11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Hv. 1. þm. Rang. hefir nú raunar tekið af mér ómakið að svara hv. 1. þm. Árn. fyrir landbn. Og hvað sem annars má um þetta mál segja, þá held ég, að allir hljóti að viðurkenna, að nógu mikið sé búið að tala um það. Mun ég því segja fátt eitt að þessu sinni.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf., að þessar aths. hv. 1. þm. Árn. hefðu átt að koma fyrr fram.

Um greiðslu til skotmanns er það að segja, að ég hafði um það atriði sérstöðu í n., og er þar á sama máli og hv. 1. þm. Árn. En nú hafa báðar hv. d. sýnt vilja sinn hvað þetta snertir, og þýðir ekki um það að fárast nú á síðasta stigi málsins.

Þá hélt hv. þm. því fram, að ábúendur mundu fara að heimta ágóðahlut eftir á, þegar þeir sæju, hver ágóði yrði af grenjavinnslunni, þó þeir ekki í fyrstu ákvæðu að leggja fram helming kostnaðar. Þetta getur alls ekki átt sér stað. Hv. þm. ætti að lesa betur síðasta málslið till. Þar er svo ákveðið, að ef ábúandi ætli sér að nota rétt sinn til að taka þátt í kostnaði og ágóða við grenjavinnsluna, þá verði hann að senda skriflega tilkynningu um það fyrirfram. Það geta því engar deilur orðið um þetta eftir á.

Þá var hv. 1. þm. Árn. að minnast á ráðunauta, sem landbn. mundi hafa haft í þessu máli. Það hefir áður komið fram hér í hv. d., að utanaðkomandi menn mundu hafa teymt n. afvega. Eins og hv. meðnm. minn hefir þegar gert, vil ég mótmæla þessum aðdróttunum til landbn. Við töluðum að vísu við eina tvo menn, sem eru þessum málum sérstaklega kunnugir. En ég mótmæli eindregið, að við höfum látið leiðast af þeim í blindni, eða farið eftir till. þeirra meira en góðu hófi gegnir. Og allra sízt höfum við tekið tillit til ráða þeirra með persónulega hagsmuni þeirra fyrir augum.

Mér skildist hv. 1. þm. Árn. vera óánægður með þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv. Og hann er þó líka á móti brtt., sem hér liggur fyrir. Ég skil ekki, hvað honum þykir betra að skylda menn til að leggja fram fé til grenjavinnslunnar og taka ágóðahlut, ef nokkur er, heldur en að láta menn sjálfráða um það. Því ekkert slíkt var í frv. upphaflega, en hv. Ed. bætti því inn í frv.

Hv. þm. Barð. var að tala um þverúð hjá landbn. Hv. 1. þm. Rang. hefir nú svarað því. Ég kannast heldur ekki við, að n. hafi sýnt neina þverúð, nema ef hv. þm. telur það þverúð, að gera till. eftir beztu sannfæringu, en hlaupa ekki eftir öllu, sem aðrir segja. Ég kalla það ekki þverúð, heldur sjálfstæði.

Þá talaði hv. þm. um, að hér eftir mundu aldrei verða teknir yrðlingar á víðavangi, þar sem hrepparnir ættu þá. En samkv. frv. eiga þeir menn, sem yrðlinga taka á víðavangi, að fá ágóða af því.

Hv. þm. áleit, að þóknunin fyrir hlaupadýr yrði ærið þungur baggi á sýslusjóðunum sumstaðar. En ef svo mikið er af refum, að þetta verði tilfinnanleg útgjöld fyrir sýslusjóðina, þá sýnist ekki muni vera vanþörf á að ýta undir, að þeim sé eytt. Það sannar ekkert, þó að refirnir í Barðastrandarsýslu hafi ekki gert mikið illt af sér síðustu árin. Það gæti t. d. breytzt, ef harðnaði í ári. (HK: Nei, nei!). Það er líklegt, að refir leggist fremur á fé, þegar þeir eiga erfitt með að ná í annað æti, og a. m. k hefir verið talið svo, að ekki væri öruggt með fé þar, sem refir eru. Hitt má vera, að þessu ákvæði hefði mátt breyta, en það þýðir ekki úr því sem komið er, enda hefir hv. þm. enga brtt. flutt.

Ég get þakkað hv. þm. Borgf. fyrir góð ummæli um landbn. nú. Kom mér það reyndar dálítið á óvart, þar sem hann hafði einna mest deilt við n. áður. (PO: Það var um allt önnur atriði. Vill hv. þm. e. t. v. fara að rifja það upp aftur?).