12.03.1930
Neðri deild: 51. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, fjárlög 1931

Einar Jónsson:

*) Mér þykir nú óvænlega horfast um fundarsókn hv. þm., að ekki skuli vera nema rétt helmingur deildarmanna viðstaddur við fjárlagaumr. En það batnar ekki þótt bíði, og þess vegna mun ég nú gera nokkra grein fyrir brtt. minni, enda þótt það sé hálfleiðinlegt í slíku fámenni. En þess ber að gæta, að umr. breyta sennilega litlu um afdrif slíkra till., svo að það er að því leyti sama, hvenær mælt er fyrir þeim.

Um þessa till. mína er það að segja, að ég hefi talað um hana áður, á þinginu í fyrra, en með því að ég býst tæplega við, að það sé mönnum í svo fersku minni, þykir mér rétt að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum. Hér er nefnilega um svonefndan Fjallabaksveg að ræða. Þessi vegur er í hinu mesta óstandi og lítt fær um marga tíma árs. Er það Rangæingum fullkomlega um megn að halda honum við svo að í lagi sé. Ég varð þess nokkuð var í fyrra, að mönnum var ekki ljóst, um hvaða veg væri eiginlega að ræða, og þykir mér því rétt að drepa lítillega á það nú. Þessi vegur, sem öðru nafni nefnist Landvegur, liggur upp úr miðjum Holtunum og upp um Land og upp fjöll og öræfi, alla leið austur í Skaftártungu. Það hefir verið leitazt við að fá veg þennan tekinn í þjóðvegatölu, en sú viðleitni hefir enn ekki borið árangur. Hefir samgmn. sýnt venjulegt tómlæti um það mál. Þegar vegalagabreytingarnar komu fram á öndverðu þingi í vetur, voru margir í efa um, hvort eigandi væri undir því að fela samgmn. athugun þeirra mála. Hefir það jafnan orðið hlutskipti þeirra mála, sem þessi nefnd hefir fengið til meðferðar, að þau hafa ekki sézt framar, fyrr en þá svo seint, að í óefni væri komið um afgreiðslu þeirra. Hvað þennan veg snertir, þá er ég alveg viss um, að Rangæingum væri það mjög kært, að þessi vegur væri tekinn í þjóðvegatölu, vegna þess að vegur þessi er ekki byggðarmönnum fremur til nytsemdar en öðrum landsmönnum. Það eru ekki fremur Rangæingar en aðrir, sem nota þennan veg; t. d. hefir umferð um hann stórlega aukizt síðan Hekluferðir tóku að tíðkast. Bílaumferð um þennan veg er mjög mikil í sambandi við skemmtiferðir til Heklu, sem mjög fara í vöxt ár frá ári. Það er því líkt um þennan veg að segja og um Fljótshlíðarveginn, — sem hv. samgmn. liggur á sem endranær, — að bílaumferð aðvífandi manna gerir Rangæingum mjög erfitt um viðhaldið. Af þessu leiðir svo það, að viðhald annara vega í Rangárvallasýslu er í hinu megnasta ólagi, vegna þess að allt vegafé sýslunnar rennur til þess að halda við þessum tveim vegum, og hrekkur þó ekki til. Þó hefir verið stofnaður sérstakur vegasjóður, til þess að reyna að standa straum af þessum gífurlegu útgjöldum, en það virðist ekki nægja. Ég fer í till. minni þá leið, að leggja til, að fjárveiting til sýsluveganna væri hækkuð um 12 þús. kr., með það fyrir augum, að þessi hækkun rynni til Fjallabaksvegarins. Ég vil mega vænta þess, að jafnoft og búið er að skýra þetta mál fyrir hv. deild, þá loki hún ekki lengur augunum fyrir þeirri brýnu nauðsyn, sem liggur að baki þessari till. minni. Ég held líka, að Rangárvallasýsla sé vel að því komin, að hún fái þessu