31.03.1930
Neðri deild: 67. fundur, 42. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1931

Ólafur Thors:

Eftir slíka ræðu, sem hæstv. dómsmrh. hefir nú flutt, er óþarfi að koma með langa aths. Ræðan var svo löng, að hún var líka aths. við sjálfa sig og ráðh. Ég skal því aðeins drepa á örfá atriði af því, sem hann minntist á og skal ljúka því af á 5 mín., svo sem mín er skylda.

Hæstv. ráðh. hefir nú leynzt hér í þinginu við að lesa Manninn frá Suður-Ameríku, og þegar hæstv. forseti kvaddi hann til að tala, var hann víst sofandi og kom svo hingað nuggandi stírurnar úr augunum og talaði eins og menn tala, þegar þeir hafa sofið stutt. Hann lofaði að tala stutt, en hélt svo ræðu í 1½ klukkustund.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri eins og vanalega, að þegar tekið væri í lurginn á mér, þá linaðist ég undir eins. Ég ætla ekki að endurtaka orð þau, sem ég hefi beint til hæstv. ráðh., en ég býst við, að flestir hafi skilið, að þau voru töluð af fullri einurð.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði reynt að koma því inn hér í deildinni, að Magnús heitinn Kristjánsson ráðh. hefði verið persónulegur óvinur sinn, en það er ekki rétt. Ég hefi aldrei reynt það, en hitt var víst, að Magnús sýndi fyrirlitningu sína á hæstv. ráðh. með því að standa upp úr ráðherrastólnum og lýsa því yfir, að hann vildi ekki vera lengur á þingi en hann væri einráður orða sinna og gerða. Hv. dm. vissu það ekki þá, en vita það nú, að hæstv. dómsmrh. hafði viljað fá Magnús til þess á flokksfundi að koma opinberlega fram öðruvísi en Magnús vildi sjálfur. Hæstv. ráðh. sagði, að Magnús hefði borið meiri fyrirlitningu fyrir mér en öðrum. Þessi látni þm. var mjög hreinskilinn og framkoma hans við mig var þannig, að engin ástæða var til að halda, að hann bæri illan hug til mín. Þvert á móti var framkoma hans við mig þannig, að hann virtist miklu fremur bera hlýjan hug til mín.

Hæstv. dómsmrh. minntist á veitingu læknisembættisins í Keflavík í ræðu sinni og sagði, að það vekti fyrir sér í embættaveitingum að leita uppi hæfasta manninn. En nú vita allir það, að hann hefir ekki tekið hæfasta manninn. Þetta bendir til, að hæstv. ráðh. sé ekki sjálfráður gerða sinna, enda er það í samræmi við það, sem heyrzt hefir á síðustu dögum um sálarástand hæstv. ráðh.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að ég hefði verið svo elskulegur að gefa þá yfirlýsingu, að ég hefði persónulegt hatur á sér. Þetta hefi ég vitanlega aldrei sagt. Enda er það mála sannast, að það verða að vera meiri menn en hæstv. dómsmrh. til þess, að ég geti hatað þá. Ég sagði, að þingið breytti um blæ, þegar hæstv. dómsmrh. kæmi þangað, og að það væri annar andi í því, þegar hann væri þar, og að hann væri sem eitur í þinginu vegna þeirrar illgirni og haturs, sem hann sýndi bæði þinginu og þjóðfélaginu. Ég óska þess því af heilum hug, að hann verði kveðinn niður fyrir fullt og allt úr íslenzku stjórnmálalífi. Ég óska hæstv. ráðh. þess bezta og þá fyrst og fremst, að hann hverfi úr stjórnmálalífi okkar til fulls. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég hafi verið að beita einhverjum óeðlilegum meðulum til að koma honum út úr stjórnmálalífinu. Ég er ekki vanur slíku, og ég ber auk þess svo mikið traust til þjóðarinnar, að ég trúi því og veit, að hann fellur á sínum eigin gerðum. Það er ekkert ánægjulegt, að sérfræðingur í sálsýki skuli hafa gefið hæstv. ráðh. það vottorð, sem hann hefir gefið honum. Ég hefði heldur kosið að leggja hæstv. ráðh. að velli í vopnaviðskiptum á pólitíska vígvellinum. (Forseti: Þetta er aðeins stutt aths.). Já, hún skal verða styttri en ræða hæstv. ráðh., en þar sem svo margir flokksmenn mínir eru fjarstaddir, sem hefðu viljað gera aths., þá er ekki ósanngjarnt, að ég fái að bæta örfáum orðum við. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði dróttað því að sér, að hann væri drykkjumaður. Ég hefi ekki gert það; ég veit, að hæstv. ráðh. er það ekki. Ég sagði, að mörgum hefði dottið í hug, að hann neytti óeðlilegra meðala vegna þess, hve ofstækisfullur hann hefði verið í deilum. Ég hefi því hvorki borið á hann nautn eiturlyfja né drykkjuskap. En hitt veit ég; að hæstv. ráðh. hefir afsakað ofstæki sitt með drykkjuskap. Það hefir hann gert við flokksm. sína. (Dómsmrh.: Vill hv. þm. sanna þetta?). Ég skal taka þessi orð aftur, ef hæstv. ráðh. fær yfirlýsingu um það frá flokksm. sínum, að það sé rangt að hann hafi afsakað sig með drykkjuskap. En sé það rétt, að hæstv. ráðh. hafi í raun og veru afsakað ofstæki sitt með þessu, og það er rétt, þá sýnir það, hvað ástandið er alvarlegt. (Forseti: Þá er þessari aths. lokið). Já, ég beygi mig auðvitað undir vilja hæstv. forseta, en það þarf rólyndi til að láta sér nægja 5 mín. aths. eftir 2 tíma ræðu hjá hæstv. dómsmrh.