11.04.1930
Neðri deild: 77. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 1520 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

7. mál, refaveiðar og refarækt

Hákon Kristófersson:

Ég verð að segja, að það er undarlegt, ef á að samþ. þannig till., að málfrelsið sé tekið af mönnum. Slík atkvgr. yrði engum til sóma.

Ég hefi í hyggja að bera fram brtt., sem að vísu verður skrifleg. Hún er við 9. gr. og hljóðar þannig, að á eftir orðunum „að hann hafi unnið“, komi: „þó getur sýslunefnd hækkað gjald þetta“.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég hefði verið með sleggjudóma, sem væru ekki svaraverðir, og því bezt að þegja við. Hvers vegna tók hann þá ekki það bezta ráð? Ég held, að ég hafi rökstutt orð mín sæmilega vel. Frv. ber það með sér, að annarsvegar er verið að verðlauna og hinsvegar verið að sekta í sama tilfelli. Ef það er ekki ósamræmi, þá veit ég ekki, hvað ósamræmi er.

Annars ætla ég ekki að fara að halda langa ræðu um þetta mál. Ég býst við, að hv. þm. V.-Sk. þykist ekki vera kominn hingað til að sannfærast. (LH: A. m. k. ekki af hv. þm. Barð.). Ég ætla líka að sleppa því, og læt hv. 1. þm. Árn. um þær rökfærslur.