framgengt. Við skulum aðeins athuga fjárlögin og sjá, hversu mikið Rangárvallasýsla ber úr býtum, samanborið við aðrar sýslur landsins. Að þeirri athugun lokinni dylst engum, að þessi sýsla ber mjög skarðan hlut frá borði. Vil ég þó ekki um það sakast, því að hér er ekki um hreppapólitík að ræða af minni hendi. En ef hv. þdm. athuga það, að Rangárvallasýslu eru aðeins ætluð örfá hundruð króna, sem sé 200 kr. til læknisvitjana í Eyjafjallahreppum og 400 kr. til konu einnar í Fljótshlíð, sem skarað hefir fram úr í skógrækt, og þetta gerir samtals 600 krónur — segi og skrifa sex hundruð — þá ættu hv. þm. að geta greitt þessari till. minni atkv. með mjög góðri samvizku. Flest önnur kjördæmi fá stórar upphæðir til ýmsra þarfa, og ef samræmi og réttlæti á að ráða í þessum sökum, þá ber sannarlega að ljá þessari till. eyra. Annars skal ég segja það í þessu sambandi, að mér virðist koma nokkuð út á eitt, hvernig hv. fjvn. leggur sig í líma til þess að jafna útgjöldunum niður á héruð landsins, því að deildin virðist hafa till. hennar að engu, — að ég ekki tali um hæstv. ríkisstjórn, sem sóar fé landsins eftir eigin geðþótta, hvað sem fjárlögin segja og hversu sem þingið mælir fyrir um meðferð á ríkisfé. Það virðist því svo sem fjvn. sé til lítils, og sama hversu mikla vinnu hún leggur í athuganir sínar og umsagnir og hversu mikla alúð hún leggur við starf sitt. Hæstv. núv. stj. þykist upp úr því hafin að hlíta vilja þingsins, og allt þetta mikla starf, sem Alþingi leggur í afgreiðslu fjárlaganna, er því í rauninni unnið fyrir gíg. — Hvað þessum vegi viðvíkur, þá sé ég ekki, að um nema tvennt sé að ræða, að ríkið taki hann í þjóðvegatölu, eða það taki að sér viðhald hans sérstaklega. Sýslan er þess ekki umkomin. Ef vegurinn er ófær sökum ónógs viðhalds, þá hefir það miklar búsifjar í för með sér fyrir Landmenn, svo að þeir verða að taka á sig langa króka til þess að komast leiðar sinnar. Ég býst ekki við að þurfa að fara fleirum orðum um þá brýnu nauðsyn, sem liggur að baki þessari málaleitun, og ef svo færi, að þingið vildi ekki sinna henni, þá vænti ég þó í lengstu lög, að þingið sjái sér fært að taka veginn upp í vegalögin, og ég vona, að samgmn. sjái sóma sinn í því að svæfa ekki það mál. Hefir nefndin að maklegleikum sætt hörðu ámæli af meðferð slíkra mála, svo að hæstv. forseti hefir jafnvel orðið að skerast í leikinn. Er slíkt framferði n. með öllu óverjandi, því að vitanlega eiga málin að koma fram í deildinni til umr. fyrr en í ótíma. Ég vil fyrir mitt leyti mótmæla þessu framferði n. Fyrir skömmu ámálgaði ég það við n., að hún afgreiddi brtt. mína umsvifalaust, og lofaði hún því, en nú er liðin vika síðan og ekkert kemur frá henni. Þykir mér nú allóvænlega áhorfast, og þess vegna flyt ég þessa brtt. við fjárlögin, því allillt er að eiga nokkuð undir náð hv. samgmn. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um aðrar till., sem komið hafa fram; býst við að láta nægja að greiða atkv. um þær. Læt ég því máli mínu lokið, til þess að tefja ekki tíma þingsins um skör fram. Vil ég vænta þess í lengstu lög, að þingið taki þessum málaleitunum Rangæinga með skilningi og velvild, svo sem vera ber.

* ) Ræðuhandr. óyfirlesið.