11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Pétur Ottesen:

Af því mér virðist, að verið sé að gera tilraun til að fella þetta frv. nú, þá vildi ég svara hv. 1. þm. Árn. nokkrum orðum.

Mér finnst það fremur óviðeigandi af hv. þm. að vera nú að ráðast á sitt eigið fóstur. (JörB: Frv. er það ekki). Jú, einmitt. Uppistaðan í því er frá mþn. í landbúnaðarmálum, sem hv. 1. þm. Árn. er í. Og því síður er hv. þm. sæmandi að leggjast á móti frv. nú, þegar þingið er búið að ganga svo frá því, að því má teljast sæmandi að láta það frá sér fara sem lög. En það hefði því ekki verið, ef frv. hefði ekkert verið breytt frá því, sem hv. 1. þm. Árn. og meðnm. hans gengu frá því. (JörB: Þetta eru nú bara orð hv. þm. Borgf.). Já, það eru mín orð, og ég stend við þau, auk þess sem þegar er komið á daginn, að stórmikill meiri hl. þingsins er mér sammála um þetta. Það var ekki gert ráð fyrir í frv., að aðrir en hreppsnefndir hefðu á hendi eyðingu refa, en það er vitanlegt, að það eru tveir aðilar aðrir, sem grenjavinnsluna hljóta einnig að annast um. Það var ómögulegt að samþykkja frv. í sinni upphaflegu mynd; þessum tveimur aðilum varð að bæta inn í það, annars var það óframkvæmanlegt. Hv. 1. þm. Árn. hefir viðurkennt, að frv. hafi batnað að þessu leyti, og sagði jafnframt, að sér hefði ekki verið kunnugt um neitt dæmi um þannig fyrirkomulag á fjallskilamálunum, sem gerði þessa breyt. á frv. óhjákvæmilega.

Frv. var óframbærilegt eins og hv. mþn. gekk frá því. Hv. landbn. þessarar hv. d. hefir fært það í þannig form, að það er þó frambærilegt, a. m. k. að því er þetta atriði snertir.

Það, sem hv. þm. virtist byggja á andstöðu sína við þetta fóstur sitt, sem nú hefir tekið talsverðum þroska á leið sinni gegnum þingið, var það, að breytt hefir verið ákvæðunum í 5. gr. um að þóknun skotmanns fari eftir því, hvað honum verður ágengt.

Með frv., eins og það er nú, heldur hann, að lagður væri grundvöllur þess, að allt landið verði að einu refabúi. Hann heldur, að öll fullorðnu dýrin yrðu sett á, en aðeins yrðlingarnir teknir. Ég er alveg undrandi yfir þessari skoðun. Veit hann ekki, að hreppsnefndir eða fjallskilastjórnir þessa lands hafa það að sínu markmiði í þessu máli að láta einskis ófreistað til að ráða niðurlögum dýrbítsins? Heldur hann, að þær ráði skotmenn til að liggja á grenjum, sem aðeins taka yrðlingana, en setja fullorðnu dýrin á? Nei, það er síður en svo. Dýrbíturinn er ægilegri vágestur en svo í augum íslenzkra bænda, að ráðandi menn fari þannig að. Fjallskilastjórnir hafa svo mikinn áhuga á að útrýma refunum, að þær munu ekki ráða aðra skotmenn en þá, sem þær hafa vissu fyrir, að vinni öll dýrin, svo sem frekast eru föng á. Þær hafa nóg ráð til að fylgjast með í því, hvort skotmaðurinn gerir skyldu sína eða ekki. T. d. eiga þær eftir frv., eins og það er nú, að ráða vökumann. Samkv. frv. hv. 1. þm. Árn. átti skotmaðurinn sjálfur að ráða vökumann; var því þetta atriði verr tryggt heldur en nú er í frv.

Einnig geta þeir, sem um grenjavinnsluna sjá, krafizt sannanamerkis af skotmanni um það, að hann hafi unnið dýrin. Þeir munu áreiðanlega brynja sig með öllum ráðum gegn þessum ófögnuði, sem e. t. v. hefir einhversstaðar átt sér stað, þó ég þekki þess engin dæmi, að fullorðnu dýrin séu látin sleppa af ásettu ráði.

Hinsvegar voru í frv. hv. 1. þm. Árn. ákvæði svo einskorðuð um hlutfallsgreiðslu til skotmanns af veiðinni, að þar sem lítil von er um veiði, gat það útilokað, að nokkur skotmaður fengist.

Þó að reynslan sýni e. t. v. þegar frv. kemur til framkvæmda, að betur hefði mátt ganga frá einstökum atriðum í því, þá er augljóst, að það er mikið betra nú heldur en þegar hv. mþn. í landbúnaðarmálum skilaði því til þingsins; það betra, að nú er sæmilegt af þinginu að gera það að lögum. Það, sem hv. þm. var að tala um káklöggjöf, hefði því aðeins átt við, ef frv. hefði verið samþ. eins og hann gekk frá því; þá hefði verið að ræða um fullkomið kák, þar sem það átti ekki við það skipulag, sem er sumstaðar á fjallskilastjórninni, og hefði því orðið óframkvæmanlegt. Hv. þm. hefir lítið lagt til þessara mála frá því við 1. umr., og er því undarlegt, að hann skuli nú á síðustu stundu snúa við blaðinu og gera tilraun til að hefta framgang þessa nauðsynjamáls. En undirtektir hv. d. verða ekki þannig, að þessi tilraun hans heppnist.

Þegar þetta mál kom frá hv. Ed., benti ég á, að varhugavert mundi vera að breyta því hér. Nú hefir hv. landbn. komið með eina brtt., og tel ég hana fremur til bóta. Samkv. viðtali við hv. landbn. Ed. mun það ekki hefta framgang málsins, þó þessi brtt. verði samþ., og mun ég því greiða henni atkv. mitt.

Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. svari þeim ómaklegu ummælum, sem hv. 1. þm. Árn. hafði um hv. landbn., og ætla ég því ekki að fara að ræða um þau frekar.