa upp þessa „stemningu“ innanlands, að það sé „eldur uppi“ í Danmörku gagnvart Íslandi

Ég álít, að það eigi algerlega hið sama að vera um viðhorf landhelgisgæzlu, hvort sem skipin eru íslenzk eða dönsk, því að hún á að miðast við íslenzkar þarfir, og það árið, sem danska gæzlan var mest áfelld, þegar tiltölulega linur maður var yfir Fyllu, þá var það um mánaðartíma á vetrarvertíðinni, þegar Óðinn var fyrir suðausturströndinni, þá tók hún engan togara, en var alltaf á ferðinni úti fyrir Vesturlandi og gerði fullkomið gagn á þeim tíma, að verja landhelgina. Svo var aftur léleg vinna hjá skipinu á öðrum tíma, og það var alveg sjálfsagt að víta það, en það verður að gera það með réttlæti, eins og það væri okkar eigið skip, en ekki með neinni löngun til að spotta þessa vinnu, af því að það vildi svo til, að skipið var eign okkar sambandsþjóðar.

Hv. þm. Dal. sagði, að það liti svo út í sambandslaganefndinni, að Danir hefðu heimtað það af mér, sem manni úr stjórn Íslands, og eins og kallað mig fyrir rétt út af því, að flokkurinn á Íslandi hefir kallað sig Sjálfstæðisflokk, og hefði ég átt að segja til, hvort það væri móðgun við Dani. Þessi löggjafnaðarnefnd er búin til af hv. þm. sjálfum og er til þess að slétta yfir árekstrana á milli þjóðanna. Og hvað er þá eðlilegra en að það sé þá ekki ég, sem er spurður um mál andstæðinga minna, heldur þeir. Danir spurðu líka blátt áfram íhaldsleiðtogana tvo, sem þarna voru; þeir höfðu sérstaklega haldið því fram í Mbl., að tveir slíkir menn þyrftu að fara til að berjast fyrir föðurlandið móti Dönum nú í ár. Ég veit ekki, hvort þeir hafa haft nokkra hugmynd um það, sem staðið hefir í Morgunblaðinu, en þeir sögðu: Við höfum lesið greinar eftir hv. 3. landsk. og aðra merka menn í Íhaldsflokknum, sem segja það, að þeir séu hræddir við okkur, að við viljum skera upp herör gagnvart Íslendingum, pólitískt og í fjármálum. Okkur langar til að heyra, hvað það er, sem við höfum brotið á móti frelsi Íslendinga.

Ég benti á við þessa umræðu, að það væri hægt að misnota jafnréttisákvæðið, um leið og ég jafnframt viðurkenndi, að ekki sæist að það hefði verið gert ennþá. Svo hefir bæði hv. þm. Dal. og fleiri verið að spyrja um það, hvort Stauning hefði heimtað það af okkur, að við kölluðum Morgunblaðsliðið ekki annað en Íhaldsflokk, kölluðum þá ekki Sjálfstæðisflokk. Ég hefi ekki tekið þessar spurningar sérlega alvarlega. En greinar hv. 3. landsk. um yfirvofandi danska innlimunarhættu hafa gert Ísland hlægilegt í augum þeirra manna, er eitthvað vita um íslenzk mál erlendis. Ein ástæðan til þess, að við Framsóknarmenn höldum áfram með íhaldsnafnið er blátt áfram sú, að við vitum, að hagur þessara manna er og verður jafnan í ætt við kyrrstöðu.

Ég er áfelldur fyrir það af Morgunblaðinu, sem ég sagði í Danmörku eftir kosningarnar 1927. Ég gerði ráð fyrir, að möguleikar væru til þess, að íhaldsstjórnin sæti við völd áfram, ef hún fengi stuðning frá sócíalistum, sem höfðu haft eitt mál sameiginlegt við íhaldið, nefnilega gengismálið eða hækkun krónunnar.

Það lítur út fyrir, að þeir hafi viljað, að ég hefði talið það ómögulegt, en ég vildi ekki gera meira úr flokkadeilum hér en þurfti, er ég talaði við erlenda menn, talaði því um þennan fræðilega möguleika, þó að ég á hinn bóginn hefði litla trú á, að sú samvinna tækist.

Jónas Þorbergsson fyrrverandi ritstjóri lýsti því yfir í Tímanum um það leyti, sem þessi nafnaskipti urðu, að þar sem þetta væru sömu menn og hefðu verið í íhaldsflokknum og hefðu sömu stefnu, þá mundi flokkurinn verða nefndur áfram sínu rétta nafni, Íhaldsflokkur, meðan hann væri ritstjóri Tímans, að því leyti sem hann minntist á þessa andstæðinga sína. Hér er sem sé ekkert sjálfstæði á ferðum. Það er íhald og ekkert nema íhald, sem búið er að fara svo með nafn flokksins, að hann ætlaði að flýja undir nýtt nafn sér til lífs og bjargar. En það hefir ekki tekizt betur en svo, að megnið af íhaldskjósendum kallar sig íhaldsmenn og gleymir nafnaskiptunum.

Þetta sjálfstæðisnafn heyrist hvergi né sézt nema í íhaldsblöðunum og einstöku sinnum hér í Alþingi. En það er flokksleiðtogunum ómögulegt að fá einn einasta kjósanda til að trúa því, að þeir séu nú allt í einu orðnir virðulegir sjálfstæðismenn. Þeir kunna eins illa við þetta sjálfstæðisnafn eins og fátækur betlari mundi kunna við það, að hann væri klæddur í kjól og silkisokka og settur á hann silkihattur og lakkskór og hvítt um hálsinn. Hann mundi kunna þúsund sinnum verr við sig í þeim búningi en gömlu tötrunum, sem hann hafði alltaf borið áður. Alveg er eins með þennan sjálfstæðis- og frelsishjúp, sem háttv. þm. Dal. hefir viljað klæða gamla innlimunarfólkið í.

Ég ætla að enda þessa ræðu mína, sem ef til vill verður sú síðasta við þessa umr., með því að taka það fram, að það er vonlaus barátta fyrir íhaldið að ætla að flýja sjálft sig. Þeir kenna hv. 1. þm. Skagf. og hv. 3. landsk. um ósigurinn við kosningarnar 1927. Þeir sjá, að allt er að fara í hundana hjá þeim og segja: „Bara að við gætum nú fengið nýja foringja, nýtt nafn og nýtt „prógram“. Og hvað hafa þeir þá fengið? Þeir hafa fengið nýtt nafn, sem almenningi dettur ekki í hug að nota, og þeir hafa fengið hv. þm. Dal. Árangurinn sýndi sig líka á töpum þeirra við bæjarstjórnarkosningarnar í vetur. Aldrei hefir Mbl. gengið verr í Reykjavík en þá. Það var því meira en lítill misskilningur hjá íhaldinu, að því takist að flýja sjálft sig og afleiðingar gerða sinna. Það, sem íhaldsflokkinn vantar, er góður málstaður, en ekki nýir leiðtogar. Hv. 1. þm. Skagf. og hv. 3. landsk. eru ekki lakari menn en íhaldsflokkurinn getur vænzt eftir að fá sér að foringja. En það, sem fer með þessa menn, er málstaðurinn. Íhaldsmenn gætu tekið sér hv. þm. Dal. fyrir foringja í staðinn fyrir hv. 3. landsk., en það væri ekki til neins. Það eru ekki foringjarnir, sem hafa farið með flokkinn, ekki nafnið. Það er málstaðurinn.

Fyndinn maður hefir sagt, að íhaldið hafi nú á tæpu ári tapað 5 dýrgripum: Fyrst misstu þeir nafn flokksins, hið viðurkennda íhaldsnafn. Næst misstu þeir foringja flokksins, hv. 3. landsk., sem valt úr flokksstjórninni. Þriðja óhappið var að missa blað flokksins, sem var lagt á höggstokkinn nú um áramótin. Fjórði ósigurinn var að missa banka flokksins með nokkurra milljóna gjaldþroti, þar sem var Íslandsbanki. Síðast kastaði þingflokkurinn fyrir borð eina kvennmanni flokksins, hv. 2. landsk. sem ekki á að fá að vera lengur á íhaldslistanum. Sá flokkur, sem þannig leggur hönd á sjálfan sig, hlýtur að eiga stutt líf fyrir höndum.